Það var sko nóg að gera í félagslífinu hjá okkur Jóa í gær. Hann fór í steggjapartý og ég í gæsapartý (en reyndar ekki hjá sama parinu...).
Já, við vorum að gæsa hana Báru okkar í gær og tókst það alveg prýðilega (þrátt fyrir smá byrjunarörðugleika). Fyrst var hún send í handsnyrtingu meðan við gerðum klárt heima hjá Höllu, hengdum upp blöðrur, helltum í glös og settum nammi í skálar. Bára mætti á svæðið og var skreytt að gæsastíl. Nokkru seinna mætti hann Harry frá Erotica Shop og kynnti fyrir okkur ýmis hjálpartæki ástarlífsins. Þar kenndi ýmissa grasa og var margt að skoða ;)
Eftir kynninguna fórum við á Vegamót þar sem við fengum rosalega góðan mat, pönnusteikta risahörpuskel með hvítlaukssteiktu grænmeti í basilolíu og grillað brauð í forrétt og síðan grillaðar nautalundir með grænpiparsósu og heitu kartöflusalati í aðalrétt. Kjötið var mjög rautt sem ég kunni vel að meta en það voru nú ekki allir sammála um það. Það var bara verst að matarlystin var ekki nógu góð eftir allt nammiátið heima hjá Höllu. Bára fékk ýmsar gjafir en þetta kvöld eignaðist hún kökukefli, leðurpísk, handjárn og KISS-barnasamfellu. Eftir matinn fékk hún síðan glæsilega köku sem mágur Jóhönnu bakaði en kakan sú vakti gríðarlega hrifningu viðstaddra! ;)
Eftir Vegamót fórum við á Hverfisbarinn en entumst samt ekkert rosalega lengi þar því tónlistin var svo leiðinleg. Áttum í erfiðleikum með að finna annan stað og ráfuðum um í smá stund áður en við Lena ákváðum að labba af stað heim.
Ég þakka skipuleggjendum, öðrum þátttakendum og að sjálfsögðu gæsinni sjálfri fyrir frábært kvöld :)
Ég var ekki alveg upp á mitt besta þegar við skriðum fram úr kl. hálftvö í dag en ég hresstist nú eitthvað við að fara í göngutúr heim til Höllu og sækja bílinn.
Um fjögurleytið tókum við síðan stefnuna á Selfoss þar sem mamma bauð upp á grillmat af nýja grillinu hans Hauks. Ljúffengur matur og grillið fínt :)
Já, þessi hvítasunnuhelgin virðist ætla að vera bara fín, þó maður hafi nú ekki farið í neitt ferðalag eins og venjan virðist vera hjá flestum.
Enginn hefur lagt orð í belg!