Da Vinci lykillinn

da.vinci.code.jpgÞað voru allir á sínum tíma að tala um Da Vinci lykilinn. Miðað við lýsingarnar var þarna komin besta bók allra tíma. Ég var auðvitað forvitin að vita hvort þetta væri eitthvað sem heillaði mig en ekki nógu forvitin til að tíma að kaupa mér hana - hún gæti verið léleg og það var ekki einu sinni víst að neinn yrði ástfanginn í henni og þætti mér hún þá skemmtileg...? ;) Það var heldur ekki séns að fá hana á bókasöfnum - alltaf úti. Svo að ég hætti að spá í henni.

Systir mín átti hins vegar eintak og þegar hún og mamma voru búnar að lesa bókina var henni otað að mér af miklum krafti.

Ég sá sko ekki eftir að lesa hana. Gleypti hana reyndar í mig í einum samfelldum lestri langt fram eftir nóttu. Allar aðdáunarraddirnar eru að segja satt og rétt frá, þetta er stórkostleg bók! Hún er svo svakalega spennandi að maður fær hálsríg og vöðvabólgu í axlirnar og hún vekur upp svo magnaðar spurningar að ég var komin með listaverkasögubókina hans Jóa og farin að fletta upp listaverkum. Ég hugsaði ekki um annað en þessa bók í marga daga eftir að ég las hana.

Nú er bara spurning hvernig tekst til með bíómyndina. Leikarahópurinn virðist alla vega vera vel valinn. Ég vona bara að myndin nái mikilfengleika sögunnar.