9. apríl 2004  #
Dymbilvikan

Jæja, gott fólk. Þá læt ég loksins heyra í mér. Hef ekkert bloggað alla vikuna og því kemur hér vikuskammtur. Dragið djúpt andann...og...byrjið! Go Go Go
(Má einnig lesast í minni skömmtum hehe)

Mánudagur:
Byrjaði vikuna hjá tannlækninum. Var ekki með neina nýja skemmd en fylling í annarri framtönninni var orðin ljót svo að tannsi skipti um hana. Þ.e.a.s. fyllinguna, ekki tönnina ;) hahaha Þegar kemur að tönnum þá er ég nú ekki meira hörkutól en það að ég heimtaði að fá deyfingu. Það sem eftir lifði morguns leið mér því eins og efri vör mín og nefið hefðu verið sett í frysti. Alltaf jafnfurðuleg tilfinning.

Ég sótti Jóa í HR og fór svo í útréttingar. Fór í Smáralindina til að tékka á gjöf og kíkti svo í hinn nýja og glæsilega Glæsibæ. Og hlustaðu nú, Sigrún, því nú verðurðu ánægð... Ég keypti mér buxur, og það eru ekki gallabuxur! Þessar eru úr hör og eru víðar og fínar. Allt öðruvísi en aðrar buxur sem ég á. Fyrst þær pössuðu (fyrir utan síddina) og voru ódýrar þá bara smellti ég mér á þær.

Um kvöldið fórum við Jói á Pizza Hut og keyptum okkur brauðstangir áður en við fórum í bíó á Starsky og Hutch kl. 18. Ég er fegin að við fylgdum ekki upphaflega planinu að fá okkur bara að borða eftir bíóið og borða bara popp í hléinu því aldrei þessu vant var ekkert hlé! Myndin var skemmtileg og ég dáist að því hversu vel er hugað að smáatriðum í myndinni til að maður trúi því að hún gerist í raun og veru á áttunda áratugnum. Það sjást bara gamlir bílar á götunum, fötin eru ekta frá þessum tíma og m.a.s. krakkarnir eru á hjólum með þessum háu undarlegu stýrum. Toppurinn fannst mér þó vera í lokin þegar tveir óvæntir gestir létu sjá sig, það fannst mér sniðugt.

Þriðjudagur:
Mamma kom að sækja mig í kringum hádegi og við kíktum í Glæsibæinn (ég er bara farin að halda til þar á hverjum degi!). Staðurinn er samt greinilega hættulegur fyrir budduna mína. Ég keypti mér aðrar buxur (í þetta skipti gallabxur en allt öðruvísi en aðrar gallabuxur sem ég á) og væna kuldaskó (nú er ég sko tilbúin fyrir veturinn...sem er að verða búinn hehe).
Á leiðinni út úr bænum fórum við í Sorpu og settum gömlu fötin mín í gám fyrir Fatasöfnun Rauða krossins. Mér fannst hálfóþægilegt að henda öllum fötunum bara í gám í Sorpu eins og ég væri að henda þeim í alvöru, en ég treysti því að þau verði nýtt til góðra verka erlendis eða hérlendis.
Færði mig í afslappaða gírinn þegar við vorum komnar út úr bænum, mamma fór í sundleikfimina sína fyrir austan, við borðuðum kjötbollur, reyndum að skilja nýju myndavélina hennar mömmu og slöppuðum af :)

Miðvikudagur:
Vorum aðeins öflugri á miðvikudeginum.
Við byrjuðum á því að tékka á hvort minniskortið í myndavélina væri komið til sölu hjá ESSO (sem seldi henni vélina). Svo reyndist ekki vera.
Við fórum í Nóatún og keyptum okkur ljúffenga steik og meðlæti.
Við fórum í Árvirkjann og athuguðum með minniskort en þeir áttu ekki þessa tilteknu tegund svo við fórum í Fossraf þar sem einkar almennilegur afgreiðslumaður var snöggur að finna rétta kortið. Mamma er því klár í slaginn og nú er því um að gera að fylgjast með myndaalbúminu hennar á næstunni.
Við fórum á héraðsbókasafnið og mamma náði sér m.a. í ágætis bunka af bútasaumsbókum. Hún er orðin svo virkilega öflug í bútasaumnum og ég hef þegar notið góðs af :) Nú þarftu að fara að setja myndir af bútasaumsverkunum inn á síðuna þína, mamma!
Steikin úr Nóatúni sveik engan og alla vega ekki okkur! Rann svo vel niður að við borðuðum okkur eiginlega til óbóta. En það tilheyrir nú, er það ekki? ;)
Enduðum daginn á því að horfa á Jane Austen-myndina Persuasion. Þetta var fín mynd, sérstaklega fyrir okkur sem elskum svona "gamlatímamyndir". Við mamma vorum samt ekki nógu ánægðar með aðalgaurinn, hann náði ekki nógu vel að sjarmera okkur. Ætli maður sé ekki bara of góðu vanur úr Pride & Prejudice, það er enginn karlhetja nógu sannfærandi eða sjarmerandi ef það er ekki Colin Firth sem leikur... ;) En ég var líka að hugsa að það er eiginlega ekki hægt að gera svona stutta mynd (ca. 1 og 1/2 tími) eftir bók Jane Austen, persónurnar ná ekki sömu dýpt og þegar þær fá að spranga um skjáinn í rúma fimm tíma (skiljanlega). Það er smá synd, því eins og í þessu tilfelli áttaði maður sig eiginlega engan veginn á því af hverju aðalkvenhetjan vildi yfirleitt vera púkka upp á þessa hallærislegu karlhetju.

Skírdagur:
Við mamma brunuðum frá Selfossi upp úr eitt í gær til að fara í fermingarveisluna hans Guðjóns Árna. Veislan var haldin í safnaðarheimili Grensáskirkju, skreytingarnar hennar Vilborgar flottar og veitingarnar virkilega góðar.

Svo var það 5 ára afmælið :) Við Jói héldum reyndar enga veislu en í gærkvöld horfðum við á X-Men sem við höfum verið með í láni frá Daða í ansi langan tíma. Við hefðum náttúrulega átt að horfa á Pöddulíf... gerum það bara á 10 ára afmælinu :)

Amma hans Jóa átti líka afmæli í gær. Við litum inn til hennar og fengum smurt brauð, kökur og fínerí.

Þetta var sem sagt bara fínn allsherjarhátíðardagur :)

Föstudagurinn langi:
Jói rak mig upp á Læknavakt um leið og ég vaknaði. Ekki að það væri neitt bráðalvarlegt að mér, það er bara þetta ömurlega eilífðarkvef. Ég var þrælstífluð, rám eins og sjóari (eða eru þeir ekkert rámir...?) og hóstaði og hóstaði. Læknirinn ákvað að þetta væru astmaleg einkenni og skaffaði mér púst. Ég fékk líka lyfseðil fyrir sýklalyfi en á að bíða og sjá hvort mér batnar áður en ég leysi það út. Held ég hlýði því og bíði, enda er ég búin að eyða svo miklu í lækna og lyf á árinu að ég þori ekki einu sinni að leggja það saman!

Ég var búin að ákveða að baka skinkuhorn svo ég dreif mig í það í kringum hádegið enda orðin skárri. Snaraði fram dýrindis skinkuhornum og setti mestmegnið af þeim í frysti. Panikkaði reyndar örlítið þegar ég ætlaði að stinga þeim inn enda "gríðarstóra" frystihólfið fullt. Einhvern veginn náði ég samt að endurraða og troða öllum hornapokunum inn.

Ákvað að nú væri kominn tími til að dekra við sjálfa mig með góðri Johönnu Lindsey bók. Gafst upp í kringum bls. 142 og setti bókina frá mér...endanlega. Neita að eyða dýrmætum tíma í að lesa krappí bækur. Skil ekki hvað er eiginlega að þessum fyrrum uppáhaldshöfundi mínum! Ein af nýrri bókunum hennar sem ég las í haust var ömurleg og þessi er sko ekki betri! Sem betur fer er ég með hana í láni af bókasafni og eyddi því engum peningum í hana. Ég er með aðra af safninu en líst ekkert alltof vel á hana heldur og ætla einfaldlega að sleppa henni. Annað hvort er þessi fyrrum frábæri höfundurinn uppurinn eða að einhverjir hundlélegir eru farnir að skrifa í hennar nafni. Líst ekkert á þessa þróun, ætla að halda mig við gömlu bækurnar!

Þar sem ég slappaðist aftur eftir framleiðslu skinkuhornanna datt mér í hug að mæla mig rétt fyrir kvöldmat. Viti menn, mín bara komin með hita. Held þetta sé nú ekki einleikið! Hvað hef ég gert til að verðskulda þetta, ég sem tek lýsistöflur og alls konar vítamín á hverjum degi! Sigrún hafði svo samband við mig og ætlaði að kíkja í heimsókn en ég býð fólki nú ekki upp á að heimsækja mig í veikindabælið til að hlusta á mig hósta úr mér lungun. Ég ætla því að fá að eiga heimsóknina hennar inni :)


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum