5. janúar 2006  #
Múraraiðnin

Fyrst að verið er að ræða bernskubrek og annan prakkaraskap þá verður maður náttúrulega að taka þátt í umræðunum.

Eins og móðir mín getur vottað þá var ég alveg einstaklega þægt barn, hlýddi öllu og gerði aldrei neitt af mér. Nema þegar ég var með Hildigunni vinkonu minni... ;)

Það var eitt hús á milli okkar Hildigunnar og við vorum svo til óaðskiljanlegar frá því við vorum pínulitlar og uppgötvuðum hvor aðra. Hildigunnur er einu ári yngri en ég og ekki mjög há í loftinu :) en það var samt hún sem hafði allt hugrekkið. Og einhvern veginn er það þannig að öll þau prakkarastrik sem ég minnist þess að hafa gert, voru framkvæmd með Hildigunni.

Við vorum nefnilega svo heppnar að lifa í tveimur heimum. Við lifðum í þessum venjulega heimi þar sem þið hinið eruð en svo bjuggum við líka í ímyndaða ævintýraheiminum þar sem allt milli himins og jarðar gat gerst.

Á þessum árum voru börn mun duglegri að leika sér úti og við vorum engin undantekning. Einu sinni vorum við að leika okkur fyrir utan hjá Hildigunni meðan pabbi hennar og iðnaðarmaður með honum voru að múra nýjan þröskuld við þvottahúsdyrnar og tröppurnar. Við vorum svo sem ekki mikið að velta því fyrir okkur hvað þeir voru að gera en vorum að skottast þarna í kring.

Eftir mikla dugnaðarvinnu héldu mennirnir inn til að fá sér kaffisopa. Við trítluðum að tröppunum og kíktum á þetta hjá þeim. Jú, harla gott. Og leit meira að segja út fyrir að vera svolítið skemmtilegt. Við fengum skyndilega þá snilldarhugmynd að prófa þetta sjálfar. Þarna stóð pokinn með afganginum af óblönduðu sementinu, þarna var balinn sem þeir höfðu blandað sementið í og þvottahúsið með vatni rétt fyrir innan.

Þetta lá auðvitað mjög ljóst fyrir.

Við helltum úr sementspokanum í balann, settum vatn út í og fórum að blanda. Stóðum okkur bara þrælvel verð ég að segja! Við ákváðum að vinna okkar vinnu fyrir framan húsið þar sem var að finna stórt grjótbeð með þó nokkru magni af steinum í kiwi-stærð. Við helltum úr balanum og bjuggum til myndarlegt fjall. Við klöppuðum það og sléttuðum með litlum sandkassaskóflum og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar þegar við gætum farið að leika með strumpana og láta þá fara í fjallgöngu.

Eftir drjúga stund komu pabbi hennar og múrarinn aftur út og þá var allt í einu ekkert gaman lengur. Í ljós kom að athafnir okkar voru ekki mjög vinsælar og fengum við ræðu frá pabba Hildigunnar um að þetta mætti aldrei gera. Þeir fjarlægðu myndarlega fjallið okkar og snerum okkur hálflúpulegar að einhverju öðru.

Þannig fór sem sagt með mína fyrstu og einu atlögu að múraraiðninni. 

 

Á myndinni erum við Hildigunnur með aðalbangsana og dúkkurnar. Hildigunnur með Snata sinn, ég með Herbert og svo voru það bleiku bangsarnir okkar tveir sem hétu báðir því frumlega nafni "Bleiki Bangsi". 


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
6. janúar 2006 12:36:44
Þægt barn.
Æ, hvað það er gaman að þessu og skemmtileg myndin af ykkur með bangsana. Þú segir satt Sigurrós mín að þægara barn væri ekki hægt að óska sér, en auðvitað verður maður að eignast einhverjar minningar um bernskubrek, annað væri ótækt. Ef eitthvað er að marka stjörnumerki þá ráðlegg ég fólki að eignast börnin sín í kringum 19.júlí.
Kær kveðja,
Þetta lagði Mamma í belginn
6. janúar 2006 17:54:28
Drullumall
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni góðu. Nú er vitað hvaðan þú hefur prakkaraeðlið. Eða voru þið bara að drullumlla?
Þetta lagði afi í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum