30. desember 2004  #
Desemberlangloka með súkkulaði og rjóma
Fínn desember í ár :) Hef ekki verið nógu dugleg að segja frá ýmsu skemmtilegu sem ég hef verið að gera, en kannski maður geti nú rifjað upp eitthvað af því sem ég var ekki búin að segja frá, svona til þess að þið getið vitað nákvæmlega hvað ég hef verið að gera ;) Þeim, sem vilja fá nánari upplýsingar um einstök atriði, er heimilt að hafa samband í gegnum tölvupóst eða síma og bera fram fyrirspurnir ;)

Fyrstu helgina í desember fór ég með rútunni góðu á Selfoss til að baka laufabrauð. Það heppnaðist mjög vel enda þrautþjálfað lið á ferð með úthugsaðar skipulagsaðgerðir. Eftir að allir höfðu hamast við að skera út var farið að eldavélinni til að steikja. Verkaskiptingin var þannig að ég sá um að losa kökurnar af smjörpappírnum, mamma steikti þær í pottinum, Guðbjörg pressaði og Karlotta sá um að útvega ný blöð af eldhúsrúllunni. Eins og vel smurð vél :)

Jólabaksturinn hélt áfram á þriðjudeginum en ekki með Selfossfjölskyldunni. Ég bakaði sem sagt Sörur með Hlíðaskólafjölskyldunni í heimilisfræðistofunni. Ómetanlegt að fá tækifæri til að baka þessar ljúffengu veseniskökur undir styrkri stjórn Gunnþórunnar heimilisfræðikennara og annarra vaskra kvenna. Ég náði kökunum miklu minni en í fyrra en ég vil nefnilega hafa smákökur í munnbitastærð. Ég vil frekar borða fleiri litlar en fáar stórar ;)

Nákvæmlega viku síðar var 1. - 4. bekk síðan boðið á sýningu inni á sal. Óperudeild Söngskólans í Reykjavík mætti í skólann og flutti okkur óperuna "Töfraheimur prakkarans". Alveg hreint mögnuð sýning, virkilega vel sungin og sniðuglega útfærð.

Og áfram á þeim nótunum, eða þ.e.a.s. á nótum almennt :) Hinn nýstofnaði barnakór Hlíðaskóla söng fyrir samnemendur sína á jólaskemmtunum og við helgistund skólans í Háteigsskirkju. Þau stóðu sig með eindæmum vel, ekki síst þegar litið er til þess að kórinn var stofnaður í lok nóvember og við náðum bara að hafa þrjár alvöru æfingar. Bravó bravó :)

Jólahlaðborð Hlíðaskóla var föstudagskvöldið 17. desember en þá mætti allt starfsfólk prúðbúið í sal skólans og borðaði saman ljúffengan jólamat. Í lokin voru leyndarmál leynivinaleiksins upplýst og síðan var haldið heim til Kristrúnar skólastjóra þar sem gleðskapurinn hélt áfram.

Vikan fram að jólum var frívika hjá mér, að undanskilinni kirkjuferð skólans á mánudeginum. Ég notaði vikuna til að dúlla mér við jólaundirbúninginn, keypti jólagjafir, heimsótti jólaþorpið í Hafnarfirði, bakaði og horfði á jólamyndir. Á Þorláksmessu lögðum við Jói svo af stað á Selfoss þar sem við héldum upp á jólin með Selfossfjölskyldunni. Við komum aftur heim í Kópavog að kvöldi jóladags, klyfjuð af góðum gjöfum frá ættingjum og vinum :) Erum búin að vera dugleg að lesa jólabækurnar okkar meðan við maulum poppkorn (fengum poppvél :) vííí) og fínar steikur (fengum George Foreman-grill :) vííí). Ég er líka búin að vera dugleg að horfa á bíómyndir, en Jói gaf mér tvær yndislegar rómó myndir af óskalistanum mínum: Robin Hood-Prince of Thieves og French Kiss. Þannig að ég er búin að eyða þó nokkrum tíma fyrir framan sjónvarpið með stjörnur í augunum og kjánalegt bros á vör meðan ég horfi á yndislegt fólk verða yndislega ástfangið hvert af öðru og allir verða yndislega hamingjusamir. Ég veit, ég veit, þetta hljómar voða væmið, en ég er nú einu sinni voða væmin týpa svo að þetta passar bara nokkuð vel :)

Í gær var smá klúbbhittingur hjá mér og var planið svona hálfpartinn að horfa á jólamyndirnar sem við náðum ekki að horfa á fyrir jól. Assi mætti með góssið, It´s a wonderful Life, Scrooged og jólaspólu með Garfield. Þar sem við erum nú öll frekar málglatt fólk þá endaði það nú þannig að við horfðum ekki á myndirnar en töluðum bara þeim mun meira. Jú, reyndar settum við Garfield í og höfðum í bakgrunninum, Theó og Lenu til ómældrar ánægju ;) Assi lánaði mér svo nýju Muppets-myndina sem ég horfði á áðan. Alveg ágæt mynd en ekki eitthvað sem ég myndi vilja eiga eða horfa á oft. Var hins vegar í dag að panta mér The Muppet Christmas Carol. Videoútgáfan mín fer örugglega að verða ónothæf bráðum vegna mikillar notkunar svo að það er víst best að tryggja sér hana á DVD :)

Við Sigrún skruppum á rúntinn í dag í smá útréttingar og heimsóttum stoltu ömmuna í Hafnarfirðinum :) Alltaf svo jólalegt og huggulegt hjá Herborgu :) Síðan vissum við ekki alveg hvað við ættum af okkur að gera svo að við heimsóttum bara mig næst. Sátum inni í eldhúsi, snæddum laufabrauð og kjöftuðum frá okkur allt vit. Svona á þetta að vera :)

Á morgun förum við Jói síðan í Hraunbæinn til að fagna nýju ári og kveðja það gamla. Já, árið 2004 er víst alveg að verða búið. Best að fara að æfa sig að skrifa 2005 í stað 2004. Veit ekki hvernig sú aðlögun á eftir að ganga, ég er enn að bögglast við að muna að skrifa Kópavogur efst í bréfin mín í stað Reykjavíkur...

Noh, þetta er bara orðin hin myndarlegasta bloggfærsla. Þið verðið svo lengi að lesa þetta að ég hlýt að fá bloggfrí fram á næsta ár ;)

Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
3. janúar 2005 21:09:20
Gleðilegt ár mín kæra!
Já þetta var gaman að lesa. Alltaf gaman þegar vel gengur. Annars er ég hálfvælandi bara yfir hörmungunum í Asíu og búin að borga fullt í söfnun, þó að muni kannski ekki mikið um en ... safnast þegar saman kemur. Þér tókst auðvitað líka að koma inn hjá mér feitu samviskubiti varðandi bloggsíðuna mína og ekki sú eina sem kvartar/ókei minnir góðfúslega á! Nú verð ég sko að ....
Kærleiksrík kveðja, Steinunn
Þetta lagði Steinunn í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum