Hljóðsaga D - Daddi og Dódófuglinn

Daddi sat dapur í herberginu sínu og virti fyrir sér dótið sitt. Hann hafði engan til að leika sér við. Dóri, besti vinur hans, fór í ferðalag daginn áður með foreldrum sínum um Dalasýsluna og var ekki væntanlegur fyrr en eftir sjö daga.

Daddi sat á rúminu sínu og dinglaði fótunum. Hvað átti hann eiginlega að gera? Og í þokkabót var leiðinda rigning og droparnir féllu jafnt og þétt niður rúðuna. Dagurinn framundan virtist dökkur.

Skyndilega heyrði Daddi rödd rétt hjá sér.

“Er þetta ekki dásamlegt?”

Daddi hrökk við svo hann datt næstum fram af rúminu. Hvaða rödd var þetta? Var kominn draugur inn í herbergið hans? Hann leit dauðskelkaður í kringum sig og sá þá skrýtinn fuglshaus standa út undan rúminu.

“Hver...hver ert þú?” spurði Daddi. Mig hlýtur að vera að dreyma, hugsaði hann svo með sjálfum sér.

“Ég er Dódófugl!” svaraði fuglinn. “Og er þetta ekki dásamlegt?”

“Hvað er svona dásamlegt,” spurði Daddi.

“Allt þetta dót,” sagði fuglinn og kom nú allur undan rúminu. Hann hélt á nokkrum dótadýrum og stórum plastdreka.

“Þetta!” andvarpaði Daddi dapur. “Þetta dót er allt drasl því það er enginn til að leika við mig.”

“Þú hefur mig til að leika við!” sagði Dódófuglinn og deplaði öðru auganu.

Daddi starði á Dódófuglinn og vissi ekki hvað hann átti að halda. Hann ákvað að leika við Dódófuglinn, honum leiddist þá ekki á meðan.

Þeir settu upp dótadýragarðinn hans Dadda og settu þangað alla hundrað dótaindjánana hans. Þeir röðuðu upp dósum og föndruðu úr dagblöðum þar til Daddi var alveg búinn að gleyma að vera dapur.

“Jæja, þú ert ekki lengur dapur, Daddi,” heyrðist sagt í dyrunum en þar stóð Dídí mamma hans Dadda. “Varstu að dunda þér eitthvað með dótið þitt? Ég hef ekki heyrt í þér frá því á hádegi.”

“Já, ég og Dódóf...” Daddi leit í kringum sig en Dódófuglinn var farinn. “Já, mér leiddist áðan en ekki lengur.”

“Það er gott. Komdu svo niður á eftir og fáðu döðluköku, ég er búin að gera deigið og kakan verður til eftir smá stund. Ekki drolla.”

“Ég kem rétt strax.”

Þetta var nú pínu dásamlegt eins og Dódófuglinn sagði, hugsaði Daddi. En það verður samt gott þegar Dóri kemur heim úr Dalasýslunni.

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir