29. nóvember 2003  #
Langavitleysa

Ekki er ég að standa mig í blogginu og samt er nóg til að blogga um. Hmmm...kannski þess vegna sem ég er ekki að standa mig, það er svo mikið að gerast að ég hef varla tíma til að setjast við tölvuna ;)

Fyrst ber að nefna frænkuboðið síðasta fimmtudagskvöld á Selfossi. Selma sá um boðið en hélt það heima hjá Eddu. Við föndruðum flestar jólakúlur með þrívíddarmyndum og reyndum okkar besta til að fá vöðvabólgu og hálsríg við að klippa út myndirnar. Ég náði ekki að klára mína kúlu en lauk við að klippa og líma hana saman í dag. Á reyndar eftir að setja borða utan um og til að hengja hana upp með.

Á föstudagseftirmiðdeginum komu Karlotta og Oddur í pössun til mín í tæpa fjóra klukkutíma. Við byrjuðum á því að föndra jólatré og lita jólasveina og krakkarnir léku sér með dótið úr leikfangakistunni en hápunkturinn var líklega salibunuferðin yfir á Miklatún. Þar er nefnilega frábær brekka til að renna sér í, há og löng og engir bílar á ferli fyrir neðan. Krakkarnir voru með þoturassa með sér og renndu sér þangað til það var orðið of kalt (þ.e.a.s. fyrir mig, áhorfandann ;)...) til að halda áfram.

Ég vaknaði síðan snemma í morgun til að fara upp í skóla. Þar komu saman milli kl. 10 og 12 í dag krakkarnir úr bekknum mínum ásamt foreldrum og nokkrum systkinum til að skreyta piparkökur. M.a.s. Bóbó bekkjarbangsi mætti á svæðið ;) Ég hafði piparkökurnar frá síðustu helgi með mér en náði ekki að skreyta nema brot af þeim. Krakkarnir bentu mér á að ég þyrfti líklega ekkert að baka piparkökur á næsta ári, þetta væri svo mikið. Ég efast reyndar um það...því mér finnst gott að næla mér í piparkökur yfir góðri bók ;) en ég efast um að ég nái að skreyta þær allar.

Um hálfþrjú fórum við sjúklingurinn í afmæli hjá tengdapabba sem varð fimmtugur í dag. Sem betur fer voru margir góðir gestir á svæðinu því við Jói þurftum að fara snemma því ég var hrædd um að Jói myndi sprengja sjálfan sig í hóstakasti. Við rétt litum við hjá tengdamömmu áður en við fórum heim, en það vill svo skemmtilega til að hún á líka afmæli í dag. Ekki veit ég hvað ég á að gera við þennan eilífa hóstasjúkling minn, þetta endar með ósköpum og sprungnum lungum ef þetta heldur svona áfram :(

Í kvöld þurfti ég að fara í búðarleiðangur fyrir sörubaksturinn í fyrramálið. Ég uppgötvaði að Tíu Ellefu hafa fundið skothelta leið til að losa sig við viðskiptavini sína. Fyrst komu þeir með þetta skelfilega auglýsingalag sem þeir hafa látið glymja í eyrum okkar í mörg ár ("Þær heita Tíu Ellefu, Tíu Ellefu..." o.s.frv.) Nú hafa þeir stigið skrefi lengra og spila auglýsingarlagið í búðum sínum (eða alla vega í Lágmúlanum) aftur og aftur og aftur og aftur... (er greinilega á "repeat"). Það lá við að ég gæfist upp á verslunarferðinni og forðaði mér í aðra búð til að kaupa það sem mig vantaði áður en ég missti vitið. Þetta er nefnilega langt frá því að vera uppáhaldsauglýsingalagið mitt...
Það kom svo reyndar í ljós að ég þurfti að fara í fleiri verslanir til að ljúka leiðangrinum. Tíu Ellefu átti ekki Opal-súkkulaðihjúp á sörurnar svo ég keypti bara allt annað og fór yfir í Ellefu Ellefu. Þeir áttu Opal-súkkulaðihjúp...en bara með einhverjum aukabragðtegundum. Nóatún var lokað svo ég ákvað að veðja á Tíu Ellefu Glæsibæ. Ekkert þar. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hálfgerð kaldhæðni í því að hafa svo loksins fengið Opal-súkkulaðihjúpinn (án bragðtegunda) í Ellefu Ellefu á Norðurbrún, gamla búðin okkar mömmu sem aldrei átti það sem okkur vantaði. Fyndið. En sem sagt, ég ætti að vera klár í sörubaksturinn á morgun. Hlakka mikið til :)


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum