14. desember 2005  #
Snæfinnur snjókarl

Mamma er svo dugleg að rifja upp gamlar minningar. Þær sem eru innan við 27 ára gamlar eru oft einnig mínar eigin og aðrar tengjast mínum minningum þar sem ég heyrði sumar sögurnar þegar ég var yngri og man enn.

Ég er nú ekki með neina almennilega sögu tilbúna til að segja ykkur núna, en mig langaði samt að segja ykkur frá honum Snæfinni, snjókallabangsanum sem ég átti. Hann var alveg ofsalega einfaldur en samt svo sætur. Hann var saumaður úr tusku, fylltur með bómull, en andlitið, hatturinn og fötin voru máluð á hann. Hann hefur líklega verið um 40 cm eða svo.snaefinnur.jpg

Eftir hver jól fór hann með jóladótinu upp á háaloft og um hver jól kom hann aftur niður. Og ég var alltaf jafnánægð að sjá hann. Ein jólin þá kom hann hins vegar ekki niður af háaloftinu og ég vissi aldrei hvað varð af honum. Kannski hef ég gleymt honum einhvers staðar (þó ég muni nú ekkert eftir því að hafa farið með hann á flakk, kannski var hann orðinn ógeðslegur og einhver hefur gefið honum hvíldina miklu eða kannski dreif hann sig bara í heimsreisu. Hver veit?

Mér varð alla vega skyndilega hugsað til hans í dag og ég rissaði upp smá mynd af honum. Hann var nú samt ekki svona fallega blár en þar sem ég man ekki hvernig fötin hans voru á litinn þá segjum við bara að hann sé í sparifötunum á þessari mynd. Hann var alla vega í einhverjum svona "jakka".


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
14. desember 2005 23:09:41
Snæfinnur
Ég man svo vel eftir honum Snæfinni. Er ekki líklegast að böndin berist að mömmu þegar rætt er um hver afdrif Snæfinns urðu. Ég man það reyndar ekki nákvæmlega en mig minnir að hann hafi verið orðinn ansi þreyttur og tættur svo hugsanlega hefur hann farið í langa reisu og ekki skilað sér til baka. Sorry!
Þetta lagði Mamma í belginn
14. desember 2005 23:14:03
Já, svona í seinni tíð er mig farið að gruna það þó sú hugsun hafi nú ekki hvarflað að mér á þeim tíma. En eftir að ég frétti sannleikann á bak við buxurnar sem þvottavélin "át með húð og hári" og sáust aldrei meir þegar við systurnar vorum að reyna að lita þær fjólubláar, þá fóru að vakna ýmsar efasemdir varðandi hann Snæfinn... ;)
Þetta lagði Sigurrós í belginn


Varúð - Tuðfærsla! Viðkvæmir komi aftur seinna.

Ég hélt að desember væri farinn að vera rólegri hjá mér eftir að maður kláraði framhaldsnám og byrjaði aftur í grunnskóla. Og hann var svo sem rólegri hjá mér í fyrra og árið þar áður. Nú er hins vegar einhvern veginn svakalega mikið að gera.

Afmælishátíð Hlíðaskóla er nýafstaðin og sem meðlimur í skipulagningsteymi fyrir afmælisárið var þó nokkuð um fundarsetur áður. Hvað jólaföndrið inni í bekk varðar þá virðumst við Gísli, Eiríkur og Helgi aldrei ætla að kveikja á perunni og erum eins og oft áður að ráðast á háan garðinn með smá vesenisföndri ;) Í fyrramálið þarf ég sem sagt að líma 34 grillpinna með fljótandi lími á grisjukennt efni sem límið lekur í gegnum... en sem sagt...

Hlíðaskólakórinn undirbýr sig fyrir að syngja og leika á jólaböllum skólans og í kirkjuferðinni og við Sigga bætum inn aukaæfingum alls staðar þar sem þeim verður við komið. Við Jólahenríetturnar erum að æfa atriði fyrir hangikjötskvöldverð starfsfólksins á föstudagskvöldið og svo ætlum við nokkur að stjórna fjöldasöng (ég með píanóinu sko ;) ekki með röddinni).

Síðan til að kóróna herlegheitin í vinnunni þá eru sífellt að koma út fréttabréf sem yours truly setur upp og prentar. Þarf reyndar sem betur fer ekki að safna efni í þau líka, þó maður reyni auðvitað stundum að ota sínum tota og troða inn fréttum af eigin árgangi ;)

Þar fyrir utan er baksturinn fyrir Betraból, jólakortin, sósíalhittingar og fleira skemmtilegt sem maður nær bara því miður ekki að einbeita sér almennilega að.

Veit að þetta hljómar eins og tuðfærsla hjá einhverjum alls herjar Jólastressara en vil nú helst trúa því að ég sé ekki stressuð út af jólunum. Þau eru alltaf svo skemmtileg og gaman að undirbúa þau, ég er bara einhvern veginn búin að koma mér í svo mörg verkefni núna. Og samt ekki, kannski þarf maður bara að læra að skipuleggja sig og vera duglegri að sparka sjálfum sér af stað þegar mikið er að gera og maður er latur og slappur.

Æ, stundum þarf maður bara aðeins að tuða svona við sjálfan sig til að fá útrás. Lofa að tuða ekkert næst ;)

 


Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
14. desember 2005 23:07:27
Spennulosun.
Elsku Sigurrós mín. Það er nauðsynlegt þegar maður er alveg að fara yfirum að tuða svolítið. Ótrúlegt hvað það getur létt á spennunni þó það sé kannski ekkert skemmtilegt fyrir hina. Annars hef ég oft hugsað um hvort það væri ekki fínt að fara á einhvern afvikinn stað og öskra bara þangað til maður er búinn að losa alla spennuna frá sér og fara svo sæll og glaður heim.
Gangi þér vel með allt amstrið elsku Sigurrós mín. Hittumst svo hressar og kátar í frænkuboðinu sem ákveðið er hjá Maríu á sunnudaginn klukkan 12 á hádegi.
Þetta lagði Ragna í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum