Hér með lýsi ég yfir frati á Pizza Hut!
Frábærar pizzur en ömurleg þjónusta.
Ég hringdi í skrifstofuna þeirra í dag til að kvarta yfir öllu veseninu undanfarið.
Fyrst ræddi ég við konu sem sagðist myndu setja inn inneign fyrir 1100 kr., verðið sem ég borgaði upphaflega. Málið er samt það að sú pizza sem ég keypti hjá þeim í upphafi var stór pizza, þó hún hafi akkúrat kostað 1100 kr. daginn sem ég keypti hana. Ég útskýrði það fyrir konunni í símanum að ég teldi mig eiga rétt á inneign fyrir stórri pizzu, hvað þá eftir að hafa lent í því á laugardagskvöldið að þurfa að borga fullt verð fyrir það sem ég pantaði þar sem inneignin hafði ekki ekki einu sinni verið sett inn. Hún svaraði á móti að ef ég hefði keypt peysu á útsölu þá hefði enginn farið að borga mér 1000 kr. með peysunni. Veit ég vel. En ég vil líka vera viss um þegar ég kaupi peysu á útsölu að afgreiðslukonan láti mig ekki hafa buxur í staðinn. En það hafðist ekkert meira upp úr samtalinu svo ég kvaddi og var enn reið enda hafði ég ekki fundið fyrir snefil af þjónustulund hinum megin á línunni.
Svo ég hringdi aftur og fékk nú samband við framkvæmdastjórann. Hefði alveg eins getað sleppt því. Held ég hafi sjaldan rætt við jafndónalegan mann. Hann hló að mér þegar ég var búin að segja honum hvað málið væri, talaði niður til mín allt símtalið með því að ávarpa mig með "Sigurrós mín" og sagði að þetta væri nú í rauninni mér sjálfri að kenna þar sem ég hefði átt að kíkja sjálf í kassann áður en ég fór með pizzuna heim. Ókei, auðvitað hefði það sparað heilmikið vesen en einhverra hluta vegna leggur maður það í vana sinn (guð má vita hvers vegna!) að treysta veitingastöðum þegar maður leggur inn pöntun. Hann sagði líka að ég hefði nú fengið vitlausu pizzuna fría og ætti ekki að vera að kvarta. Það virtist ekki koma málinu við að ég hefði með glöðu geði skipt strax ef þeir hefðu bara komið með réttu pizzuna til mín, ég veit margt skemmtilegra en að fara margar ferðir út á Pizza Hut. En þá fyrst var honum skemmt; "heldurðu virkilega að við förum að keyra út um allan bæ með pizzu fyrir þúsund krónur? Bensínið á bílinn kostar meira!"
Ég lét hinn hrokafulla framkvæmdastjóra vita að ég myndi nýta mér þessa 1100 kr. inneign og færa flatbökuviðskipti mín annað í framtíðinni. Held honum hafi ekki getað verið meira sama.
Þangað til Pizza Hut sér sig um hönd og færir viðskiptavini sína í fyrsta sæti fram yfir skyndigróða, þá mun ég hunsa þá og panta frekar á Dominos eða annars staðar. Það er heilmikil fórn fyrir mig að kveðja Pizza Hut pizzurnar því mér finnst þær svo góðar, en mér þykir það leitt, ég læt ekki koma fram við mig eins og fífl!
Jarðarför Dússýjar fór fram frá Bústaðakirkju í dag. Mjög falleg og yndisleg athöfn. Erfidrykkjan á eftir gaf vinum og vandamönnum svo tækifæri til að hittast og spjalla saman yfir kaffi og meðlæti. Sorglegt samt að maður skuli ekki hitta fólkið sitt oftar, sorglegt að það þurfi jarðarför til að fólk hittist. Mig langar mikið til að það verði haldið smá ættarmót með afkomendum ömmu Villu og afa, og ekki þá svona jakkafataættarmót heldur bara grill og fjör uppi í sveit þar sem allir geta slappað af og átt góða stund saman.
7 hafa lagt orð í belg
Verst með brauðstangirnar
Mér hefur nú fundist pizzurnar þeirra vera nú bara olíublautt brauð með gerviosti. Ég mun hins vegar sakna brauðstanganna. Brauðstangir frá Pizza Hut og pizza frá Dominos.. það er galdurinn!
Þetta lagði Jói í belginn
Brauðstangir hjá Hróa Hetti
Hæ Sigurrós. Fannst ég verða að koma því að að Hrói Höttur er með magnaðar brauðstangir - smakkaði þær í fyrsta skipti í vor og mig hefur ekki langað í aðrar síðan þá. Þær eru ekki eins löðrandi í olíu og á hinum stöðunum og auk þess er kryddblandan mun betri.... Pizzurnar skipta svo engu máli, þær eru eins alls staðar! ;)
Þetta lagði Elísabet í belginn
Frat á höttinn
Ég fór þarna um daginn vopnaður skírteini sem átti að veita mér afslátt en síðan þegar ég fór að borga þá könnuðust þær ekkert við að þetta gæfi nokkurn afslátt (ég veit vel að upplýsingarnar sem ég fékk um afsláttinn voru traustar). Bara óheppinn ég, ég er hættur að versla þarna, alltaf ömurleg þjónusta.
Þetta lagði Óli Gneisti í belginn
Styð þig...
Ég myndi líka vera mjög móðguð í þínum sporum.
Þetta lagði Unnur í belginn
ertu ekki að grínast?
váhá, þetta er nú með því lélegra sem maður hefur heyrt. Maður er ekkert að gá hvort það er rétt álegg á pítsunni heldur flýtir maður sér heim áður en hún verður köld. Svo er þetta líka sudda dýr staður. Annars var vinur minn að vinna þarna en var rekinn um daginn fyrir að kasta eggjum í hús forstjórans. Ég skal skila þakklæti til hans ef þú vilt...
Þetta lagði Sindri í belginn
Pizza Hut
Þetta er ömurlegt fyrirtæki. Það er eins og að þeir átti sig ekki á því að þeir missa viðskipti með svona stælum, mun ódýrara fyrir þá að láta þig fá inneign fyrir einni 16" en missa viðskipti þín og fleirri að eilífu.
Er að spá í að hætta að versla við Pizza Hut...fann líka svo góðan stað um daginn, Eldsmiðjuna...nammi namm
Þetta lagði Eygló í belginn
Magnað! Ég lenti einmitt í hremmingum á Pizza Hut í gær. Pizzan mín gleymdist og "þjónninn" kom með hana til mín, eftir að hún hafði beðið í 25 mínútur á einhverju borði. "Þjóninn" virtist líta svo á að betra sé seint en aldrei og fór að þræta við mig um að pizzan hafi beðið lengi.
Þetta endaði á því að pizzuna át ég hvorki né borgaði fyrir. Fór svangur og svekktur út og held að ég fari ekki aftur á Pizza Hut.
Miðað við bloggið þitt, græði ég ekkert á að kvarta heldur.
Þetta lagði Guðjón í belginn