Hljóðsaga M - Maggi vildi meira (þýðing á bókinni "Marvin wanted more")

Það var kominn miður maí og lömbin í haganum í Melasveitinni elskuðu að leika sér allan daginn. Sólin skein og öll lömbin voru mjög glöð... nema Maggi. Hann var mjög leiður.

“Hvað er að?” spurði María.

“Ég get ekki hlaupið eins hratt eða stokkið jafn hátt og hinar kindurnar,” muldraði Maggi. “Ég er alltof lítill og mjór, svo er ég svo máttlaus. Þetta er ekki sanngjarnt!”

“En ég er mjög ánægð með þig alveg eins og þú ert,” sagði María.

En Maggi vildi verða örlítið stærri.

Þannig að þegar hinar kindurnar höfðu lokið við að éta...
...þá fékk Maggi sér meira. “Mmmmmmmmm, nammi namm! :)”

Eftir því sem Maggi át meira varð hann stærri og stærri, meiri og meiri. Fljótlega gat hann hlaupið mikið hraðar og stokkið mun hærra en hinar kindurnar.

En eftir því sem hann varð stærri og stærri...
...vildi hann alltaf meira og meira...
...þangað til að hann gat ekki hætt.

“Ekki éta allan skóginn!” hrópuðu hinar kindurnar.

“Þú ert að verða alltof stór,” hrópaði María mæðulega.

En tók ekki mark á Maríu. Maggi elskaði að vera svona stór. Hann maldaði í móinn: “Bara smá meira í viðbót, mig langar í meira!” sagði hann. “Mmmmmmmm, nammi namm! :)”

Og á nokkrum mínútum gleypti hann allan skóginn!

“Þetta er nóg!” hrópaði María. “Þú færð mikla magapínu!”

En Maggi var alltof upptekinn til að geta hlustað.

Hann gleypti meiriháttar mikil fjöll í nokkrum munnbitum og drakk makindalega upp mjög stór stöðuvötn.

En Maggi vildi alltaf meira. Margfalt meira!

Síðan gleypti hann heilt land í einum bita! Hann var orðið reglulegt matargat! En samt vildi Maggi örlítið meira...

Svo hann hoppaði yfir á tunglið og gleypti allan heiminn!

En þá hætti Maggi. Hann var aleinn. Hann saknaði trjánna, hagans og hinna kindanna en mest af öllu saknaði hann Maríu. Kannski voru það mistök að éta svona mikið. Honum fór að líða mjög mjög illa í maganum.

Og þá skyndilega... MmmmmmmmmmmmmmAAAAAAAAAAAAAAAA!

Magga var óglatt. Út kom heimurinn og allt sem honum fylgdi.

Þrátt fyrir að ekkert væri alveg nákvæmlega eins og áður... þá leið Magga miklu betur.

“Ég er mjög ánægð með þig alveg eins og þú ert,” hvíslaði María.

“Ég er líka mjög ánægður með mig eins og ég er,” sagði Maggi.

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir