11. ágúst 2004  #
Annar hitabylgjudagur

Það var ekki auðvelt að sofna í gær í öllum hitanum, en einhvern veginn hófst það á endanum. Ég er farin að finna fyrir þvílíku déjavu úr útskriftarferð nokkurri til partýeyjunnar Ibiza. Þar var einmitt líka erfitt að sofna fyrir hita. Jæja, það er kannski ekki hægt að líkja því alveg saman, hitinn þar var víst tæpar 40°C meðan hann er á bilinu 20 - 30°C hér þessa dagana, en það er samt eitthvað sem minnir mig á Ibiza-hitann.

Besta ráðið við Ibiza-hitanum var að skella sér niður að laug og taka sundsprett eða svamla í sjónum. Greip til sama ráðs í dag. Langaði reyndar lítið að stinga mér í kaldan íslenskan sjó svo ég valdi sundlaug í staðinn. Rölti á tæpum hálftíma yfir í Kópavogslaug þar sem ég buslaði pínulítið í barna-/sólbaðslauginni og lá svo á bekk í smá tíma. Þegar ég sá að axlirnar á mér voru að verða rauðar fór ég upp úr þar sem ég hafði ekki borið á mig sólarvörn.

Mamma sótti mig fyrir utan sundlaugina en hún var að koma úr klippingu. Við kíktum á ZikkZakk-útsöluna og fengum okkur hamborgara í Hamra-Grilli í Hamraborginni áður en við fórum heim í Arnarsmárann. Sátum drykklanga stund á svölunum, sleiktum sólina og fylgdust með fjörinu á leikvellinum við leikskólann. Þar var búið að setja risastórt plast á grasið í brekkunni. Á plastið rann vatn úr slöngu og skríkjandi leikskólabörn á sundfötum renndu sér hverja ferðina á fætur annarri í þessari glæsilegu heimatilbúnu vatnsrennibraut. Við mamma vorum sammála um að það væri greinilega mjög gaman að vera innan við 6 ára í aldri :) Húrra fyrir leikskólakennurunum á leikskólanum Arnarsmára! :)

Áður en mamma fór að sækja Hauk til að skutla honum út á flugvöll, skruppum við niður í miðbæ og skoðuðum nýju Tískuvalsbúðina. Fengum stæði beint fyrir utan búðina sem var líklega heppni því við höfðum mjög nauman tíma, en kannski líka óheppni því þá fengum við ekki eins gott tækifæri til að labba aðeins á Laugaveginum og skoða mannlífið. Gaman að sjá hvað það streymir mikið af fólki niður í bæ á svona góðviðrisdögum.

Meðan mamma var á Keflavíkurrúntinum dröslaði ég gamla gestabeddanum neðan úr geymslu og út á svalir, bar á mig helling af sólarvörn, setti The Hitchhiker´s Guide á fóninn og reyndi að næla mér í smá brúnku. Held að það hafi nú tekist að einhverju leyti :) Ég er yfirleitt ekki mjög dugleg að liggja í sólbaði, eins og þeir sem þekkja mig vita, svo að að ég er mjög stolt yfir að hafa náð að liggja í sólinni í rúmar 40 mínútur. Sko mig! :)

Sannir Íslendingar grilla á sólardögum. Þeir grilla reyndar mun oftar en það, en a.m.k. á sólardögum ;) Við vildum líka vera sannir Íslendingar...og svo erum við líka svo hrifin af grillkjöti þannig að við losuðum grillið úr prísundinni (bundið við handriðið með farangursteygjum til að fjúka ekki aftur). Og einhvern veginn kom ekki til greina að hírast inni í svona sól og blíðu svo að við borðuðum bara úti. Myndir dagsins urðu reyndar ekki jafnmargar og í gær, en það er þó fólk á sumum myndum í dag :)

Í kvöld vorum við Jói svo að spá í að fara í bíó en gátum ekki fundið neina mynd sem okkur langaði bæði að sjá svo að ég fór bara og sótti videomynd fyrir okkur. Tókum Crimson Rivers/Les rivieres pourpres sem var mjög spennandi og fín, þrátt fyrir afar ógeðfelld augnatriði (sem ég sá reyndar ekki því ég hélt höndunum fyrir andlitinu á meðan). Nú ættum við þá að geta farið á nr. 2 í bíó.


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum