Stína var lítil stúlka í sveit

Stína var lítil stúlka í sveit
stækkaði óðum, blómleg og heit.
Hún fór að vinna, varð margt að gera,
lærði að spinna, látum það vera.
Svo var hún úti sumar og haust,
svona var lífið, strit endalast.
Samt gat hún Stína söngvana sína
sungið með hárri raust.

Viðlag:
Nú liggur vel á mér, nú liggur vel á mér.
Gott er að vera léttur í lund,
lofa skal hverja ánægjustund.

Gaman fannst Stínu að glettast við pilt,
gaf hún þeim auga, var oftast stillt.
Svo sá hún Sjána, það vakti þrána,
hann kom á Grána út yfir ána.
Sæl var hún Stína saklaus og hraust,
svo fór hann burtu koldimmt um haust.
Samt gat hún Stína söngvana sína
sungið með hárri raust.

Viðlag

Nú er hún Stína gömul og grá,
getur þó skemmt sér dansleikjum á,
situr hún róleg, horfir á hina,
hreyfast í takt við dansmúsikina.
Alltaf er Stína ánægð og hraust
aldrei finnst henni neitt tilgangslaust.
Enn getur Stína söngvana sína
sungið með hárri raust.

Viðlag


                    Höfundur: Númi Þorbergsson