Hljóðsaga G - Guðbjörg og Garðar fara Gullna hringinn

Guðbjörg og Garðar sátu í aftursætinu á gamla bílnum hans Gogga afa. Þau voru í ferðalagi með Gogga afa og Gunnu ömmu og voru nú á leiðinni að Geysi.

Goggi afi og Gunna amma sátu fram í og töluðu saman meðan Guðbjörg og Garðar horfðu út um gluggana á grasið og grjótið fyrir utan, gróðurinn úti var ekki mjög fjölbreyttur. Þau voru með poka hjá sér fullan af grænmeti. Gunna amma hafði sagt að hún vildi ekki að þau væru að borða eitthvað óhollt gotterí, miklu betra væri að borða gulrætur og gúrkur.

“Gunna amma, verðum við bráðum komin?” spurði Garðar.

“Já, rétt bráðum, góurinn,” svaraði Gunna amma og lagaði gleraugun á nefinu.

“Heldurðu að Geysir gjósi fyrir okkur?” spurði Guðbjörg.

“Það er aldrei að vita hvað hann gerir sá gamli goshver,” tuldraði Goggi afi.

Eftir góða stund komu þau að Geysi og Goggi afi lagði bílnum.

“Komið þið nú gæskurnar,” sagði Gunna amma og öll hersingin lagði af stað gangandi frá bílnum yfir að goshvernum mikla.

Gríðarlegur vindur var á svæðinu.

“Það tók því nú að greiða sér eða hitt þó heldur,” stundi Gunna amma og reyndi með fingrunum að greiða hárið sem fauk út um allt í rokinu.

“Ég er glöð að það eru engir geitungar hérna,” sagði Guðbjörg fegin. “Ég þoli ekki geitunga.”

“Kannski sérðu bara geitur í staðinn,” sagði Garðar glettnislega. “Eða kannski gíraffa!”

“Ekki gabba hana systur þína,” sagði Goggi afi.

Geysir virtist alveg hafa gleymt hvernig ætti að gjósa en þau gátu sem betur fer fylgst með Strokki. Þegar þau komu tilbaka að bílnum voru þau orðin glorhungruð svo þau fóru inn á veitingastaðinn og keyptu sér grillaða hamborgara og gos.

“Hvað gerum við svo?” spurði Garðar.

“Við erum að fara gullna hringinn,” svaraði Goggi afi og stakk gafflinum sínum í góðan hamborgarabita.

“Gullna hringinn, hvað er það?” spurði Guðbjörg.

“Nú það eru Geysir, Gullfoss og Þingvellir,” svaraði Gunna amma.

“En gaman, mig langar svo að sjá Gullfoss,” sagði Garðar. “Finnum við gull þar?”

“Ekki er nú mikið gull þar, en það glitrar og glampar á vatnið í fossinum svo að manni gæti sýnst vera gull eða gimsteinar þar.”

Þegar þau voru búin að borða gengu þau aftur yfir að bílnum og óku af stað. Nú lá leiðinni að hinum glæsilega Gullfossi.

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir