Hljóðsaga Ó - Óli og ófreskjurnar (þýðing á sögunni Where the Wild Things Are)

Óli Jónson var ekki alltaf þægur og góður strákur, sérstaklega þegar hann fór í úlfabúninginn sinn. Nei, þegar hann var kominn í úlfabúninginn varð hann oft mjög óþekkur og gerði hvert prakkarastrikið á fætur öðru.

Kvöld eitt var hann sérlega óþægur. Hann negldi snúru í vegginn í stofunni og elti hundinn sinn hann Bósa í gegnum húsið með gaffli.
Mamma hans skammaði hann og sagði að hann hagaði sér alveg eins og ófreskja þegar hann væri svona óþekkur. Hún sendi hann í bólið þó hann væri ekki búinn að fá neinn kvöldmat.

En þessa nótt gerðust ótrúlega skrýtnir hlutir. Það óx skógur í herberginu hans Óla. Upp úr gólfinu uxu óvenjuleg tré af ótrúlegustu gerðum. Og skógurinn óx og óx uns herbergið hans Óla var alveg horfið. Gólfið hafði breyst í grasbreiðu, komin voru tré í staðinn fyrir veggi og loftið var orðið að himninum sjálfum. Einnig var þarna ógnarstór sjór sem teygði sig svo langt sem augað eygði og Óli kom fljótt auga á bát sem var einmitt passlegur fyrir hann, alls ekki of stór.

Hann sigldi af stað gegnum nótt og dag, viku eftir viku og næstum í heilt ár. Hann sigldi óralengi þangað til hann kom til landsins þar sem ófreskjurnar búa. Þegar báturinn kom að landi birtist hópur af ógnvekjandi og ófríðum ófreskjum sem öskruðu ógurlegum öskrum Óóóóóó, gnístu ógurlegum tönnunum, ranghvolfdu ógurlegum augunum og sýndu ógurlegar klærnar.

En þá hrópaði Óli “VERIÐ RÓLEGAR!” og tamdi ófreskjurnar með töfrabragði og starði án þess að blikka augunum í gul augun á ófreskjunum.

Þær urðu mjög óttaslegnar og kölluðu hann ógurlegustu ófreskju sem þær höfðu séð. Þær gerðu hann því að kóngi í ófreskjulandinu.

“Núna”, hrópaði Óli ófreskjukóngur, “núna höldum við ófreskjuhátíð!”

Óli og ófreskjurnar stóðu á einni löpp og hoppuðu upp í loft og spangóluðu Óóóóóó!

Óli og ófreskjurnar héngu í trjánum, ærsluðust og hrópuðu Óóóóóó!

Óli og ófreskjurnar fóru í skrúðgöngu, dönsuðu bongó og hrópuðu Óóóóóó!

“Hættið núna!” hrópaði Óli og sendi ófreskjurnar í bólið án þess að gefa þeim kvöldmat.

En nú var Óli ófreskjukóngur einmana og vildi komast heim til að vera með fólki sem þætti vænt um hann.

Þá skyndilega fann hann ilm langt að úr heimi. Þetta var ilmurinn af góðum mat. Óli var orðinn svo ótrúlega svangur að hann gaf frá sér kóngstitilinn og ákvað að halda heim á leið.

En ófreskjurnar vildu ólmar halda Óla og sögðu “Óóóóóó ekki fara, þó ert svo ótrúlega fínn ófreskjukóngur”.

Og þær öskruðu ógurlegum öskrum Óóóóóó, gnístu ógurlegum tönnunum, ranghvolfdu ógurlegum augunum og sýndu ógurlegar klærnar.

En Óli veifaði bless og sigldi af stað í næstum heilt ár, viku eftir viku, í gegnum dag og nótt.

Hann sigldi óralengi þangað til hann stóð skyndilega í gamla, góða svefnherberginu sínu sem var orðið ósköp venjulegt aftur. Á litla borðinu í horninu stóð kvöldmaturinn hans og vitið þið hvað? Maturinn var enn heitur…

 

© Brynhildur, Erla, Sigurrós og Steinunn