Hljóðsaga Ú - Úlfhildur og Úlfar eignast úr

Úlfhildur og Úlfar eru 7 ára tvíburar og búa í Úthlíð 70 í Reykjavík.

Dag einn í janúar voru þau send í pössun til Úlfs frænda síns á meðan mamma þeirra og pabbi skruppu til útlanda en þau voru að fara til Úkraínu. Úlfur frændi þeirra var úrsmiður og var með sína eigin úraverslun þar sem hann gerði við og seldi úr og klukkur. Úlfur var uppáhalds frændinn þeirra og þeim fannst þau mjög útvalin að fá að vera í pössun hjá honum.

Foreldrar Úlfhildar og Úlfars leyfðu þeim að óska sér einhvers sem þau vildu fá þegar þau kæmu heim frá útlöndum. Vitið þið hvað þau völdu sér? Þau völdu sér úr. En einn hængur var á, hvorugt þeirra kunni á úr. Hvað áttu þau að gera? Svo datt þeim snjallræði í hug. Þau ákváðu að biðja Úlf frænda að kenna sér á úr meðan þau voru hjá honum. Það var tilvalið því þá kynnu þau á úrin sem mamma og pabbi ætluðu að kaupa handa þeim í Úkraínu.

Úlfhildur og Úlfur voru afskaplega óstundvís systkini. Oft og iðulega gleymdu þau sér þegar þau voru að leika úti og komu alltof seint heim í mat. Þetta átti þó sérstaklega við þegar úti var úrhellis rigning og margir pollar. Skemmtilegast fannst þeim að leika sér úti á leikvelli þar sem voru margir pollar, sandur og mikið úrval af leiktækjum. Þeim fannst líka svo gaman að koma inn eftir svona veður, úlpurnar þeirra voru þá oft útbíaðar og blautar.

Mamma þeirra varð ekki eins glöð þegar þau komu alltof seint í mat, útbíuð og blaut. Hún var oft úrvinda af að þvo fötin þeirra aftur og aftur.

En þetta vandamál verður úr sögunni þegar þau hafa fengið úr og lært á það. Þá vita þau alltaf hvað klukkan er og gleyma sér ekki úti að leika.

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir