22. desember 2006  #
Yndislega jólaveðrið...

Það var ósköp gott að sofa til hádegis í dag, held það hafi verið akkúrat það sem ég þurfti :)

Fór svo aftur í búðabrjálæðið í Smáralind um þrjúleytið til að redda síðustu gjöfunum. Vissi alveg að það yrði allt stútfullt og erfitt að finna bílastæði en var ákveðin í að láta það ekki stressa mig. Ætlaði bara að rúnta um þangað til einhver færi úr sínu stæði svo ég gæti tekið það. Æðri máttarvöld ákváðu greinilega að verðlauna mig fyrir rólegheitin en ég var varla komin inn á planið fyrir ofan Smáralind þegar það losnaði stæði stutt frá innganginum nálægt Debenhams.

Ég leit við á póstbásnum og sendi af stað gjöfina til Jolöndu og fjölskyldu (jú, nú getur maður sagt "og fjölskyldu" því litla snúllan hennar og Jeroens fæddist núna fyrr í mánuðinum :)). Ég veit vel að þetta kemur ekki til þeirra fyrir jól en það verður bara að hafa það - það verður þá aukaglaðningur hjá þeim á nýju ári :) Ég vona bara að jólakortin innanlands sem ég setti í póst í gær berist í tæka tíð fyrir jól - ég skil ekki alveg hvernig mér tókst að vera svona sein með þetta, því ég byrjaði að föndra kortin snemma í nóvember! O jæja, það er sama hversu góðar fyrirætlanir maður hefur, það tilheyrir kannski jólaundirbúningnum að vera seinn með þetta ;)

Eftir að hafa keypt þessar síðustu gjafir sem eftir voru brá ég mér í Hagkaup til að kaupa eitthvað til að maula yfir hátíðirnar. Sikksakkaði síðan sallaróleg með pokana mína í innkaupakerrunni á milli alls stressaða fólksins. Kom að réttu dyrunum og skildi ekki alveg af hverju hópur af fólki stóð þar og starði út.

Þegar ég kom nær fór það hins vegar ekkert á milli mála. Veðurofsinn var svo mikill að fólk þorði ekki út. Vindurinn var búinn að stöðva snúningsdyrnar og rigningin var svo mikil að það hefði ekki komið mér á óvart að sjá nokkur dýr fljóta framhjá í björgunarbátum, tvö af hverri tegund saman í bát...

Ég vafði sjaltreflinum góða frá Angelu utan um höfuðið og fílaði mig um leið eins og Greta Garbo - þó ég sé reyndar nokkuð viss um að hún hafi sjaldan eða aldrei þurft að hlaupa með innkaupakerru í gegnum beljandi storm...

Þegar ég sá bílinn opnaði ég með fjarstýringunni en eitthvað virtist læsingin samt standa á sér því ég náði ekki að opna framdyrnar. Það að ég var ekki stödd við minn eigin bíl gæti haft eitthvað um málið að segja... Mínum bíl hafði ég nefnilega lagt tveimur stæðum lengra ;) En mér til málsbóta, þá hef ég sjaldan þurft að fara í gegnum jafnsvakalegan rigningarstorm - og þessi bíll var svo sem hvítur eins og minn...

Ég sat í smá stund í bílnum fyrir utan Arnarsmárann áður en ég náði að safna nægum kjarki til að fara með pokana inn. Ég var fegin að það var einhver matvara í pokunum því í fyrstu leit út fyrir að ég þyrfti að dvelja í bílnum um nokkra hríð þar sem varla var vinnandi vegur að opna framdyrnar vegna veðurofsa. Ég þurfti að beita öllum mínum kröftum til að komast út og var logandi hrædd um að rúðan myndi einfaldlega brotna.

Ég var snögg að ganga frá matnum úr innkaupapokunum og þurfti svo að skipta um föt því þau sem ég var í voru rennandi blaut í gegn (ég var nefnilega í gallajakkanum en ekki úlpunni til að verða ekki of heitt í stressinu inni í Smáralind).

Já, einhvern veginn held ég að spekingarnir á Veðurstofunni hafi rétt fyrir sér þetta árið - það þarf kraftaverk ef þetta eiga að verða hvít jól! 


Leggja orð í belg
3 hafa lagt orð í belg
23. desember 2006 12:53:18
Þú verður að fara vel með þig og litlu dúlluna :)
Gleðileg jól og hafðu það nú gott!
Þetta lagði margrét arna í belginn
24. desember 2006 00:43:31
Ég veit alveg af hverju þú varst sein með kortin - það er ekki búið að vera neitt lítið að gera hjá þér í vinnunni undanfarið!!!
Og úps....er það ekki frekar ég sem ætti að lenda í því að reyna að opna vitlausan bíl??....Nema að þetta sé smitandi!
Nú skaltu leggjast með fæturna upp í loft og láta ættingjana stjana við þig um jólin!!
Þetta lagði Rakel í belginn
24. desember 2006 10:07:40
Gleðileg jól!
Farðu vel með þig frænka!
Þetta lagði Anna Hjalta í belginn


Skiptimiðinn gerir gjöfina betri

Ein af teiknimyndasögum dagsins minnti mig svo á uppáhaldsauglýsinguna mína um þessar mundir, þannig að ég varð að deila þessu með ykkur. Ég vona bara að það hafi verið skiptimiði á þessari gjöf ;)


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum