Stafakastalarnir - Kynningarsaga

Einu sinni í ævintýralandi nokkru stóðu tveir kastalar. Einn rauður og einn grænn. Þeir voru stórir og glæsilegir en það sorglega var að þeir höfðu alltaf staðið tómir. Það bjó enginn í þeim. Þar var enginn kóngur, engin drottning, engar prinsessur, engar prinsessur og ekkert starfsfólk.

Fólkið sem bjó í þorpinu rétt hjá kastölunum hugsaði oft um það hve skemmtilegt það væri ef það byggju einhverjir í þeim. En aldrei kom neinn til að flytja inn í kastalana og fólkið í þorpinu hristi aðeins höfuðið leitt á svip og hélt svo áfram vinnu sinni.

Dag einn var smiðurinn í þorpinu á gönguferð um sveitina og gekk framhjá kastölunum. Honum datt í hug að telja gluggana á þeim og fann út að á rauða kastalanum væru 17 gluggar en 18 á þeim græna. Þá fóru hjólin í höfðinu á honum að snúast. Hann átti nefnilega vini í öðru landi sem voru einmitt svo margir. Það voru stafirnir sem áttu heima í Bókstafalandi handan hafsins mikla.

Hann dreif sig að hringja í þá og sagði þeim frá vanda sínum. Að nálægt þorpinu hans væru tveir kastalar sem stæðu alltaf tómir. Hann bauð þeim að koma og flytja inn í kastalana ef þeir kærðu sig um.

Stöfunum leist vel á hugmyndina en þeir sögðu reyndar að þeir kæmust ekki allir í einu. Þeir gætu sent einn staf í einu yfir hafið mikla til að flytja inn í kastalana.

Fyrsti stafurinn sem mætti á svæðið var ______. Maðurinn úr þorpinu sagði honum að í rauða kastalann ættu að flytja allir þeir stafir sem gætu sagt nafnið sitt sjálfir en í græna kastalann færu allir stafir sem ekki gætu sagt nafnið sitt sjálfir.

_____ hugsaði sig um en vissi ómögulega hvort hann kynni að segja nafnið sitt sjálfur eða ekki.

Getið þið hjálpað honum að velja sér kastala?

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir (en unnið upp úr hugmynd frá öðrum).