5. apríl 2006  #
Þjóðminjasafnið

Spenntir krakkar röðuðu sér í tvöfalda röð fyrir utan Hlíðaskóla í dag og örkuðu af stað ásamt tveimur kennurum yfir á strætóstöðina við Fréttablaðshúsið. Þegar þangað var komið tróðum við okkur öll inn í skýlið í von um að ná að loka þó ekki væri nema agnarögn af kuldanum úti.

Við sem stóðum í þeirri meiningu að það lægi vor í lofti...?

Fimbulkuldinn nísti í gegnum merg og bein og fagnaðarlætin voru mikil þegar strætó rann í hlað. Í skyndi hópuðumst við inn í vagninn og komum okkur fyrir. Ekki var leiðin löng - nokkrum mínútum síðar yfirgáfum við strætó fyrir utan Þjóðminjasafnið, en þangað var förinni heitið.

Þorbjörg í Þjóðminjasafninu tók vel á móti okkur og sýndi okkur ýmislegt áhugavert á safninu. Henni fannst krakkarnir ósköp fróðir og ég stóð eins og stolt ungamamma og drakk í mig hólið, þó ég beri nú persónulega ekki ábyrgð á að hafa dælt í þau vitneskju um kuml, haugfé og heiðin tákn sem túlka má sem kristin.

Við fylgdum leiðsögumanninum eftir, gengum í röð, hlustuðum og fræddumst. Sjálf vil ég undantekningalaust fá að valsa sjálfráð um söfn og skoða á mínum eigin hraða svo að ég skildi krakkana vel þegar þau kvörtuðu yfir því að fá ekki tíma til að skoða allt það sem þau langaði til. En eins og ég benti þeim á, þá er alltaf frítt á safnið á miðvikudögum og því um að gera að plata einhvern í fjölskyldunni með sér þá til að skoða betur.

Heimsóknin tók enda, við dúðuðum okkur eftir bestu getu, drógum djúpt andann og stungum okkur út í nístingskalt vorloftið. Með loppnar hendur og frostbitin andlit komum við tilbaka upp í skóla örfáum mínútum eftir skólalok. Nokkrir fengu að tylla sér inn í skólastofuna í nokkrar mínútur til að fá í sig smá hlýju áður en gengið var heim á leið.

Ég er ekki frá því að ég sé ennþá með hroll...


Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
6. apríl 2006 18:54:51
Ég vona að þér sé farið að hlýna, en mikið hefur þetta nú verið skemmtilegt hjá ykkur. Ég skammast mín fyrir að vera ekki farin að skoða nýja Þjóðmynjasafnið ennþá.
Sendi hlýjar kveðjur.
Þetta lagði Mamma í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum