15. janúar 2002  #
Póstþjónusta á brauðfótum?
Allir sem hafa flutt sig milli heimila vita að það er gríðarlega umfangsmikið verkefni sem krefst mikillar vinnu, orku og tíma. Það er ekki unnið með því einu að smella fingrum. Þess vegna kom það mér mjög á óvart í dag þegar ég komst að því að ég væri skyndilega flutt úr austurbæ Reykjavíkur yfir á Arnarnesið.
Reyndar fékk ég fyrst veður af þessu dularfulla máli í gærkvöld þegar ég millifærði pening út af reikningi mínum í gegnum Einkabanka Landsbankans. Þá sá ég að ég var ekki lengur skráð sem íbúi á mínu gamla æskuheimili þar sem ég hef búið alla mína tíð og geri enn. Nei, ég var skráð á mér áður óþekkt heimilisfang á Arnarnesinu. Ómögulegt var að finna rökrétta skýringu á þessu svona í fljótu bragði þannig að ég ákvað kynna mér málið í Landsbankanum í dag.
Þegar ég kom svo heim úr skólanum í dag beið mín bréf á dyramottunni. Það var frá Jean "afa" í Frakklandi og ég opnaði það með mikilli tilhlökkun enda alltaf gaman að fá bréf frá útlöndum. Um leið og ég hafði opnað umslagið birtist mér ný vísbending í Arnarnesmálinu. Það var nefnilega annað umslag ofan í umslaginu. Utan á það hafði Jean skrifað mitt rétta heimilisfang en yfir það hafði verið strikað og einhver skrifað annað heimilisfang sem er í Arnarnesinu. En viti menn, yfir það hafði svo einnig verið strikað og í hornið var límdur bleikur miði og merkt við Unknown/Óþekkt. Bréfið hafði greinilega borist aftur til Jean og hann hafði stungið því í nýtt umslag og gert aðra tilraun til að senda það til mín og í þetta skiptið komst það rétt til skila.
Nú hringdi ég í Íslandspóst til að krefjast skýringa en þar á bæ var enginn sem gat gefið mér nein svör, bréfberinn sem sér um okkar hverfi var ekki við. Því næst var hringt í Landsbankann þar sem ég fékk þær upplýsingar að heimilisfangi mínu hefði verið breytt þar samkvæmt ábendingu frá Íslandspósti. Síðustu reikningsyfirlit höfðu m.a.s. verið send á hið nýja heimilisfang. Þarna var mér hætt að lítast á blikuna. Yfirlit yfir bankareikningana mína höfðu ásamt reikningsnúmerum verið send til fólks úti í bæ sem ég þekki ekki neitt. Ég spurði sjálfa mig með vaxandi ónotatilfinningu hvaða önnur bréf hefðu lent þar og hvort einhver skaði hefði kannski þegar hlotist af.
Til að róa ímyndunaraflið hringdi ég nú beint í ímyndað "sambýlisfólk" mitt, þ.e.a.s. fólkið sem raunverulega býr þarna í Arnarnesinu. Þetta er sem betur fer hið almennilegasta fólk og voru bréfin frá bankanum og frá Jean þau einu sem höfðu borist til þeirra. En meðan á samtalinu stóð fékk ég mjög merkilega vísbendingu sem varpaði þó nokkru ljósi á málið. Konan sem býr þarna í Arnarnesinu heitir Sigrún og ber sama föðurnafn og ég auk þess að millinöfn okkar beggja byrja á J.
Um leið og mamma heyrði það kom henni í hug mjög sennileg kenning. Bréfberinn hefur haldið að það stæði Sigrún en ekki Sigurrós á bréfinu frá Jean og í stað þess að fara með bréfið á rétt heimilisfang (þar sem hann hefði undir eins getað séð nafnið mitt á útidyrahurðinni) leitar hann að Sigrúnu í tölvunni og fer með bréfið mitt heim til hennar. Um leið lætur hann breyta heimilisfangi mínu í gagnagrunni Íslandspósts og þeir láta Landsbankann síðan vita af breytingunni. Þar með var ég orðin íbúi Arnarnessins. Ansi gott, ekki satt?
Vinnubrögð af þessu tagi hjá starfsfólki Íslandspóst eru auðvitað forkastanleg og ættu ekki að eiga sér stað. Hvernig kerfi er það sem leyfir einum starfsmanni að framkvæma svo mikilvægar breytingar á eigin spýtur og spyrja hvorki kóng né prest né aðra sem málið varðar um leyfi? Mikilvægt er að almenningur geti treyst því að póstþjónustan sé örugg og ábyrg, við viljum ekki eiga á hættu að pósturinn okkar lendi í röngum höndum.
Ég efast ekki um að það sé gaman að búa á Arnarnesinu og hver veit nema ég muni einhvern tímann halda þangað með pinkla og pökkur en þangað til kæri ég mig ekki um að pósturinn minn sé sendur annað en heim að dyrum þar sem ég raunverulega bý.

Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum