22. október 2005  #
Davíð, Davíð

Halla og Assi buðu upp á heljarinnar videokvöld í gærkvöld. Mynd kvöldsins var heimildarmyndin "Reykjavík, Reykjavík" eftir Hrafn Gunnlaugsson sem framleidd var í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkur árið 1986.

Ég man ekkert eftir þessari mynd frá því ég var lítil, man bara eftir að hafa fylgst með kvöldhátíðarhöldunum í sjónvarpinu og hlegið mig máttlausa að Magnúsi og Eyjólfi. Klúbburinn er hins vegar búinn að ræða mikið um myndina og svolítill spenningur var að kíkja á þessa merku nostalgíustórmynd.

Myndin var hreint stórkostleg skemmtun - kannski ekki á þann hátt sem Hrafn Gunnlaugs ætlaði, við hlógum aðallega að öllu sem á 20 árum hafði breyst úr einhverju töff og kúl yfir í óstjórnlega hallærislegt. Svo var ótrúlega gaman að horfa á Perlulausa hitaveitutankana, tréklædda Hallgrímskirkjuna, sjá aðalsögupersónurnar keyra yfir sandilagðan grunninn að Kringlunni og versla áfengi yfir borðið í gamla Ríkinu. Mér fannst ég allt í einu rosalega gömul. Að hugsa sér að Reykjavík og Ísland hafi breyst svona svakalega á stuttum tíma. Ókei, veit svo sem að tveir áratugir eru ekkert svo rosalega stuttur tími en samt... Ég er nú bara unglingur ennþá! ;)

Það fyndnasta við myndina var samt Davíð Oddsson. Þ.e.a.s. það hvernig Hrafn tróð honum inn í hverja einustu senu myndarinnar. Þáverandi forseti, Vigdís Finnbogadóttir, sást reyndar í mýflugumynd í umfjöllun um íslenskt leikhúslíf. En svo var það áfram bara Davíð, Davíð. Davíð að fagna sigri í kosningu borgarstjóra Reykjavíkur. Davíð á borgarstjórnarfundi. Davíð á knattspyrnuleik. Davíð að tilkynna sigurvegarann í ungfrú Ísland. Davíð að halda ræðu meðan kveikt var á jólatrénu á Austurvelli. Davíð að taka á móti aðalpersónu myndarinnar í viðtal og lýsa því hversu duglegur að hann er að hitta og tala við almúgann.

Við komumst eiginlega að þeirri niðurstöðu að myndin ætti ekki að heita Reykjavík, Reykjavík heldur Davíð. Mann grunar eiginlega bara að framleiðandi myndarinnar, hann Hrafn Gunnlaugsson, sé ekki hlutlaus gagnvart Davíð blessuðum... ;) hehe

Það væri gaman að halda nostalgíunni áfram og hlæja að fleiri myndum frá 1986 eða þar um bil. Svo að nú spyr ég, er einhver sem á áramótaskaupið frá árunum 1985 og 1986? Eða er kannski hægt að nálgast þetta hjá RÚV?

Í tilefni þema þessarar bloggfærslu þá skelli ég hér inn einni mynd af moi í afmælishátíðarhöldunum 1986. Meira að segja með blöðru og fána í tilefni af afmæli borgarinnar. Ég er samt að segja ykkur það, það er ótrúlega stutt síðan þetta var, skil ekkert í því hvernig svona mikið hefur breyst á svo stuttum tíma... ;)

sjo_200.jpg

P.S. Vil taka fram að fólkið fyrir aftan mig, þ.e.a.s. maðurinn í bleiku peysunni og konan í NIKE gallanum tengjast mér ekki neitt. Mínir ættingjar voru örugglega miklu meira kúl... eða þannig ;)


Leggja orð í belg
6 hafa lagt orð í belg
22. október 2005 17:10:22
ahahaha...já þetta var stórkostleg mynd!! SKIL ekki hvernig hún gat verið svona gríðarlega skemmtileg í minningunni. Mar hefur kannski fengið sér lúr bara yfir öllum pólitíska áróðrinum og séð bara "skemmtilegu" atriðin :D
Þetta lagði Halla í belginn
23. október 2005 00:12:21
þetta var náttla stórkostleg mynd, pæliði hvernig þetta verður eftir önnur 20 ár, er alveg á því að það á að fá hrafn til að gera update 2006... hvernig er borgin þá... hvað hefur breyst.
Þetta lagði jóhanna í belginn
23. október 2005 00:20:48
...og það sem mikilvægast er - hvaða stöðu mun Davíð gegna þá? ;)
Þetta lagði Sigurrós í belginn
23. október 2005 23:40:50
"What are friends for"?
Þetta lagði Mamma í belginn
25. október 2005 16:51:50
Æh, hvað þú ert sæt snúlla!:)
Þetta lagði Bára í belginn
25. október 2005 16:53:44
Já, gleymdi að segja að það var gott að fá að vita um hvaða Davíð þið voruð að tala um í bréfunum. En auðvitað var það DavÍÐ... hver annar?;) Hehe. Fyndið! Af hverju hélt ég endilega að Halla hefði verið í þessari mynd???? Hahahahah... (Hún hefur sem sagt ekki verið í henni? ehehe)
Þetta lagði Bára í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum