Hljóðsaga T - Tvíburarnir fara í sirkus

Tvíburarnir Tommi og Tóta sátu við stofuborðið heima. Tóta var að teikna en Tommi var að lesa í blaðinu. Allt í einu sá hann stórskemmtilega tilkynning. Sirkusinn Tetteló var að koma í bæinn!

“Frábært,” hrópaði Tommi. “Mig langar að fara!”

“Mig líka,” sagði Tóta spennt og gleymdi teikningunni sinni samstundis.

Þau flýttu sér til mömmu sem sat við tölvuna sína að vinna. Hún var hönnuður og vann við að hanna tískumyndir fyrir tískublað.

“Mamma, mamma,” hrópuðu systkinin. “Megum við fara í sirkusinn Tetteló?”

“Hmmm,” sagði mamma þeirra og leit til skiptis á Tomma og Tótu sem voru hvort öðru spenntara. “Eigið þið fyrir því?” spurði hún svo.

Tommi og Tóta litu hvort á annað. Svo hlupu þau inn í herbergi að telja úr sparibauknum sínum.

“Ég á bara tíkall,” sagði Tóta.

“Ég á tuttugu krónur,” sagði Tommi. “En það er víst ekki nóg.”

Þau fóru aftur fram til mömmu og sögðu henni að þau ættu ekki fyrir sirkusmiðunum.

“Jæja,” sagði mamma. “Kannski þið getið unnið ykkur inn fyrir þeim. Ef þið gangið vel frá í eldhúsinu skal ég gefa ykkur fyrir miðunum.”

Tommi og Tóta voru flýttu sér inn í eldhús. Tommi tók til við að vaska upp en Tóta tók tusku til að þurrka af eldhúsborðinu. Klukkan tólf á hádegi var allt orðið tandurhreint og þau kölluðu á mömmu að koma og skoða.

“Tja,” sagði mamma þegar hún sá eldhúsið. “Þetta er flott, allt tandurhreint! Ég skal bjóða ykkur í sirkus Tetteló á morgun.”

Tvíburarnir æptu af kæti.

“Takk, mamma. Takk takk takk!”

“Þið getið farið á morgun eftir að þið komið frá tannlækninum. Ég kemst ekki með ykkur því ég er að vinna en Teitur afi getur örugglega fylgt ykkur.”

Þannig að næsta dag stóðu Tommi og Tóta spennt á túninu fyrir utan sirkus Tetteló ásamt Teiti afa og biðu eftir hleypt yrði inn. Tíminn var lengi að líða. Loksins komust þau inn í stóra sirkustjaldið og fengu sér sæti.

Eftir smástund slökknuðu ljósin og taktföst tónlist tók að hljóma. Allt í einu birtist ljós úr ljóskastara og sirkusstjórinn steig á svið. Hann talaði útlent tungumál svo Tommi og Tóta skildu ekkert. En sem betur fer gat Teitur afi skilið hann svo hann gat túlkað og þýtt það sem sagt var fyrir krakkana.

Fyrstur á svið var Tobbi trúður. Hann kom akandi á litlum traktor. Hann var nú stórskrýtinn og tvíburarnir hlógu mikið. Svo fór hann af traktornum og stóð á höndum. Síðan kom annar trúður með stóran trefil hlaupandi og stakk Tobba trúð ofan í stóra tunnu. Tvíburarnir veltust um af hlátri.

Næstur var töframaður með stóra svarta tösku. Upp úr töskunni töfraði hann spilastokk og síðan töfraði hann spilastokkinn þannig að öll spilin voru tígultvistar. Að lokum togaði hann doppótt teppi upp úr töskunni og svo kom næsta atriði.

Það var dýratemjarinn sem var næstur. Fyrst var hann með tvo stóra fíla. Tommi var pínulítið hræddur.

“Heldurðu að fílarnir komi nokkuð að traðka á okkur?” spurði hann Teit afa.

“Ttttt,” sagði afi. “Það held ég nú ekki, temjarinn gætir fílanna.”

Svo fóru fílarnir og tíu tignarlegir hestar töltu um sviðið. Að lokum kom hann með hættulegt tígrisdýr sem var svo vel tamið að það gat gengið upp tröppur.

Þegar sýningin var búin var Tóta enn að tyggja karamellurnar sem Teitur afi gaf þeim.

“Rosalega eru útiljósin þeirra flott,” sagði Tommi og benti á útiljósin umhverfis tjaldið.

Teitur afi og tvíburarnir röltu nú heim, gegnum torgið og framhjá tjörninni sem tunglið speglaðist í.

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir