11. október 2004  #
Góði kennarinn og lélegi kennarinn
Við Deigluskóla kenna tveir kennarar sem heita Sigga og Vigga. Þær kenna báðar í sama árgangi en þær tóku við bekkjunum frá öðrum kennurum fyrir ári. Í báðum bekkjum eru 20 nemendur.

Í bekknum hennar Viggu eru langflestir nemendurnir sterkir námsmenn og nokkrir hafa jafnvel verið taldir afburðagreindir. Þeir hafa mikinn áhuga á náminu og vinna ávallt vel í tímum. Þeir fá mjög góða hjálp heima enda búa þeir svo vel að eiga hjálpsama foreldra sem aðstoða þá við heimanámið. Vigga þarf lítið að hafa fyrir bekknum, nemendurnir eru áhugasamir og passa því sjálfir að hafa vinnufrið í tímum. Vigga getur því oft skotist upp á kennarastofu til að fá sér kaffibolla eða til að hringja í vinkonu sína án þess að allt fari í rugl og vitleysu niðri í skólastofunni. Vigga þarf ekki að eyða miklum tíma í að undirbúa kennsluna enda notast hún aðallega við þykka möppu með kennslugögnum sem mamma hennar hafði kennt eftir fyrir tuttugu árum. Allir nemendur vinna sömu verkefni og eru með sömu lestrarbók. Foreldrarnir hafa sjaldnast samband við Viggu í símatímum eða með tölvupósti enda algjör óþarfi meðan krökkunum gengur svona vel í skólanum. Vigga er nýbúin að leggja samræmt próf fyrir bekkinn og hærri meðaleinkunn hefur ekki sést lengi í Deigluskóla enda er þarna um að ræða nemendur sem ekki glíma við neina sérstaka erfiðleika og hafa góða námsgetu.

Í bekknum hennar Siggu eru þrír nemendur með athyglisbrest og ofvirkni, fjórir lesblindir, einn einhverfur, einn þroskaheftur, einn með geðrænan vanda og tveir með félagsleg vandamál. Nemendurnir fá litla hjálp við námið frá foreldrum sínum og heimanámið kemur yfirleitt óunnið tilbaka í skólann. Sigga nær aldrei að setjast niður við kennaraborðið enda er hún sífellt upptekin við að aðstoða nemendur við námið auk þess sem hún reynir að sjá til þess að nemendur, jafnt ofvirkir sem aðrir, hafi vinnufrið. Sigga eyðir miklum tíma í undirbúning, kynnir sér vel aðalnámskrá í öllum fögum og skoðar nýlegar kennslubækur og vefslóðir í leit að verkefnum. Hún fundar reglulega með sérkennurum skólans og vinnur með þeim einstaklingsnámskrár fyrir ákveðna nemendur. Verkefnin sem hún leggur fyrir bekkinn velur hún út frá getu hvers og eins og fæstir eru með sömu lestrarbók. Það fer mikill tími í samskipti við foreldra í síma og í gegnum tölvupóst og Sigga fyllir út samskiptabækur fyrir fjóra nemendur á hverjum degi. Sigga er nýbúin að leggja samræmt próf fyrir bekkinn og lægri meðaleinkunn hefur ekki sést lengi í Deigluskóla enda er þarna um að ræða nemendur sem margir hverjir hafa ekki forsendur til að ná hárri einkunn á slíku prófi.

Nú spyr ég, hvor þeirra er góður kennari?
Er það kennarinn sem getur sýnt fram á háar einkunnir nemenda sinna án þess ef til vill að hafa þurft að leggja mikla vinnu í að ná þeim fram?
Er það kennarinn sem leggur sig fram við að veita hverjum nemanda nám við hæfi, burtséð frá námsgetu og almennum þroskaskilyrðum? Þó að einkunnirnar séu lágar?

Heyrst hafa raddir sem fara fram á að góðir kennarar fái góð laun fyrir störf sín og lélegir kennar fái léleg laun fyrir störf sín. Gott og vel. Hugsjónin á bak við tillöguna er kannski góð, auðvitað eiga "góðir" starfskraftar sem leggja sig fram frekar skilið að fá góð laun heldur en "lélegir" starfskraftar sem sinna sínu starfi með hangandi hendi. En eftir hverju á að fara þegar meta á hvort kennari er góður eða lélegur? Hver ætlar að sjá um þetta mat? Kannski skólastjórnendur sem aldrei koma inn í skólastofurnar og vita í mörgum tilfellum ekkert hvað þar fer fram? Og út frá hvaða gögnum eiga þeir þá að meta? Kannski út frá meðaleinkunnum í bekkjum þar sem er að finna "heilbrigða" nemendur og nemendur með ýmsa erfiðleika eða þroskahömlur?



Ath. Sagan um Siggu og Viggu er tilbúið dæmi.

Leggja orð í belg
13 hafa lagt orð í belg
12. október 2004 00:44:06
sammála, vissulega má alveg leita leiða til þess að verðlauna góða kennslu og koma í veg fyrir slæma - en það er mjög þreytandi að sjá grein eftir grein skrifaðar af mönnum sem sjá ekki muninn af því að fræða börn og flaka fisk, ekki alveg sömu lögmál í gangi.
Þetta lagði Ásgeir H í belginn
12. október 2004 08:32:50
Aðra grein Sigurrós!!
Er ekki kominn tími á aðra grein í Morgunblaðið??!! Það vantar alveg fleiri svona "raunveruleika" greinar, alltof margir að skrifa um þetta sem ekkert vit hafa, með fullri virðingu fyrir þeim. Eins og menntaskólanemandinn sem sagði í viðtali við fréttablaðið að þetta væru svosum ekki léleg laun sem kennarar hefðu þar sem námið væri svo létt og hefði ekkert breyst frá því að það var ekki háskólanám!!! "Flott" að hann var búinn að kynna sér þetta svona vel...Hver ber annars ábyrgð á því að þetta er sett á prent?!!
Þetta lagði Lóa Rut í belginn
12. október 2004 10:07:05
Ýkt dæmi
Mér finnst þessi samanburður þinn vera í takt við samúðarauglýsingar KÍ í fjölmiðlum. Af hverju þarf barátta kennara alltaf að ganga út á að vorkenna þeim? Þú veist væntanlega eins vel og ég að bekkurinn hennar Siggu er ekki til og 20 manna bekkur sem er svona skipaður, verður aldrei til. Má ég biðja um nýjan tón?
Þetta lagði Gisli í belginn
12. október 2004 11:04:40
Frammistaða
Alveg ótrúlegt en satt þá er ég í senn sammála og ósammála þér Sigurrós.
Einkunnir úr t.d. prófum eru umdeildur mælikvarði á námsárangur nemenda hvað þá að álykta um hæfni kennarans út frá þeim, það hljóta allir að sjá sem hafa kynnt sér annað hvort skólastarf eða frammistöðumatsaðferðir. Hvað það varðar er ég fullkomlega sammála þér.
Hins vegar finnst mér ekki klókt hjá kennurum að hafna með öllu frammistöðumælingum á starf þeirra.

Sama er reyndar að gerast hjá Sálfræðingafélagi Íslands þar sem ábatagreiningu (cost-benefit analysis) á meðferðarúrræði er hafnað næstum því af trúarlegum ástæðum.

Satt og rétt að það er ekki auðvelt að meta störf sálfræðinga og störf kennara. Það þarf samt ekki að þýða að það sé ekki mögulegt. Hið ómögulega tekur bara lengri tíma en hitt.

Á vefsíðunni minni skrifaði ég pistil sem heitir "Að meta starf" í byrjun verkfallsins og þar segi ég m.a.:
"Ég ætla þó að kæfa í fæðingu þá hugmynd að ég sé að mæla með árangurstengdum launum fyrir kennara. Allir sem hafa kynnt sér málið eitthvað eða þekkja það fen sem frammistöðumat er vita að það að meta hvað er góður kennari er hægara sagt en gert. Ef við sleppum einhverjum nýútskrifuðum viðskiptafræðingum út í að hanna slíka mælingu þá held ég að kennarastéttin væri í verri málum en áður (http://www.trigger.is/blog/archives/2004/09/19/23.41.59/)"

Frammistaða og "gæði" náms hafa lengi vafist fyrir mönnum og má m.a. nefna "AGN: Aukin Gæði Náms" sem var mjög í umræðunni á tímabili. Til að eiga minnsta möguleika á að meta "frammistöðu" kennara þarf að vera hægt að meta frammistöðu skóla, stofnana já og menntakerfisins í heild og það er ekki hægt nema vita hver markmiðin eru. Dugar aðalnámskráin til þess? Ég er nú væntanlega einhverju búinn að gleyma úr námsskrárfræðinni hjá Ingólfi í HA en ég er ekki viss.
Þetta lagði Tryggvi R. Jónsson í belginn
12. október 2004 12:51:48
Aðalnámsskráin
er nú stór og mikil skepna, nánar á þessum stað.

Það eru ótrúlegustu hlutir þar sem potað er inn og skólaárið þyrfti að vera 12 mánuðir og aðstaða kennara, tæki og tól mun betri en er nú til að uppfylla hana.
Þetta lagði Jói í belginn
12. október 2004 16:13:19
Gísli, vissulega er dæmið ýkt en það er með vilja gert til að vekja fólk til umhugsunar sem vill láta einkunnir nemenda stjórna launum kennara. Það er ekkert sem segir að þessi staða geti ekki komið upp. Í greininni bið ég hins vegar hvergi um vorkunn fyrir kennara, ég er einungis að benda á þá rökleysu að einkunnir séu eitthvað allsherjar gæðamat á störfum kennara. Mér þykir leitt að þú hafir misskilið það.

Tryggvi, ég er sammála þér með að mikilvægt sé að meta störf kennara eins og annarra. Við eigum ekkert að vera neitt heilög og erum ekki að fara fram á það. Það sem mig langaði að ítreka með þessari grein minni var einmitt að það er mjög snúið að meta störf kennara (rétt eins og sálfræðinga sem þú nefnir) og það er þreytandi að hlusta á fólk sem lítið þekkir til starfa kennara halda því fram að töfralausnin á vanda stéttarinnar sé "einfaldlega" bara að greiða kennurum eftir gæðum. Þetta fólk nefnir oft einkunnir í þessu sambandi en það er matsaðferð sem ég get engan veginn sé að virki enda hafa kennarar ekki töfravald yfir námshæfileikum nemenda sinna þó þeir geti vissulega haft áhrif á þá. Ég held það myndi heyrast eitthvað ef það ætti að fara að greiða læknum laun eftir því hversu hratt og vel sjúklingum þeirra batni - vissulega er líklegra að sjúklingar hljóti góðan bata hjá góðum lækni en það er þó engan veginn öruggt og stundum geta góðir læknar einfaldlega ekkert gert til að bjarga sínum sjúklingum. Ég held að við séum í raun ekkert ósammála varðandi það að auðvitað þurfi að meta þurfi störf kennara rétt eins og annarra, málið er bara hvernig í ósköpunum á að fara að því? Meðan engin önnur uppástunga en einkunnir nemenda liggja á borðinu þá er þetta ekki lausnin að launakerfi kennara.
Þetta lagði Sigurrós í belginn
12. október 2004 22:44:12
Heyr heyr!
Umræðan um "góða kennarann" og launin hans hefur jú lengi verið á þessum nótum. Ekki hef ég heyrt aðrar hugmyndir um hvernig meta skuli "frammistöðu" kennaranna!
Við sem störfum við kennslu vitum í öllu falli að það kemur aldrei til mála að umbuna kennurum fyrir háar einkunnir nemenda sinna - ekki nema við fengjum að velja sjálf í bekkina...sem er álíka fáránlegt!
Þetta lagði Rakel í belginn
13. október 2004 10:42:20
Góðir nemendur verða ekki til að sjálfsdáðum annars ertu að segja að kennarar séu gagnslausir fyrir þá. Að gangaverðirnir gætu alveg eins setið yfir þeim.

Mín reynsla er allt allt öðruvísi. Nú þekki ég tvo grunnskóla nokkuð vel, þennan sem ég var í og þennan sem ég vann í. Í skólanum sem ég var í var mikil áhersla lögð á nemendur með námsörðugleika og aðra erfiðleika sem er auðvitað gott mál. En á hinn boginn var ekkert gert fyrir okkur hin sem áttum gott með að læra og þar af leiðandi var undantekning ef einhver var sérstaklega hár á samræmduprófunum. Við vorum meira svona meðal. Það var bara enginn metnaður hjá skólastjórnendum né kennurunum að styðja góða nemendur.Það var einn kennari sem hafði metnað á öllu unglingastiginu. Það voru ekki einu sinni gefin verðlaun fyrir góðan námsárangur á útskrift.

Svo var það skólinn sem ég var að vinna í og þar var mikið lagt upp úr því að ná háum einkunnum og hjálpa öllum að ná sínum takmörkum hvort sem þeir voru góðir námsmenn eða ekki.

Þetta lagði ingunn í belginn
13. október 2004 13:44:28
Ég tel mig ekki vera að gefa í skyn að góðir nemendur verði til af sjálfsdáðum og tók einmitt fram í upphafi pistilsins að báðir kennararnir tóku við bekkjunum sínum fyrir ári (hér stendur ekkert um hvernig kennara þeir höfðu áður). En það er staðreynd að það eru til slakir námsmenn með góða kennara og sterkir námsmenn með lélega kennara. Það er svo margt sem spilar inn í, geta hvers og eins nemanda, stuðningur heimilis, geta kennarans í starfi og margt fleira og það var það sem ég vildi benda á. Að nota einkunnir sem allsherjar mælikvarða á störf kennara og meta laun þeirra út frá því er fráleitt því það eru svo margar breytur sem kennarinn hefur ekki vald á þó hann vilji.
Þetta lagði Sigurrós í belginn
13. október 2004 20:28:57
Svo má ekki gleyma því að hættan við að árangurstengja laun er sú að ekki er hægt að útiloka að kennarar myndu þá hugsanlega fara að þóknast nemendum og gefa einkunnir sem ekki myndu samræmast raunverulegri kunnáttu. Einkunnir gætu hækkað án þess að nokkur grundvöllur fyrir því. Einkunnir eru enginn mælikvarði á getu nemenda og þ.a.l. árangur kennara. Það þarf ekki að vera snillingur til að átta sig á því.
Þetta lagði Sunna í belginn
26. október 2004 15:39:58
Ummæli Sunnu
Þó þetta sé orðið gamalt þá verð ég kommenta aðeins á það sem Sunna sagði 13. október 2004 20:28:57.

Hættan við að árangurstengja starf kennara er ekki endilega sú að kennarar fari að þóknast nemendum. Það er bara hættan ef árangurstengingin er tengd við einkunnir nemenda, s.s. vond aðgerðabinding.
Það í sjálfu sér útilokar ekki að það sé til önnur aðgerð til að meta árangur í starfi kennara sem skapar ekki þessa hættu. Hún er bara ekki jafn augljós að margir "nýútskrifaðir/verðandi viðskiptafræðingar" vilja halda fram.
Þetta lagði Tryggvi R. Jónsson í belginn
29. mars 2006 15:54:13
datt inn á þessa síðu við leit að öðru og langaði að svara gamalli umræðu. í vetur hef ég verið með eins bekk og rætt er um, utan við að ekki er einhverfur eða þroskaheftur nemandi í honum. Einnig eru nemendurnir 25 en ekki 20. Það er ekki fastur stuðningsfulltrúi með neinum nemanda þannig að vinnudagurinn er mjög langur og erfiður. Ég er sammála því að breyta þurfi umræðunni en sá sem heldur því fram að það séu ekki til svona bekkir ættu að kanna hlutina aðeins betur.
Þetta lagði María í belginn
29. mars 2006 18:36:28
Takk fyrir innleggið, María, í þessa umræðu. Ég held nefnilega að margir í þjóðfélaginu haldi að fötluð börn og börn með ýmsa námserfiðleika séu öll með aðstoð með sér inni í bekk eða séu tekin mikið út til að fara í sérkennslu. En við sem störfum við kennslu vitum að sú aðstoð sem þau fá er yfirleitt í mjög miklu lágmarki ef hún er þá til staðar. Það að tengja laun kennara beint við frammistöðu nemendanna er því engan veginn sanngjörn lausn á kjarabaráttunni.
Þetta lagði Sigurrós í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum