19. september 2004  #
Hvers virði er menntun?
Það var áhugavert að fletta í gegnum nýjasta VR-blaðið og lesa launakönnunina. Þar komst ég að því að grunnlaunin mín sem kennara, svipuð og meðallaun þess sem vinnur við afgreiðslu á kassa, þ.e.a.s. í kringum 150 þúsund. Ég vil ekki gera lítið úr störfum þeirra sem vinna við að afgreiða á kassa, þetta er örugglega erfitt starf, bæði líkamlega og andlega, þeir standa upp á endann mestallan tímann, vinnan líklega oft mjög einhæf og kúnnarnir margir hverjir þrælerfiðir.

Af hverju er ég þá að kvarta? Af hverju sætti ég mig ekki bara við að vera á sömu launum og afgreiðslumaður á kassa?

Jú, það eru ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi hef ég lokið þriggja ára háskólanámi til að stunda mitt starf. Í þrjú ár las ég þykkar fræðibækur, sat fyrirlestra, vann verkefni og þreytti próf og bý nú yfir B.Ed.gráðu. Ég tel það ástæðu til að krefjast hærri launa.

Í öðru lagi ber ég meiri ábyrgð. Ég hef í minni umsjá tæplega tuttugu einstaklinga sem ég ber ábyrgð á að mennta. Ég ber ábyrgð á að allir læri að lesa og skrifa, kynnist bókmenntum, auki málskilning sinn og þekkingu á íslenskri tungu og geti tjáð sig í tali og ritun. Ég ber ábyrgð á að þeir kynnist leyndardómum stærðfræðinnar, geti leyst þrautir með því að beita rökhugsun og helstu reikniaðgerðum og nái að nýta stærðfræði í daglegu lífi. Ég ber ábyrgð á að þeir kynnist og læri inn á fræðigreinar eins og jarðfræði, eðlisfræði og líffræði til að skilja heiminn allt í kringum sig. Ég ber ábyrgð á því að þeir kynnist ólíkum trúarbrögðum og læri að sýna tillitssemi og skilning gagnvart trúarbrögðum annarra. Ég ber ábyrgð á því að þeir þroski eigin sjálfsmynd og læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Ég ber ábyrgð á því að þeir fái tækifæri til að öðlast víðsýni gagnvart fjölbreyttu mannlífi og menningu og læri að virða það sem þeirra eigið land og annarra hefur að bjóða. Ég ber ásamt foreldrum þeirra og forráðamönnum ábyrgð á að koma þeim til manns.

Ef það er metið til jafns við það sem felst í því að afgreiða vörur á kassa í stórmarkaði þá hlýtur einhvers staðar eitthvað að hafa farið úrskeiðis í okkar þjóðfélagi. Með fullri virðingu fyrir verslunarfólki.

Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
19. september 2004 14:39:59
Nákvæmlega
Ég sá einmitt þessa sömu frétt. Ef ég hætti nú bara í kennslunni og fer að vinna sem deildarstjóri í verslun þá er ég með laun upp á tæpar 200.000 krónur (geri mér samt grein fyrir því að ég myndi mjög líklega ekki bara ganga inn í það starf, þyrfti líklega að vinna mig upp). En þetta starf krefst engrar frekari menntunar, kannski að verslunareigendur vilji stúdentspróf, en alveg áreiðanlega ekki B.Ed gráðu í viðskiptafræði eða einhverju slíku.

P.S er ekki bara málið að fara í eitthvað annað nám. Mér leiðist að vera kennari í dag!!!!!
Þetta lagði Anna Margrét í belginn
20. september 2004 10:21:13
Óréttlæti heimsins
Þetta eru orð í tíma töluð! Ég er sjálfur menntaður prentsmiður úr iðnskóla - sem ég tók eftir að hafa næstum klárað stúdentspróf - og laun prentsmiða skv. kjarasamningum losa rétt rúmlega 146.000 eftir 4 ára nám. Ég er líka með meirapróf sem nýtist mér þessa dagana því ég keyri strætó. En þar eru launin enn minni. Á meðan kassafólk er með svona há laun á móti því sem við sem eitthvað ?smávegis? höfum þurft að leggja á okkur eða eins og 4 ára nám í sérmenntun þá held ég að það eina sem virki sé allsherjarverkfall. Þá kannski fengist einhver leiðrétting á launakjörin í landinu. Ég heyrði einu sinni af stóru plakati sem hékk inni í Háskóla og á því var stórt spurningarmerki. Á plakatinu var líka eftirfarandi texti:
Hver gætir þess verðmætasta sem þú átt?
Bankastjóri [há tala] kr á mánuði
Leikskólakennari [lág tala] kr á mánuði.
Mér finnst þessi pæling enn í fullu gildi!
Þetta lagði Hallur í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum