12. ágúst 2004  #
Dorothy, you´re not in Reykjavík anymore

Nei, mér finnst ég ekki vera á Íslandi lengur, því að Ísland getur ómögulega verið svona heitt og sólríkt. Þið verðið að afsaka hvað ég er þreytandi að blogga ekki um neitt annað og merkilegra en hitabylgjuna ógurlegu en þar sem hún stjórnar gjörðum mínum þessa dagana þá fær hún líka að stjórna blogginu mínu.

Tók sundfötin með mér um leið og ég skutlaði Jóa í vinnuna og fór svo beinustu leið í Kópavogslaugina. Var komin nógu snemma til að sleppa við mestu mannmergðina. Dólaði mér fyrst um sinn í sólbaðslauginni, synti síðan ca. 250 metra, lagðist í sólbað í hálftíma, synti aðra 250 metra og kom mér upp úr rétt um það leyti sem staðurinn var að fyllast. Ég get ekki að því gert að mér finnst miklu skemmtilegra í sundi þegar það hafa ekki allir á höfuðborgarsvæðinu fengið sömu hugmynd.

Restin af deginum fór í alls konar útréttingar í rólegheitunum (það er ekki hægt annað en að gera hlutina í rólegheitum á svona dögum) og svo fór ég í sjúkraþjálfun. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hlakkað til að láta pakka mér inn í heita bakstra í þessum þvílíka hita og hélt það yrði óbærilegt, en svo var ekki. Kannski af því að ég fékk nokkrar nálar í mig líka. Ég svoleiðis steinsofnaði að ég var lengi að ranka við við mér og átta mig á hvar ég væri...og yfirleitt hver ég væri, þegar sjúkraþjálfarinn vakti mig. Var næstum búin að klóra sjálfa mig með nálunum sem ég var búin að gleyma að stóðu upp úr handarbökunum á mér.

Eftir útréttingar og sjúkraþjálfun hafði ég rúman hálftíma til stefnu áður en ég átti að sækja Jóa í vinnuna og vissi ekkert hvað ég ætti af mér að gera. Fór niður í Nauthólsvík til að skoða mannlífið og kannski vaða pínu á táslunum út í sjó. Hingað til hefur mig ekki langað þangað á sólardögum því eins og ég sagði hér að ofan þá er skemmtilegast að liggja í sólbaði og svamla þegar flestir aðrir eru bara heima hjá sér. Sá að ég hef gert rétt með því að halda mig fjarri Ylströndinni vinsælu. Þvílíka stöppu af fólki hef ég bara aldrei séð samankomna hér á Íslandi til að baða sig í vatni og sól. Bílum var lagt næstum út að Hótel Loftleiðum, varla hægt að stíga niður fæti á ströndinni og samanlagður hávaðinn óbærilegur. Nei takk, held ég afþakki pent. En ég var samt fegin að ég kíkti í þessa stuttu stund því ég hitti fólk sem virkilega gaman var að hitta. Fyrst kölluðu á mig fyrrum nemandi minn, hann Alex, og mamma hans. Þau eru að flytja til Rússlands og ég bjóst ekki við að hitta hann aftur áður en þau færu svo að þetta var mjög skemmtileg og óvænt ánægja :) Og það var ekki síður óvænna eða skemmtilegra að rekast síðan á hana Ástu mína sem ég hef ekki séð í einhver ár. Við ákváðum að vera í bandi og kíkja saman á kaffihús ásamt Hildigunni. Vonandi látum við verða af því sem fyrst :)

En óvæntum og skemmtilegum uppákomum var ekki lokið þennan daginn. Á leiðinni heim fórum við Jói að sækja okkur Megagígavikupizzu á Dominos. Ég stökk inn og sagðist vera að sækja pizzu merkta Sigurrós. Afgreiðslumaðurinn endurtók nafnið hugsi og heilsaði mér síðan kumpánlega. Ég, sem yfirleitt er alltof treg til að þekkja andlit, hafði ekki hugmynd um hver þetta var. Þangað til hann rétt lyfti aðeins upp derhúfunni (hefur vitað hvað þyrfti til að vekja mig af tregðunni). Þá sá ég að þetta var hann Andri af Kambsvegi 19, en ég lék mér mikið við Guðna bróður hans og stundum hann þegar ég var lítil. Ótrúlega skemmtileg tilviljun, að hitta fyrst Ástu af Kambsvegi 21, svo Andra af Kambsvegi 19 og ég sjálf af Kambsvegi 17 :) Vantaði bara Hildigunni, Guðna og Sigurlaugu :)

Til að kóróna skemmtilegheitin kom svo Stefa mín í heimsókn í kvöld. Við höfðum "rauðvíns-, osta- og frönskumyndakvöld". Einstaklega ljúffengt :) Gerir það reyndar að verkum að mig svimar pínu við að horfa á skjáinn núna til að blogga, er nefnilega hænuhaus af verstu gerð ;) Við horfðum á Tatie Danielle, sem Stefa átti á spólu á sínum yngri árum (þ.e.a.s. þegar hún var miklu yngri en hún er núna, þó hún sé auðvitað upp á sitt yngsta núna ;) hehe) og ég hafði reyndar aðeins séð einu sinni áður og þá bara hálfa. Spólan hennar Stefu var löngu týnd en eins og vitað er má alltaf treysta á Laugarásvideo til að eiga sjaldgæfar, góðar myndir - myndin var að sjálfsögðu til hjá þeim :) Hin fínasta mynd, Danielle frænka sjálf er yndislega illkvittin en ótrúlega skemmtileg.


Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
14. ágúst 2004 00:14:08
Mikið er gaman að þú skulir hafa hitt gömlu nágrannana okkar af Kambsveginum. Kannski er ekki svo vitlaust eftir allt, að fara einmitt þar sem mannmergðin er mest þar eru mestar líkur á að hitta fólk.
Þetta lagði Mamma í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum