20. janúar 2006  #
Þorrablót að hætti Hlíðaskóla

Á bóndadegi ár hvert (nema reyndar í fyrra vegna aðstæðna) er þorramatur á matseðli Hlíðaskóla. Ég reyndi að smakka eitthvað af herlegheitunum fyrir 2 árum en lagði nú ekki í hákarlinn þá.

Það var gaman að sjá hvað krakkarnir voru áhugasamir um "lostætið" í matsalnum í dag. Þó þeim litist nú ekki á margt af þessu þá voru þau samt forvitin og langaði flest til að smakka eitthvað nýtt.

Þrjú þeirra mönuðu mig í að smakka fyrir sig súrsaða hrútspunga. Þar sem planið hjá mér hafði einmitt verið að smakka á öllu þegar ég færi upp á kennarastofu, þá fannst mér alveg eins sniðugt að smakka með krökkunum. En þau urðu auðvitað að smakka líka.

Ég skar 4 pínulitla bita af súrsuðum hrútspungum fyrir okkur og ég smakkaði fyrst. Þau fylgdust spennt með meðan ég japlaði á þessu og spurðu hvort þetta væri gott. Ég sagði eins og var, að mér fyndist þetta nú ekki gott - en þau mættu samt ekki gugna, þau yrðu líka að smakka. Þau gerðu það en voru ekki mikið hrifnari af pungunum en ég.

Pilturinn í hópnum tók sig nú til og náði í skálina með kæsta hákarlinum. Plastið var haft yfir skálinni til að dempa lyktina en við lyftum því nú upp til að ná í 2 litla bita til að skera í fernt fyrir okkur. Guð minn almáttugur - þvílíkar eiturgufur sem upp af hryllingnum stigu!

Ég var að nýju útnefnd til að vera fyrst til að smakka, svo að ég tók fyrir nefið og stakk agnarsmáum bitanum upp í mig. Í fyrstu varð ég fegin, þetta var eins og skatan, þ.e.a.s. bragðið ekki alveg jafnvont og lyktin. Þangað til að ég var að klára að tyggja og byrjuð að kyngja. Þá tók bragðið á sig sama form og eiturlyktin. Gretturnar á mér voru svo sem ekki til að hvetja börnin til að smakka, en þau gerðu það samt. Greinilega hugrakkt fólk með endemum!

Ég skal segja ykkur það, að ég var marga klukkutíma að losna við bragðið úr kokinu, eða alla vega losna við minninguna um bragðið. Gat varla setið inni á kennarastofu til að borða í lyktinni. Meira að segja áðan, þar sem ég sat og horfði á sjónvarpið gaus bragðið allt í upp í minningunni eins og hræðilegt flashback úr einhverri hryllingsmynd!

Held ég verði að segja, að þó ég hafi ýmislegt undarlegt smakkað í gegnum tíðina, að þá er ammóníakeitraði hárkalinn það allra versta.

Óska ykkur öllum til hamingju með bóndadaginn og þorrann! ;)

 


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
20. janúar 2006 23:06:15
Ótrúlegt að það skuli vera dóttir mín sem hefur skrifað þetta eins og mamman elskar allan þorramat. Þetta með hákarlinn rifjar líka upp góðar minningar og ég fékk þarna hugmynd í næsta blogg Takk fyrir.
Þetta lagði Ragna í belginn
21. janúar 2006 10:49:19
Já, það hefur greinilega eitthvað farist fyrir að innleiða þorramatsgenin í mig. Mér finnst samt ósúrsuð lifrapylsa lostæti :) en fleira var það nú eiginlega ekki.
Þetta lagði Sigurrós í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum