9. ágúst 2004  #
Langavitleysulangloka

Bloggþörfin hefur því miður verið í algjöru lágmarki hjá mér þessa dagana. Held samt að það sé kominn tími á að gefa skýrslu svo að það er víst best að setjast við lyklaborðið :)

Síðasta laugardag skaust ég austur fyrir fjall í grenjandi rigningu. Mér fannst ánægjulegt að verða ekki vör við neitt fífl akandi himinhátt yfir hámarkshraða að svína fram fyrir bíla. Nei, aldrei þessu vant virtust menn haga aksturslagi samkvæmt lögum og veðri. Afar sjaldgæft.
Ók í hlað hjá mömmu um þrjúleytið og tókst einhvern veginn að hlaupa með farangurinn að mestu leyti þurran í gegnum skýfallið. Oddur var í heimsókn hjá mömmu og Hauki. Hann kallaði á mig um leið og ég kom inn og sagði mér að koma og setjast. Ég var búin að koma auga á prumpublöðruna svo að ég vissi svo sem hvað stóð til. En svona gamlar frænkur mega taka sig alltof alvarlega svo að ég þáði boðið með þökkum og varð svo alveg ofboðslega hissa þegar prumpublaðran blés út úr sér öllu lofti með tilheyrandi óhljóðum. Prakkarinn litli veltist um af hlátri á gólfinu, þetta var sko óstjórnlega fyndið ;)
Nokkru seinna fórum við öll yfir í Grundartjörnina í kaffiboð hjá Guðbjörgu og Magnúsi. Mamma mætti með hjónasælu en Guðbjörg bauð upp á vöfflur með rjóma og jarðarberjum. Borðaði heilan helling að sjálfsögðu og var sko ekki orðin alveg nógu svöng aftur þegar mamma og Haukur buðu upp á grillkjöt og meðlæti í kvöldmatnum. En borðaði samt helling af því líka, enda sælkeri með meiru :)
Um kvöldið horfðum við á Civil Action sem ég tók upp einhvern tímann í vor. Að því loknu klæddum við okkur í hlýjar yfirhafnir og fórum út í Gestsskóg til að taka þátt í Sléttusöng við logandi varðeld. Fengum meira að segja flugeldasýningu í boði björgunarsveitarinnar. Þarna var heljarinnar útilegustemning, hljóðfæraleikarar með gítara og harmonikku og nóg af syngjandi fólki í útivistarklæðnaði. Ætli ég geti þá ekki sagt að ég hafi farið á eina útihátíð í sumar? ;)

Á sunnudeginum fórum við í frískandi göngutúr um bæinn. Guðbjörg og Oddur hjóluðu til okkar og við sátum í smá stund í hitanum úti á palli. Þau mæðgin fóru svo heim að taka á móti Karlottu en Haukur, mamma og ég hoppuðum út í bíl og fórum á Sólheima í Grímsnesi. Þangað hef ég aldrei komið en hef heyrt margt jákvætt og gott um staðinn. Það var líka virkilega gaman að koma á svæðið, skoða listasýninguna, úrval listaverka og annarra muna í búðinni og fá lífrænt ræktaðar veitingar á kaffihúsinu. Það var bara verst að það var ekki laugardagur svo að við fengum ekkert kaffileikhús. Ég verð endilega að fara aftur og sjá eina leiksýningu hjá þeim.

Myndir frá Selfosshelginni eru komnar í albúmið mitt. Og talandi um myndir... myndirnar sem við tókum meðan Hollendingarnir okkar voru hjá okkur eru komnar á netið. Þær voru það margar að við ákváðum bara að byrja á nýju albúmi, mitt er að verða ansi fullt. Sé fram á endurskipulagningu í fleiri albúm þegar við nennum og höfum tíma til að vinna í því :)

Og talandi um útlenda pennavini... :) Hin pennavinkonan mín, hún Julie í Taiwan, birtist á msn í fyrsta skipti í gærkvöld. Ég var nú á leiðinni í rúmið en stóðst ekki mátið að prófa að spjalla við hana. Við töluðum saman í u.þ.b. klukkutíma en þegar klukkan var orðin hálftvö (hjá mér) fannst mér nú kominn tími til að hætta, sérstaklega þar sem ég þurfti að fara að sofa en hún þurfti að mæta hjá tannlækni enda kominn mánudagsmorgunn hjá henni. Fyndið þetta með tímamismuninn :)

Fór í sjúkraþjálfunina í dag og nú er ég ekki bara búin að prófa að vera nálapúði, nú er ég líka búin að prófa að vera toguð í tvennt (eins og fangarnir hjá Rómverjum í gamla daga, nema engir villtir hestar í þetta skiptið). Reyndar var þetta bara mjög þægilegt. Lá á tvískiptum bekk sem togaði efri helming og neðri helming líkamans hvorn í sína áttina. Jú, ég lofa, þetta var þægilegt :)

Það var ekki eins ánægjuleg reynsla að fara heim aftur í Arnarsmárann. Jói hafði skutlað mér í Hátúnið í sjúkrþjálfunina en ég tók strætó heim. Þessi leið sem tekur mig vanalega 10-15 mín að keyra (fer eftir umferð) tók nú klukkutíma og 15 mín!!! Þurfti að bíða í 20 mín eftir fyrri vagninum til að komast í Mjóddina. Og ekki var leiðin bein og greið, þurfti fyrst að króka í gegnum Laugarnesið og Ártúnsholtið. Í Mjódd tók við tíu mínútna bið eftir seinni vagninum. Það tæki mig líklega svona 5 mín að aka sjálf milli Mjóddar og Arnarsmárans en nú tók það 20 mín. Jú, því fyrst þurfti að fara gegnum Hjallahverfið og Hamraborgina. Ég komst nú alveg heil og húfi heim og ég veit nú vel að það er ekki hægt að ætlast til að Strætó milli heimilis míns og hvers þess staðar sem ég þarf að komast á, en einhvern veginn er ég samt ekki alveg nógu sátt. Held ég skilji vel ástæðu þess að meirihluti strætófarþega eru börn, unglingar og gamalt fólk sem oft hefur ekki um annað að velja til að komast milli staða. Þrátt fyrir þá kosti sem Strætó telur upp á heimasíðu sinni þá ætla ég að halda mig við einkabílinn nema í undantekningartilvikum. "Þéttriðna þjónustunetið" þeirra býður einfaldlega ekki upp á nægilega góða þjónustu í mínum augum.

Jæja, ætli ég sé ekki komin með sæmilega langa færslu í bili :) Góða nótt!


Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
10. ágúst 2004 10:45:31
tókstu 18?? ég held að það sé betra að taka annaðhvort 17 eða 16;) hætti samt að taka strætó fyrir lifandi löngu þangað til núna í vetur þegar bíllinn minn dó:( það er ömurlegt að taka strætó frá Háskólanum í Fagrahjallann;)

annars, ákvað að kvitta fyrir mig, les þetta oft hjá þér;)
Þetta lagði ingunn í belginn
10. ágúst 2004 21:32:33
Jú, 16 og 17 fóru vissulega fyrr úr Mjóddinni en 18, en málið er bara að 18 stoppar beint fyrir utan húsið mitt (svona enn sem komið er, það breytist í nýja leiðakerfinu) þannig að hann varð fyrir valinu :)
Þetta lagði Sigurrós í belginn


Gjöldin fyrir skjöldinn
Ég gat aldrei almennilega skilið auglýsingar Skjás eins um enska boltann þar sem talað er um liðin sem berjast um samfélagsgjöldin. Hvaða samfélagsgjöld? Ég fékk hins vegar útskýringuna þegar ég las Fréttablaðið í morgun. Þarna er sem sagt átt við samfélagsskjöldinn (sem virðast vera einhver árleg verðlaun í enska boltanum) en ekki samfélagsgjöldin. Alltaf gaman að misskilja svolítið ;)

Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum