18. september 2004  #
Ég er kennari og er stolt af því!
Hún Helga skrifar góða grein á blogginu sínu í dag. Við eigum það báðar sameiginlegt að vera kennarar og miðað við það sem hún skrifar þá sýnist mér að hún sé, rétt eins og ég (og margir margir fleiri), orðin langþreytt á því að láta koma illa fram við sig vegna starfs síns. Margir undra sig á kröfum og óbilgirni kennara, "fengu kennarar ekki svo góða launahækkun við síðustu kjarasamninga? Hvað eru þeir að ybba gogg?" Það er rétt að laun kennara hækkuðu eitthvað við síðustu samninga, en sú hækkun fékkst eingöngu með því að auka vinnuálagið gífurlega svo að launahækkunin svokallaða át sjálfa sig upp og varð að engu.

Dag eftir dag sér maður og heyrir fréttir í fjölmiðlum um himinháar kröfur kennara, hvernig þessar sömu kröfur muni gjörsamlega kollvarpa öðrum samningum og af umræðunum að dæma munu þær líklega gera þjóðina gjaldþrota. En af hverju mega kennarar ekki fá sambærilega samninga við aðrar stéttir? Af hverju þýðir það tap fyrir aðrar stéttir ef við semjum um mannsæmandi laun? Við erum ekkert að reyna að slá aðra samninga út, við viljum bara standa jafnfætis öðrum og sjá þætti eins og vinnuframlag, háskólamenntun og fagmennsku metna að verðleikum.

Skarpur 7 ára nemandi minn spurði mig í gær hvort mig langaði í verkfall. Það er ekki auðvelt að svara svona spurningu en ég gerði þó tilraun til þess. Ég svaraði því til að mig langaði að sjálfsögðu ekki að til að nemendur mínir misstu af skóla í lengri tíma en ég vildi gjarnan að vinna mín væri betur borguð og einkum og sér í lagi langaði mig til að fá nægan tíma til að undirbúa kennsluna og allt sem henni tengdist. Og það er í rauninni eitt af þeim aðalatriðum sem þessi kjarabarátta snýst um. Kennarastarfið er ekki þannig að nóg sé að mata börn á staðreyndum nokkra klukkutíma á dag og fara svo bara heim á miðjum degi til að fara í Kringluna eða sólbað. Vinnuvikan mín er 42 klukkutímar og dugir engan veginn til. Þrátt fyrir að vera í skólanum frá tæplega átta til fjögur og stundum fimm á daginn þá fer ég samt daglega heim með verkefni til að vinna á kvöldin. Það sama gildir um helgar, vinnuálagsvofan liggur yfir manni og ef ég er ekki að fara yfir heimavinnu eða undirbúa kennslu heima þá nagar samviskubitið mig að innan, rétt eins og ég sé að svíkjast um. Samt kemur ekki króna í launaumslagið til að umbuna fyrir þessa yfirvinnu. Sveitarfélögin borga kennurum nefnilega ekki yfirvinnu, jafnvel þegar ekki verður hjá henni komist. Heimavinnan mín er því sjálfboðavinna.

Hvers vegna sleppi ég ekki þessari aukavinnu í mínum frítíma fyrst ég fæ hana ekki borgaða? Jú, það er nefnilega þannig að börnin mæta á hverjum degi í skólann og eru í minni umsjá frá klukkan átta til hálfþrjú á daginn og hvort sem einhver ætlar að borga mér yfirvinnu eður ei, þá verð ég að vera tilbúin með verkefni til að leggja fyrir bekkinn. Og miðað við kröfur þjóðfélagsins í dag, þá verð ég að taka tillit til einstaklingsþarfa hvers og eins barns. Ekki hentar öllum það sama og ef koma á til móts við alla þarf að leggja gífurlega vinnu í að sérhanna verkefni fyrir hvern og einn. Ég veit heldur ekki hversu mikið nám færi fram í skólastofunni ef ég mætti á morgnana og segði: "Krakkar mínir, því miður er ekki neitt á dagskrá hjá okkur í dag þar sem vinnutíminn minn dugði ekki til að undirbúa kennslu dagsins. Ég var nefnilega á starfsmannafundi í gær, síðan sat ég ásamt fleiri kennurum í teymi og ræddi um hvernig best væri að huga brunavörnum skólans og síðan sendi skólastjórinn mig á námskeið. Reynið bara að finna ykkur eitthvað að gera sjálf."

Eins og Sigrún, Helga og fleiri er ég stolt af því að vera kennari, þetta er skemmtilegt og gefandi starf og þetta er það starf sem ég vil stunda. Það sem við hins vegar förum fram á er að starf okkar sé metið og því sýnd sú virðing sem því ber. Við höfum það hlutverk að mennta og móta framtíð landsins, það hlýtur að skipta einhverju máli.

Leggja orð í belg
6 hafa lagt orð í belg
18. september 2004 20:12:46
en væri það kannski ekki eina leiðin til að sýna fram á tímaleysið með óyggjandi sönnunum að vinna ekkert meira heldur en er ætlast af manni og þá hljóta stjórnendur að sjá að eitthvað mikið er að;)

voru ekki síðustu samningar bara vanhugsaðir?? Það getur varla kallast launahækkun þegar maður eykur vinnuna. Þetta er einmitt það sem er að samfélaginu í dag. Það eina sem fólk hugsar er um að fá nokkrar krónur í hækkun þegar það er að semja af sér annað sem er álíka mikilvægt eða mikilvægara.

Ég segi alltaf: Ef þú réttir fram litla puttann þá er allur handleggurinn tekinn;)
Þetta lagði ingunn í belginn
18. september 2004 22:00:37
Það skrifaði nemandi í Mbl. í dag sem kemur inn á það að ungir kennarar, duglegir og fullir metnaðar fái mun lægri laun en t.d. 40 eða 50 ára kennarar sem hafa útskrifast á sama tíma. Hvað er í gangi þarna? Ætli slíkur launamismunur óháð starfsreynslu, en einungis eftir aldri þekkist í nokkurri annarri starfsgrein?
Ég óska ykkur alls góðs í kjarabaráttunni og vona að samningsaðilar finni sem fyrst lausnir sem allir geta sætt sig við. Sandkassaleikur hefur aldrei skilað árangri.
Þetta lagði Mamma í belginn
19. september 2004 00:06:31
Já, þetta er nefnilega snúið. Ef ég sleppi ólaunuðu sjálfboðayfirvinnunni þá bitnar það ekki síður á sjálfri mér eins og það bitnar á börnunum - það er ekki hægt að stýra 7 ára bekk (eða hvaða bekk sem er) ef maður mætir óundirbúinn :(


Svo er það þetta með launamun á yngri og eldri kennurum. Munurinn á þeim yngsta og elsta er 50 þús kr. á mánuði eða 600 þús á ári. Hvað þetta varðar þá skiptir starfsaldur engu máli. Þetta bil þarf að sjálfsögðu að minnka.
Þetta lagði Sigurrós í belginn
19. september 2004 04:57:01
Launamunur
Oj, bara já! Þetta þekkist líka meðal bókasafns- og upplýsingafræðinga. Ég skil þetta að vissu leyti, auðvitað hefur eldra fólk meiri reynslu. En það er ekkert víst að sú reynsla nýtist í þeirra starfi. Það er sífellt verið að ræða launamismun eftir kyni...en hvað með launamismun eftir aldri?
Þetta lagði Eygló í belginn
20. september 2004 12:06:32
man einmitt þegar ég heyrði um þennan mun eftir aldri fólks óháð starfsreynslu hvað ég var hneyksluð!!

Reyndar er alltaf einhver smá munur eftir aldri, t.d. hafði strákur sem er 25ára eitthvað um 5-10þús meira en ég á mánuði afþví að hann er eldri en ég. En ég efast stórlega um að munurinn sé nokkurs staðar svona hár!!

Óska þér og öðrum kennurum gott gengi í kjarabaráttunni. Munið bara að láta ekki deigan síga og halda þetta út þangað til almennilegir samningar nást sem hægt er að byggja framtíðina á:)
Þetta lagði ingunn í belginn
20. september 2004 13:23:37
Takk fyrir stuðninginn :)

Þetta lagði Sigurrós í belginn


Jónas og Diddú
Þessa dagana er fátt sem kemst að í huganum annað en kjarabaráttan og yfirvofandi verkfall. En sem betur fer er nú samt líka tími fyrir eitthvað skemmtilegt :)
Við Jói fórum á tónleika í Háskólabíó í dag. Þar bauð rektor Háskóla Íslands til tónleika með þeim Jónasi Ingimundarsyni og Diddú. Þetta voru frábærir tónleikar, ekki síst þar sem þeir voru mjög óformlegir og fullir af kímni. Jónas og Diddú spjölluðu við tónleikagesti um tónlistina og lífið og héldu salnum hugföngnum. Tónleikadagskránni var ekki dreift fyrirfram þar sem tónlistarmennirnir vildu koma gestum sínum á óvart. Jónas kallaði fram aukaklapp fyrir Diddú meðan á tónleikunum stóð og kallaði hana þjóðargersemi. Því ætla ég ekki að mótmæla, enda frábær söngkona þarna á ferð. Hins vegar vil ég nú segja að mér finnst Jónas Ingimundarson ekki síðri þjóðargersemi en Diddú og ég er stolt af að vera flutt í bæjarfélag sem hann er heiðurslistamaður í.

Leggja orð í belg
1 hefur lagt orð í belg
19. september 2004 04:54:08
Tónleikar
Híhí, við Óli vorum á þessum tónleikum líka :) Frábærir tónleikar og ekki var kokteilboðið á eftir síðra.
Þetta lagði Eygló í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum