24. maí 2004  #
Þessir freku kennarar!

Þessa dagana er með baráttufundi víðs vegar um borgina. Ég mætti á einn slíkan sem haldinn var í Háteigsskóla í kvöld og var virkilega stolt af góðri þátttöku samkennara minna í Hlíðaskóla.

Ég er vissulega hálfgræn í þessum málefnum enda glæný í starfinu en meira að segja ég geri mér grein fyrir að það þarf að leggjast í þetta af hörku enda virðist samninganefnd sveitarfélaganna staðráðin í að leggja á okkur meiri vinnu án þess að sjá til þess að við fáum mannsæmandi laun á við aðrar stéttir í þjóðfélaginu.

Fyrir nokkru fór ég inn á Deigluna og las þar grein sem fjallar um eitt helsta vopn kennarastéttarinnar. Nei, þá er ég ekki að tala um kennaraprikið heldur verkfallið. Höfundur greinarinnar telur verkfallið vera úreltan kost fyrir kennara sem séu aðeins að skjóta sig í fótinn með því að leggja niður störf og krefjast hærri launa. Það má vel vera og ég veit að það verður ekki auðvelt að borga reikninga með þeim fáu krónum sem verkfallssjóður mun borga mér ef til verkfalls kemur í haust (sérstaklega þegar ég verð búin að borga skatt af þeim). Mig langar hins vegar til að spyrja pistlahöfund Deiglunnar hvaða ráð hann telji að við eigum að nota í staðinn því ég kem ekki auga á sterkari leið. Hann nefnir að gott væri að láta kjaradóm ákvarða laun kennara. Því miður er það ekki raunin og því til lítils að nefna það sem lausn.

Pistlahöfundurinn fjallar einnig um að bæta þurfi menntakerfið og stefna að því að aðeins verði ráðnir góðir kennarar. Bíddu, gerum við það með því að fjölga nemendum í bekkjardeildum eins og pistlahöfundur bendir á undir lok greinarinnar? Síðan hvenær hefur það verið hvati að betra skólastarfi? Einnig langar mig að spyrja hvaða mælistiku pistlahöfundur ætlar að nota til að ákveða hvaða kennarar eru góðir og hverjir slæmir. Kannski með einkunnasamanburði nemenda? Eða á kannski að halda árlega hæfniskeppni kennara þar sem keppt verður í að koma nemendum fljótt og örugglega í beinar raðir og í að skrifa fallega á töfluna með krít? Vissulega er það keppikefli fyrir skólana að sanka að sér faglegum og góðum kennurum en ég sé engan veginn hvernig mæla á hvor er betri kennari Gunna eða Anna og hvor þeirra eigi þá að fá hærri launaseðil.

Já, það er erfitt líf að vera heimtufrekur kennari. Auðvitað á ég bara að skammast mín fyrir græðgina og skríða undir næsta stein en það vill nú bara þannig til að ég vil gjarnan sitja við sama borð og aðrir. Ég vil gjarnan að mín háskólamenntun sé einhvers metin í byrjun hvers mánaðar þegar launaseðillinn minn er sendur út.


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
25. maí 2004 09:53:08
Heyr heyr
Hjartanlega sammála þér!!
Þetta lagði Helga Sigrún í belginn
25. maí 2004 14:19:08
Mér hitnar alltaf í hamsi þegar rætt er um laun kennara.

Ég held að ef laun kennara yrðu hækkuð verulega myndi það sjálfkrafa leiða af sér betri kennara. Eftir því sem laun eru hærri þeim mun meiri samkeppni er um að komast í stöðurnar og þeim mun meiri líkur á að hæfustu einstaklingarnir komist í þær.

Það er sorglegt að hugsa til þess að það eru allt of margir sauðir innan um grunnskólakennara landsins. Bróðir minn kom einu sinni með miða heim úr skólanum sem á stóð "Bókakinning í kvöld". Grunnskólakennarinn minn sagði alltaf "keyptu þér" og "mér hlakkar". Ég á erfitt með að taka svoleiðis fólk alvarlega, því miður.

Þegar flestir karlmenn voru kennarar voru launin hlutfallslega hærri miðað við aðrar stéttir.

Ég vona að það gangi vel í launabaráttunni því ég held að lykillinn að vel menntaðri þjóð sé að kennarar séu á mannsæmandi launum. Og jafnvel vel það!
Þetta lagði Sunna í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum