17. júní 2008  #
Stórum og sjaldan

Magnað hvernig þetta er, að það verður eiginlega flóknara að blogga þegar mikið er um að vera. Þá er oft minni tími til að skrifa og þegar tíminn loks gefst finnst mér ég eiga eftir að segja frá svo mörgu að það endar á því að ég segi ekki frá neinu!

Undanfarið hefur sum sé verið ýmislegt í gangi og kannski ég greini frá nokkrum skemmtilegum viðburðum í stuttu máli.

Guðbjörg systir flutti með fjölskylduna í bæinn sunnudaginn 1. júní. Íbúðin þeirra í Ásakórnum er virkilega falleg og rúmgóð. Við systurnar eigum pottþétt eftir að hittast oft í sumar nú fyrst við erum báðar í sama bæjarfélaginu. Við erum líka báðar að fara að kenna 1. bekk í haust svo að þið getið rétt ímyndað ykkur að það verður líka eitthvað spjallað um vinnuna meðan systurnar skiptast á hugmyndum :)

Ég fór með Hlíðaskóla í 4 nátta víkingaferð um Bretland, allt frá Manchester yfir til Glasgow. Við vorum tvær nætur í hinni yndislegu borg York, fórum þaðan til Jarrow og svo til Durham þar sem við gistum aðra nótt. Því næst fórum við að Hadríanusarmúrnum og út í heilögu eyjuna Lindisfarne og gistum svo í Glasgow áður en flogið var aftur heim til Íslands. Ég er ekki búin að setja inn myndir úr ferðinni (enda þarf ég fyrst að velja þær bestu úr 400 myndum...) en set kannski inn smá línu hérna á bloggið til að benda á þær þegar þar að kemur.

Mömmuklúbburinn góði heldur áfram að hittast og síðastliðinn föstudag, þann 13. júní, var nákvæmlega ár síðan við héldum fyrsta hittinginn heima hjá mér árið 2007. Til að halda upp á hvað við erum duglegar að hittast með litlu stubbana okkar, þá fórum við mömmurnar út að borða á Lækjarbrekku. Nota bene án barna...! ;) Frábært kvöld og virkilega gaman að hittast svona einu sinni án þess að vera allar ataðar í brauðmylsnu og mjólkurblettum, og sátum ekki á gólfinu að eltast við litla pottorma.

Síðasta laugardagskvöld bauð síðan Ingibjörn, sambýlismaður ömmu Böggu heitinnar, í áttræðisafmælið sitt. Þar var skemmtileg stemning og fjör, góður matur og harmonikuleikarar sem spiluðu fyrir söng og dansi. Það er ég viss um að amma var með okkur í anda :)

Í dag fórum við litla fjölskyldan á Rútstún að halda upp á lýðveldisdaginn ásamt öðrum Kópavogsbúum. Reykjavíkurstúlkan ég er nú orðin svo mikill Kópavogsbúi að mér dettur ekki einu sinni í hug að fara niður á Lækjartorg á 17. júní, sá möguleiki flögrar ekki einu sinni í gegnum hugann. Nei, Rútstúnið skal það vera! :) Þar var margt um manninn eins og vanalega og við sáum mörg kunnugleg andlit. Þar á meðal voru Pétur Óli og fjölskylda en þau hittum við í mannmergðinni eins og tvö síðustu ár og er nú svo komið að það telst varla alvöru 17. júní nema við rekumst á þau fyrir framan sundlaug Kópavogs. Við vorum ekkert mjög lengi, tókum einn stóran hring um svæðið og Ragna Björk var alsæl með þetta; spjallaði við hund og dansaði við tónleika Páls Óskars. Við fórum svo heim og tengdapabbi kom í vöfflukaffi til okkar.

Mér finnst ég vera að gleyma einhverju svaka skemmtilegu sem ég hef verið að bralla á síðustu vikum, en heilinn rúmar bara svo og svo mikið. Ef einhver var að bralla eitthvað skemmtilegt með mér og ég hef gleymt að segja frá því, þá endilega bara senda línu í orðabelginn og minna mig á hverju ég er að gleyma ;)

Færsluna ætla ég svo ekki að enda á loforði um dugnað við bloggskrifin, enda hef ég hingað til svikið slík loforð trekk í trekk. Látum þetta bara koma á óvart og þeim fáu lesendum sem enn ráfa hingað af skyldurækni þakka ég tryggðina.


Leggja orð í belg
4 hafa lagt orð í belg
18. júní 2008 18:02:06
Vona bara að ég fái bráðum að bralla eitthvað skemmtilegt með þér......verð nú að fá víkingasögur beint í æð!!!
Þetta lagði Rakel í belginn
23. júní 2008 07:24:23
Amma sendir godar kvedjur fra okkur ollum i Danmorku. Gaman ad sja myndirnar af minni med fanann.
Knus til ykkar allra.
Þetta lagði Amma Ragna í belginn
24. júní 2008 23:22:47
skyldurækni (",)
Sæl vertu,
ég kem nú oft hingað, ekki af skyldurækni heldur bara af því að mig langar mikið til þess!!! Verð líka að kenna 1.bekk næsta vetur. Ég er alveg „bötnuð“ eins og börnin segja. Hvernig væri nú að hittast á næstunni, ha?
Þetta lagði Steinunn í belginn
28. júní 2008 14:39:11
Það eru góðar fréttir, Steinunn :) Já, það væri gaman að hittast, verðum endilega í bandi!
Þetta lagði Sigurrós í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum