|
30. mars 2009 # Örfáar línur Var að sjá að "nýjasta" fréttin mín hérna á blogginu er um lungnabólguna. Kannski í lagi að láta heyra aðeins frá sér svo þið haldið ekki að ég sé hrokkin upp af vegna lungnabólgu... ;) Ég held ég hafi náð að losa mig við þann óþverra og nú er það bara svona þetta "venjulega" kvef sem lætur á sér kræla. Annars hlýt ég nú að fara að byggja smám saman upp blessað ónæmiskerfið enda erum við skvísurnar í 6 ára bekk farnar að vera duglegri í útikennslunni og svo er ég farin að taka strætó heim úr vinnunni. Já, já, bara hörku útivera og hreyfing eins og mín er von og vísa... ;) ehemm Hljóðbækurnar koma sér vel á heimleiðinni, verst hvað þær klárast hratt... 16. febrúar 2009 # Lungnabólga Ég er búin að hafa það frekar skítt síðustu vikuna. Fyrri part síðustu viku var ég að farast af vöðvabólgu, þrælstíf í öxlum og höfuðið eins og klemmt í bekkpressu. Var heima síðasta fimmtudag til að jafna mig af því og þegar ég ætlaði í vinnu á föstudeginum kom í ljós að ég er komin með lungnabólgu! Sem sagt, frekar skítt. Ég á að vera áfram heima í dag og á morgun, en hitti á morgun lækni sem ætlar að tékka hvernig batinn gengur og þá fæ ég að vita hvenær ég má fara aftur að vinna. Svo að mitt helsta verkefni núna er að taka sýklalyf, hvíla mig, lækka hitann niður í eðlileg mörk, berjast við hósta og reyna að ná einhverri orku aftur. Gaman gaman... 9. febrúar 2009 # Nick Knatterton ályktar Munið þið eftir teiknimyndaþáttunum um Nick Knatterton? Þeir voru oft á dagskrá seinni part kvölds fyrir ca 20 árum, gerðu yfirleitt ekki boð á undan sér ef ég man rétt en var skeytt inn í göt í dagskránni. Þættirnir gerðu grín að ofurmannlegum og kvensömum leynilöggum. Ég veit ekki almennilega af hverju ég fór að hugsa um hann Nick Knatterton, en þegar honum skaut upp í hugann um daginn þá linnti ég ekki látunum fyrr en ég mundi hvað hann hét og fann hann á Youtube. Í minningunni eru þetta alveg snilldarþættir - og mér sýnist að þeir séu það líka núna. Hins vegar þyrfti ég aðeins að rifja upp þýskuna ef ég ætlaði mér að horfa á þá á youtube, þeir voru nefnilega talsettir á íslensku hérna í gamla daga ;) 24. desember 2008 # Gleðileg jól! Litla fjölskyldan í Kópavoginum óskar öllum ættingjum og vinum gleðilegra jóla. Við vonum að nýja árið verði ykkur ánægjulegt og vonumst til að eiga með ykkur margar skemmtilegar stundir!
Gleðileg jól!
8. nóvember 2008 # Gleymdirðu einhverju? Þá er langþráð helgin komin. Sumar vikur eru einhvern veginn lengri en aðrar og þessi var ein af þeim. Það var reyndar ýmislegt skemmtilegt í vinnunni, m.a. fórum við með alla 50 fyrstu bekkingana í heimsókn á leikskóla í gær, tróðum þeim þar öllum inn og allir borðuð nestið sitt og fengu að leika sér við leikskólakrakkana. Heilmikið fjör og við erum strax farnar að hlakka til næstu leikskólaheimsóknar. Það getur verið svo gaman að þessum sex ára krökkum og gullkornin sem koma frá þeim eru oft stórkostleg. Ég ætla að reyna að vera dugleg að skrifa niður það sem kemur frá þeim því þó manni finnist að þetta hljóti maður að muna, þá gleymist allt furðufljótt. Einn strákurinn sagði mér t.d. að mamma sín hefði verið í viðgerð (sem sagt aðgerð) og ein stelpan kvartaði yfir því að bekkjarbróðir sinn hefði sparkað í punginn á sér... Mér fannst t.d. alveg yndislegt í gær þegar ég var að lesa nemendur mína upp í heimakróknum. Ég hafði ekki blásið á mér hárið í gærmorgun, heldur greiddi það bara og leyfði því bara að þorna sjálfu og var satt að segja ósköp ánægð með það. Þegar hárið á mér fær að stjórna sjálft þá verður það mjög "lifandi" og liðast pínu eftir eigin hentugleika. Ég mæti síðan inn í 1. bekkinn þar sem ein stelpan starir á mig og spyr: "gleymdirðu að greiða þér í morgun?" :) Algjör snilld! 18. október 2008 # Að taka sig saman í andlitinu Við hér í Betrabóli hefðum helst þurft að ráða okkur heilbrigðisstarfsmann síðustu vikuna. A.m.k. í hálft starf! Jói er búinn að vera lasinn heima síðan á föstudeginum fyrir viku, Ragna Björk er búin að vera lasin síðan um síðustu helgi (fór reyndar í leikskólann á þriðjudag og miðvikudag) og ég skreiddist lasin heim úr vinnu síðastliðinn miðvikudag. Þvílíkt ástand á heimilinu. Næturlæknirinn sem kom að kíkja á Rögnu Björk um miðja viku leit á mig líka og sagðist helst halda að ég væri að fá einkirningasótt. Ég fór nú eiginlega bara að hlæja - því það var annað hvort það eða fara að gráta...! ;) En læknirinn sem ég talaði við daginn eftir á heilsugæslunni staðfesti það sem ég hélt, að þann hrylling fær maður bara einu sinni á ævinni. Svo að ég fékk bara fúkkalyf við bakteríusýkingu í staðinn og vonandi lagast dularfullu bólgnu háls-eitlarnir við það. Jói er líka að taka fúkkalyf við svæsinni bakteríusýkingu í hálsi svo að við erum bara alveg í stíl hjónakornin ;) Ragna Björk sleppur sem betur fer við að taka lyf við sinni pest og við erum mjög fegin meðan við náum enn að tefja það að hún fái sýklalyf í fyrsta sinn á ævinni. - o - o - o - o - Í gærkvöld gafst ég loks upp og skráði mig inn á Facebook. Mér hefur alltaf fundist tengslanet-pælingin við Facebook svolítið spennandi, en samt ekki nóg til að mig langaði að taka þátt. Nenni eiginlega ekki að telja upp hér það sem mér finnst fráhrindandi við Facebook, hef átt alltof margar slíkar samræður við þá sem óðir og uppvægir vildu draga mig inn í fjörið ;) Það er alveg hægt að nota Facebook á ýmsan hátt og ég er alveg búin að fatta að ég get auðvitað bara tekið þátt í þeim hlutum þess sem mér finnast spennandi (nánar tiltekið, til að endurvekja tengsl við gamla vini og kunningja) og sleppt hinu. Svo var líka bara einfaldara að gefast upp og taka þátt, heldur en að halda rökræðunum áfram. If you can´t beat them, join them! ;) 13. október 2008 # Knúsvikan mikla 13. - 20. október Áðan rakst ég á frábært átak á Kærleiksvef Júlla (hjá þeim hinum sama og heldur úti hinum snilldarlega Jólavef). Nú vill Júlli sem sagt standa fyrir knúsviku dagana 13. - 20. október, svona til að kæta og bæta andrúmsloftið. Mér finnst ofsalega gott að knúsa svo að mér finnst þetta auðvitað alveg stórsniðugt. Tökum nú öll þátt og knúsumst extra mikið þessa vikuna :) Segjum svo bara eins og Stubbarnir: " Stórt knús!"
|
Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna
Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)
Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes
Art Lad
Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ
..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á rss.molunum
4 hafa lagt orð í belg