Hljóðsaga Í - Ísferð

Anna og Atli voru að labba úr skólanum í sólskininu. Þau voru á leiðinni í ísbúðina, mamma hafði gefið þeim pening fyrir ís.

“Það var fínt í skólanum í dag”, sagði Anna. “Mér finnst alltaf svo gaman þegar við förum í íþróttir.”

“Já, maður þarf að hreyfa sig til að fá ekki ístru,” sagði Atli og klappaði á magann.

“Híhíhí,” flissaði Anna.

“Mér fannst samt skemmtilegast þegar kennarinn sýndi okkur uppstoppaða íkornann,” sagði Atli. “Það er svo gaman að sjá dýr sem búa ekki á Íslandi.”

“Svo var líka gaman þegar við skoðuðum ígulkerið,” sagði Anna. “Það var miklu skrýtnara en ígulkerið sem við fundum í ísköldum sjónum í júlí.”

“Nei, það var í júní,” leiðrétti Atli. “Í júlí var sjórinn ekki eins ískaldur.”

Nú sáu þau Ísak og Írisi hinum megin við götuna og veifuðu til þeirra.

Ísak og Íris ætluðu að hlaupa yfir götuna til þeirra en gleymdu að líta eftir bílunum. Allt í einu heyrðist ískur og bíll stoppaði rétt við þar sem Ísak og Íris voru. Hann flautaði á þau og Ísak og Íris flýttu sér nú varlega yfir götuna.

“Þið verðið að passa ykkur á bílunum,” sagði Anna skelkuð.

“Já, við verðum að muna það,” sagði Ísak sem gat vel ímyndað sér hvað gæti gerst ef þau pössuðu sig ekki á bílunum.

“Rosalega eruð þið brún,” sagði Atli við Ísak og Írisi.

“Við vorum í fríi á Ítalíu,” sagði Íris. “Og við borðuðum svo mikinn ís...”

“Mmmm, já,” sagði Ísak. “Við erum einmitt að fara í ísbúðina núna að fá okkur ís.”

“Við líka,” sagði Anna. “Eigum við kannski að fara öll saman núna og fá okkur ís?”

“Já, gerum það.”

Það voru aðeins þrír á undan þeim í ísbúðinni en þau tóku samt númer. Anna og Atli voru númer níu en Íris og Ísak númer tíu. Ívar eigandi ísbúðarinnar tók síðan vel á móti þeim.

“Hvað má bjóða ykkur?”

“Sítrónuís í brauðformi,” sögðu Anna og Atli í kór og borguðu fyrir sig.

Ísak fékk sér súkkulaðiís en Íris vildi nú bara fá venjulegan hvítan ís með hrískúlum.

Ísarnir voru allir ískaldir.

“Ííííííííííííí,” sagði Íris. “Þetta er svo kalt.”

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir