12. júní 2003  #
Framtakssamur dagur

Verslaði í Fjarðarkaup í dag. Held að auglýsingarnar frá þeim séu alveg ekta, þetta er sko vinalegur stórmarkaður. Ég áttaði mig á því um leið og ég leit í kringum mig og sá starfsfólk reiðubúið til aðstoðar í hverjum krók og kima. Konan sem var á undan mér við kassann var líklega eitthvað bakveik, alla vega átti hún erfitt með að teygja sig í vörurnar sem voru á botni innkaupakerrunnar. En það gerði ekkert til, kassadaman var fljót að bregða sér að kerrunni og ljúka við að taka upp úr henni fyrir konuna.
     Meðan ég fylgdist með þessu var hann Kristmann, eldri herramaður sem var fyrir aftan mig í röðinni, að segja mér frá ljúffengu fiskibollunum sem dóttir hans eldaði fyrir hann í gær úr rauðsprettunni sem hún keypti í Bónus. Hann sagði mér að heimagerðar fiskibollur væru mun betri ef maður steikti lauk í þær og setti á milli laga í deigið. Einnig benti hann mér á að með því að setja hálfan bolla af kaffi út í pönnukökudeigið mætti gera pönnukökurnar enn ljúffengari. Ég bý reyndar aldrei til fiskibollur eða pönnukökur en kannski kemur að því einhvern tímann og þá minnist ég ráða Kristmanns.
     Þegar kassadaman var að renna vörunum mínum í gegn hamaðist ég eins og geðsjúklingur við að koma þeim í poka. Við sem flokkumst sem fastakúnnar Bónus orðin forrituð til að setja í poka á methraða til að forðast að kassadömurnar byrji að henta í okkur vörum frá næsta kúnna áður en við náum að borga. En það er greinilega ekki vaninn í Fjarðarkaup. Hún beið rólega þangað til ég var búin að setja næstum allar vörurnar mínar í poka áður en hún renndi matnum hans Kristmanns í gegn.
     Fín verslun Fjarðarkaup - eini gallinn eru allar lokkandi aukavörurnar sem mig vantar ekki neitt en freistast samt til að kaupa.

Fór seinna um daginn í Holtagarðana til að kaupa sæng og grillbursta í Rúmfatalagernum. Fékk reyndar hvorugt en keypti furðukodda, handklæði og gólfmottu og hitti Unnstein frænda við innganginn á Bónus. Við erum bæði að telja niður dagana þar til Harry Potter 5 kemur út!
     Leit við í Bólsturverki hjá Lofti frænda fyrst ég var í nágrenninu. Alltaf heitt á könnunni þar (ég drekk reyndar ekki kaffi...en samt... nice :))

Mamma ætti að vera ánægð með mig. Ég grillaði aftur í dag en í þetta skipti í sól :) Mamma er nefnilega harður aðdáandi sólar og þess að nýta hana sem best. Við borðuðum reyndar inni enda ekki með neinn Sóltúnspall ;)

Hápunktur dagsins er þó líklega Kringluferðin eftir kvöldmat. Við Jói fórum í verslunarferð og hann fékk jakkaföt, skyrtu, bindi, skó og sokka. Stórglæsilegur og myndarlegur vægast sagt :) Ég ætti að útskrifast úr háskóla oftar, það er sko sjaldan sem ég næ mínum heittelskaða unnusta í búðarferðir, hvað þá til að versla föt á hann!!! ;)


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum