Bréfið - Kveikjusaga fyrir póstþema

Halldór þusti inn um útidyrnar heima hjá sér, henti töskunni og úlpunni á gólfið og hljóp inn í stofu.

“Mamma! Pabbi! Það var svo ótrúlega gaman í skólaferðalaginu í dag. Við fórum á bátinn, við fengum að vera í björgunarvestum, ég veiddi fisk og Stína missti stígvélið sitt í sjóinn og... og...”

“Rólegur nú,” sagði mamma hans og brosti að hamaganginum í syninum. “Ég næ engu af þessu ef þú talar svona í belg og biðu. Og vinsamlegast hengdu úlpuna þína á snagann áður en þú byrjar á ferðasögunni.”

Halldór stökk aftur fram í forstofu, hengdi upp úlpuna og var snöggur inn í stofu aftur.

Mamma og pabbi fengu nú ferðasöguna eins og hún lagði sig. Þau fengu nákvæma lýsingu á bátnum sem krakkarnir í 2. bekk höfðu farið í siglingu á með kennurunum sínum. Þau fengu að heyra söguna af því hvernig Stína hafði verið að losa smásteina úr stígvélinu sínu og misst það í sjóinn og hvernig kennarinn hennar batt plastpoka um stígvélalausa fótinn til að sokkurinn yrði ekki blautur. Þau heyrðu líka um krabbann sem kleip Lárus í þumalputtann og að sjálfsögðu sagði Halldór þeim í smáatriðum hvernig hann hefði náð að veiða vænan fisk með sjóveiðistöng.

“Þetta hefur aldeilis verið spennandi,” sagði pabbi hugsandi. “Það er verst að okkur foreldrunum var ekki boðið með...”

“Má ég fara í tölvuna og skrifa Bigga frænda í Noregi tölvupóst til að segja honum allt sem við gerðum í dag?” spurði Halldór.

“Aaaaa, því miður er það ekki hægt,” sagði mamma og dæsti.

“Af hverju ekki? Ég lofa að vera ekki lengi,” sagði Halldór og horfði biðjandi á mömmu sína. “Gerðu það, gerðu það.”

“Ég myndi leyfa þér það ef það væri hægt,” sagði mamma. “En það kom vírus í tölvuna og við þurftum að fara með hana í viðgerð. Við fáum hana líklega ekki aftur fyrr en eftir viku.”

“Eftir viku?” hrópaði Halldór vonsvikinn. “En mig langar svo að skrifa honum alla söguna núna.”

“En af hverju gerirðu það þá ekki?” sagði pabbi.

“En mamma var að segja að tölvan væri...” byrjaði Halldór.

“Ég var ekki að meina tölvupóst,” sagði pabbi. “Ég meinti að þú myndir skrifa honum bréf á venjulegt blað, stinga því í umslag, skella á það frímerki og senda honum.”

Halldór hugsaði sig um. Þetta var ekki svo galin hugmynd. Þá gæti hann líka teiknað mynd af stóra fiskinum sem hann veiddi og sett með í umslagið. Það var líka spennandi að skrifa svona alvöru bréf og setja í póst.

“Já, ég ætla að gera það,” sagði hann spenntur. “Hvar fæ ég umslag?”

“Ég skal redda því,” svaraði pabbi sem fór og sótti blað, blýant og umslag. Halldór settist við skrifborðið sitt og byrjaði að skrifa. Hann var lengur að skrifa bréfið svona heldur en hann hefði verið að senda tölvupóst en samt var þetta einhvern veginn miklu meira spennandi.

Þegar bréfið og myndin af fiskinum góða voru tilbúin bað Halldór mömmu að hjálpa sér að skrifa utan á umslagið. Hún sýndi honum hvað átti að skrifa og hvar allt átti að vera.

“Eigum við frímerki,” spurði Halldór ákafur.

“Nei,” sagði mamma. “En við skulum bara fá okkur göngutúr yfir á pósthúsið og redda því.”

Þau klæddu sig vel og lögðu af stað út á pósthús. Á pósthúsinu þurftu þau að bíða í smá biðröð en loks kom að þeim. Halldór rétti afgreiðslukonunni bréfið og hún setti það á sérstaka vigt til að vita hvað það væri þungt.

“Til hvers þarftu að vita hvað bréfið er þungt?” spurði Halldór hissa.

“Til að sjá hvað þú þarft að borga mikið,” svaraði afgreiðslukonan brosandi. “Það kostar mismikið að senda bréf eftir því hvað þau eru þung.”

Afgreiðslukonan kíkti í verðskrána og sagði Halldóri að hann þyrfti að borga sér 65 kr. fyrir frímerkið. Halldór rétti henni hundraðkallinn sem mamma hafði gefið honum og afgreiðslukonan lét hann hafa afgang tilbaka. Hún rétti honum líka frímerkið svo hann gæti sjálfur bleytt það og límt á umslagið.

“Ég get svo tekið umslagið fyrir þig og sett í kassa hjá mér,” sagði afgreiðslukonan. “En þú mátt líka taka það sjálfur og stinga því í rauða póstkassann hérna fyrir utan dyrnar.”

“Ég ætla að setja það sjálfur, takk,” sagði Halldór og hélt fast í umslagið.

Hann og mamma þökkuðu afgreiðslukonunni kærlega fyrir og gengu út úr pósthúsinu og Halldór stakk bréfinu ofan í póstkassann.

“Hvenær kemur það svo til Bigga frænda í Noregi?” spurði Halldór.

“Það er um það bil 2 til 3 daga á leiðinni,” svaraði mamma.

“Svona lengi,” sagði Halldór pínu vonsvikinn.

“En það verður alla vega komið til hans áður en tölvan okkar kemur úr viðgerð.”

“Það er gott,” sagði Halldór. “Og nú fær hann líka myndina af fiskinum sem ég veiddi.”

“Já, nú fær hann myndina af fiskinum,” sagði mamma og brosti. “Það er alveg satt.”

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir