Fórum í kvöld á jólahlaðborð með Hugviti, vinnunni hans Jóa, og þetta árið var farið á Hótel Valhöll á Þingvöllum. Áður en þangað var haldið bauð Guðjón Snær, yfirmaður Jóa, deildinni í fordrykk heima hjá sér. Þar fengum við ljúffengan Kir Royal og fengum að kynnast hundi, naggrísi og albínóafroskum.
Ég hlakkaði mikið til að borða á sjálfum Þingvöllum og sá þetta fyrir mér í hyllingum. En jólalega lýðveldisstemmningin sem ég hafði séð fyrir mér var reyndar víðs fjarri. Um leið og hópurinn kom í hús flýtti fólk sér að finna sæti og stökk svo beint á hlaðborðið. Það myndaðist því engin svona sameiginleg stemning.
Forsvarsmenn Hótel Valhallar virðast hafa gengið í sama bissness-skóla og þeir sem eru með Gauk á Stöng, því mottóið virtist vera að troða sem flestu fólki inn, líklega til að græða sem mest. Við sátum 16 saman líkt og sardínur í dós við borð sem rúmar u.þ.b. 14 manns, læri við læri, öxl við öxl, og þurftum við að beita kúnstarinnar aðferðum við að skera matinn. Þetta gerði það einnig að verkum að ferðirnar að hlaðborðinu urðu örfáar, einfaldlega vegna þess að það krafðist gífurlegrar einbeitingar og algjörrar samvinnu allra við borðið við það eitt að standa upp. Ég hefði gjarnan viljað tylla mér í þægilegan stól eða sófa eftir matinn en reykingarfólkið hafði lagt öll slík þægileg svæði undir sig svo það var ekki um annað að ræða en að sitja áfram í sardínudósinni.
Ekki get ég þó kvartað yfir matnum. Allt sem ég bragðaði á var gott á bragðið og puran á svínasteikinni var nákvæmlega eins og ég vil hafa hana, stökk og góð.
Eftir matinn fjarlægðu þjónarnir hlaðborðið svo fólk gæti dansað. Tónlistin var þó frekar óspennandi og ekki vel til þess fallin að lokka t.d. mig út á dansgólfið.
Áætlað var að rútan færi í bæinn aftur milli kl. tólf og eitt en við vorum alveg búin að fá nóg kl. 10. Við sníktum því far í bæinn með Arnari, Konna og Fjólu og erum guðs lifandi fegin að sitja heima í Betrabóli nú á sama tíma og vinnufélagar Jóa eru að ná í yfirhafnirnar og klára úr glasinu áður en rútan fer heim.
Það er alltaf gaman að klæða sig upp, sýna sig og sjá aðra, borða góðan mat og drekka gott rauðvín en þetta var samt pínulítið misheppnað kvöld. Því miður.
Enginn hefur lagt orð í belg!