Hljóðsaga A - Addi api á afmæli

Langt langt í burtu, í skógi í Afríku bjó api sem kallaður var Addi. Hann átti marga vini en besti vinur hans var asninn Alfreð. Þeir vinirnir voru alltaf að leika saman og gerðu mörg prakkarastrik saman.

Annan apríl vaknaði Addi api hress og glaður. Reyndar var hann alltaf glaður en í dag var hann alveg afskaplega glaður því í dag átti hann afmæli. Hann flýtti sér inn í eldhús til að borða morgunmatinn sinn. Það var enginn í eldhúsinu. Addi api var hissa. Hvar voru pabbi og mamma? Kannski voru þau hjá afa og ömmu. Hann borðaði hratt og hljóp yfir í húsið þar sem afi og amma bjuggu. En pabbi og mamma voru ekki þar. Heldur ekki afi og amma. Þetta var afar undarlegt.

En Addi api lét það ekki skemma fyrir sér afmælisskapið og lagði af stað glaður í bragði heim til besta vinar síns, hans Alfreðs asna. En Alfreð asni var ekki heima. Nú hætti Adda að lítast á blikuna. Hvar voru allir?

Hann rannsakaði allan skóginn þar sem hann bjó en fann engan. Allir voru horfnir.

Hann settist niður fyrir framan heimili sitt og tók fyrir andlitið. Hann var ekki lengur eins glaður og þegar hann vaknaði. Það var ekkert gaman að eiga afmæli ef hann var orðinn einn í skóginum. Hann ætlaði að fara að gráta þegar hann heyrði hrópað: TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ, ADDI API!!!

Þarna voru pabbi hans og mamma, afi og amma, Alfreð asni og allir hinir vinir hans úr skóginum.

“Afsakaðu að við vorum að fela okkur, Addi minn,” sagði mamma. “Við vildum koma þér á óvart.”

“Aaaaaaaaaaaaaaa,” sagði Addi api. “Mikið er ég feginn. Ég hélt ég væri orðinn einn í skóginum og allir væru farnir. Aaaaaaaaaaaaaaaaa.”

“Hérna er afmælishattur handa þér, Addi,” sagði Alfreð glaður og rétti Adda afmælishatt.
Addi setti hattinn strax á hausinn.

“Og þá byrjar veislan” sagði amma hans Adda og nú sá Addi allar góðu veitingarnar. Þarna voru ananas, bananar, mangó, jarðarber og appelsínur en þær voru einmitt uppáhaldsmaturinn hans Adda. Addi fékk sér strax væna appelsínu og byrjaði að rífa utan af henni. En þá kallaði pabbi hans á hann, afmæliskakan var komin og það þurfti að blása á kertin.

“Aaaaaaaaa,” sagði Addi þegar hann fór að sofa um kvöldið. “Þetta var afskaplega góður afmælisdagur.”

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir