23. desember 2003  #
Vikuskýrslan

Eins og ég hef sagt áður þá held ég bara að það sé jákvætt þegar svona margra daga göt koma í bloggið mitt, því þá þýðir það að ég hef verið að gera fullt skemmtilegt og hef ekki tíma til að hanga bara í tölvunni.
Hér kemur yfirlit yfir allt þetta skemmtilega sem ég hef verið að gera síðustu viku:

17. desember
Miðvikudagskvöldið síðasta var aðventuhátíð í Hlíðaskóla fyrir alla starfsmenn. Við söfnuðumst saman í salnum, hlustuðum á lifandi píanótóna, borðuðum virkilega góðan ekta jólamat, fengum súkkulaði og kaffipakka frá skólanum og kláruðum leynivinaleikinn okkar.
Eftir matinn fór rúta með okkur heim til Kristrúnar skólastjóra sem bauð öllu liðinu heim til sín. Ég stoppaði reyndar ekki lengi því ég var svo svakalega kvefuð og stífluð.

18. desember
Síðasti kennsludagurinn var 17. desember og þá héldum við stofujólin okkar. Á fimmtudeginum var síðan jólaballið okkar og það var svo gaman að sjá alla krakkana í sparifötunum, þau voru öll svo falleg og fín :) Við byrjuðum á því að horfa á leikþætti í salnum (8. bekkjarstrákarnir voru með meiriháttar leikþátt! Bravó!) og hlustuðum á kórinn syngja. Síðan yfirgáfum við salinn meðan hann var rýmdur af stólum og komum svo aftur inn og gengum í kringum jólatréð. Ég veit eiginlega ekki hvað það er langt síðan ég gekk í kringum jólatré og söng "svona gerum við er við vindum okkar þvott" o.s.frv.

19. desember
Snemma á föstudagsmorgninum gengu 1. - 4. bekkur í halarófu yfir í Háteigskirkju þar sem við sungum sálma og hlustuðum á jólaguðsjpallið. Krakkarnir mínir stóðu sig ótrúlega vel, bæði við gönguna og við að sitja nokkurn veginn kyrr og hljóð í kirkjunni. En það er auðvitað bara af því þetta eru svo frábærir krakkar sem ég er með ;) Á göngunni tilbaka byrjaði að snjóa ekta jólasnjó og við litum öll út eins og snjókallar þegar við vorum komin aftur í skólann.
Jói sótti mig og við skruppum inn í Smáralind í smávegis jólaútréttingar. Að því búnu henti ég því nauðsynlegasta ofan í tösku og dreif mig í Selfossrútuna. Alveg er það nú merkilegt hvaða áhrif Selfossrútur og tannlæknastólar hafa á mig, ég steinsvef ef ég sest í annað hvort þeirra! (Tek það samt fram að ég sef nú sjaldnast meðan verið er að gera við tennurnar í mér, sef yfirleitt meðan ég bíð eftir að tannlæknirinn komi inn).
Mamma, Guðbjörg og krakkarnir sóttu mig í rútuna. Um kvöldið fengum við okkur hamborgara hjá Guðbjörgu og horfðum svo á Miracle on 34th Street. Yndisleg mynd til að koma sér í jólaskapið.

20. desember
Á laugardeginum hófumst við handa við það sem var ástæðan fyrir för minn á Selfoss í þetta skiptið. Við skárum út þrjá kassa af laufabrauði og Karlotta reyndist hörkudugleg við herlegheitin.
Jói mætti fyrir kvöldmat, borðaði með okkur og svo gistum við fram á sunnudag.

21. desember
Upp úr hádegi á sunnudeginum brutumst við inn í frosinn bílinn okkar og fórum í bæinn. Komum við í kirkjugarðinum þar sem við settum aðventuluktina og grenigrein á leiðið hans pabba. Því næst litum við í smákökur hjá tengdó í Hraunbænum.
Jói fór svo heim en ég í Jólaþorpið í Hafnarfirðinum. Það er ekki stórt en samt virkilega skemmtilegt að rölta þar í gegn. M.a.s. Karmel-nunnurnar eru með bás þar. Ég hélt reyndar að ég myndi geispa golunni af kulda...! Þvílíkur nístingskuldi sem var síðasta sunnudag! Það eru reyndar alltof margar freistingar þarna í Jólaþorpinu og ég kom heim með ... ehemm... málverk! Það var svo sem ekki á innkaupalistanum en það var bara svo flott að ég gat engan veginn skilið það eftir. Svo var það líka svo ódýrt :) sem er eins gott því það er rándýrt að láta ramma þetta inn :( En, ég hlakka til að sækja það í innrömmun eftir áramót og hengja fyrir ofan píanóið mitt :)

22. desember
Í fyrra kom Klúbburinn í smákökur og kakó til mín og við ákváðum að þetta væri fínt sem árleg hefð svo við endurtókum leikinn núna í ár. Það komust allir nema tvær, Bára og Elva en þær geta vonandi verið með næst.

23. desember
Þorláksmessa komin og hófst á ýmsum lokaútréttingum fyrir jólin. En nú er líka allt tilbúið :)
Um fimmleytið fór ég í skötuna hjá Lofti. Amma á afmæli á Þorláksmessu og það er áralöng hefð í fjölskyldunni að hittast og borða saman skötu. Jói lagði ekki í að koma í skötulyktina svo hann var skilinn eftir heima.
Ég náði svo í hann og við fórum í bæinn til að fá smá Þorláksmessufíling. Þar sá ég ýmsa sem ég þekki og hitti m.a.s. hana Elísabet mína sem ég vissi ekki einu sinni að væri komin til landsins! :)
Í staðinn fyrir að setjast inn á troðið kaffihús til að hlýja okkur drifum við Jói okkur bara heim, kúrðum undir teppi með smákökur og snakk og horfðum á The Nightmare Before Christmas. Ótrúlega flott mynd og vel gerð!


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum