27. apríl 2004  #
Vorverki(r)n(ir)

Við fórum með krakkana í göngutúr í "Litlu Öskjuhlíðina" í dag að skoða vatnsberastyttuna hans Ásmundar Sveinssonar. Stuttur og skemmtilegur göngutúr, og örugglega fróðlegur þó að krakkarnir hafi reyndar sýnt gamla virkinu meiri áhuga heldur en styttunni. Það voru samt nokkrir sem klifruðu í styttunni og það rifjaðist upp fyrir mér hvað það var alltaf jafngaman þegar við fórum með Laugarnesskólanum í gamla daga á Ásmundarsafn og klifruðum í garðinum. Frábær svona listasöfn þar sem næstum því er ætlast til að klifrað sé í listaverkunum :) En svo ég snúi mér nú aftur að göngutúrnum í dag, þá átti ég eiginlega ekki orð þegar við komum að stígnum upp í hlíðina. Þarna eru voða fínar tröppur svo fólk þurfi nú ekki að ofreyna sig á því að príla upp í móti í óræktinni og svo er rampur til að hægt sé að keyra upp eitthvað á hjólum. Nema hvað að í miðju rampsins eru tröppur sem skaga langt út í loftið svo að það er ógjörningur að keyra hjólastól þarna upp. Ég hugsa að það væri mesta lagi hægt að teyma reiðhjól upp sitt hvora hliðina. Æ, það er erfitt að lýsa þessu en ég var frekar hneyksluð, ef það er verið að hafa ramp á annað borð, af hverju þá að gera hann þannig að fólk í hjólastól geti ekki nýtt sér hann (og líklega ekki kerrur eða barnavagnar heldur). Við Ásta erum sem betur fer með smá krafta í kögglunum svo að við bárum hjólastólinn bara upp. En mér er sama, þetta er hallærislegt fyrirkomulag!

Ég fór til augnlæknis í dag og er komin með 0,5 verri sjón á báðum augum. Hef reyndar ekki farið til augnlæknis síðan 2002 svo að þetta er vonandi bara eðlileg hrörnun. Nú þarf ég bara að öppdeita gleraugun mín svo ég geti farið að líta veröldina öðrum augum. Er ekki viss hvort ég læt bara setja ný gler í gleraugun sem ég er með eða hvort ég skipti um umgjarðir. Mælið þið með einhverjum góðum gleraugnaverslunum? Stefa benti mér á Linsuna í Aðalstræti (var það ekki rétt munað hjá mér, Stefa?) sem alltaf hefur veitt henni og hennar frábæra þjónustu. Ef þið lumið á fleiri góðum þá endilega látið flakka :)

Í kvöld var það svo déja-vu úr unglinga- og bæjarvinnunni í gamla daga. Við drifum okkur út í garð, íbúarnir hérna í húsinu, og tókum garðinn í gegn. Rökuðum rusl og arfa úr beðunum og nú bíða 8 pokar upp við garðhliðið eftir að borgarstjórinn líti við ;)  Við eigum nú líklega eftir að taka aðra rispu í garðinum en þetta var nú samt ágætis árangur hjá okkur. Við settumst svo inn hjá Ágústu sem bauð okkur upp á kaffi og þeir sem áttu eftir að borða fengu sér pizzu.

Merkilegt samt að ég hafi enst svona vel í garðavinnunni með þessar harðsperrur dauðans sem ég náði mér í eftir leikfimitímann í gær.
Úff púff púff! ;)


Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
29. apríl 2004 16:53:46
Gleraugu
Ég mæli svo sannarlega með Linsubúðinni (held ég að hún heiti) á Laugaveginum við hliðina á Bernhöftsbakarí held ég. Aðalkallinn þar heitir Helmut Kreidler. Þar er til slatti af flottum gleraugum og ég hef a.m.k alltaf fengið góða og afslappaða þjónustu þarna.... Er orðið svona eins og kaupmaðurinn á horninu fyrir mann ;)
Þetta lagði Theó í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum