11. desember 2005  #
Helgin á Selfossi

Er hér í góðu yfirlæti á Selfossi um helgina. Er reyndar látin vinna fyrir mér við laufabrauðsgerð og piparkökubakstur - en til þess var nú leikurinn gerður ;)

Við skárum út og steiktum 120 laufabrauð í gær og vorum að vonum mjög stolt af okkur eftir daginn. Já, það þarf að skera mikið laufabrauð fyrir þrjú heimili. En við erum nú ekki að gera deigið sjálf svo að þetta sleppur nú alveg á einum degi.

Áður en laufabrauðsgerðin hófst fórum við reyndar á fimleikasýningu UMF hér á Selfossi. Oddur og Karlotta eru bæði í fimleikum og tóku þarna þátt í glæsilegri jólasýningu sem allur bærinn virtist vera mættur til að fylgjast með. Oddur var í hlutverki hreindýrs en Karlotta var snjókarl. Þetta var allt listilega vel gert og gaman að fylgjast með. 

Í dag ætlum við svo að gera piparkökurnar. Mamma er búin að gera tvöfalda uppskrift af deigi og við erum að bíða eftir fjölskyldunni úr Grundartjörninni til að geta byrjað. Já, þetta er heljarinnar vinnuhelgi! :) 

Mamma, Haukur og ég settumst svo fyrir framan sjónvarpið í gær til að slaka á eftir annasaman dag. Þau eru með Skjáinn og eru búin að prófa einu sinni að leigja sér mynd í gegnum hann og gekk bara vel. Þar sem aðalmynd RÚV lofaði ekkert sérstaklega góðu þá ákváðum við að láta slag standa og leigja okkur mynd í gegnum Skjáinn. Við völdum okkur National Treasure sem ekkert okkar hafði séð en vorum ekki búin að horfa nema í 10 mínútur eða svo þegar myndin fraus. Söguhetjurnar voru reyndar á Grænlandsjökli eða á Suðurskautslandinu svo að það var ósköp kalt, en það ætti nú kannski ekki að valda frosti á skjánum... ;)

Við reyndum að hafa samband við þjónustuver Símans en vorum búin að ná að laga þetta áður en nokkur svaraði þar á bæ. Þegar myndin komst á aftur byrjaði hún reyndar upp á nýtt svo að við þurftum að spóla að þeim stað sem við vorum komin á en það slapp alveg.

Þegar um það bil klukkutími var liðinn af myndinni, hvað haldið þið að hafi gerst? Jú allt fraus á nýjan leik. Við reyndum að bjarga málunum og komumst yfir í valmyndina aftur, völdum að halda áfram með myndina þaðan sem frá var horfið en það virkaði ekki og lentum við aftur á byrjuninni. Það tók okkur u.þ.b. korter að hraðspóla aftur yfir á réttan stað en það er ekki hægt að hoppa á milli kafla eins og á DVD-myndum heldur þurftum við að spóla meðan myndin rúllaði smám saman fyrir framan augun á okkur. Ef við hefðum verið búin að missa af einhverju atriði þá gátum við sem sagt séð það aftur.

Ég náði loks sambandi við þjónustuverið eftir 10 mínútna bið á línunni og þar var engin svör að fá. Þetta væri bara eitthvað bilað. Ég fékk déja vú yfir í þann tíma sem við vorum með ADSL hjá Símanum sem hrundi stöðugt út og einu svörin voru "þetta er örugglega eitthvað bilað bara!"

Við náðum á endanum að klára myndina, sem reyndist þrælskemmtileg þrátt fyrir truflanir, en ég verð að viðurkenna að ég er ekkert sérstaklega heilluð af þessari kvikmyndaveitu Símans. Ég held ég vilji frekar leggja það á mig að fara út á videoleigu og ná mér í mynd og vera nokkuð viss um að ná að horfa á myndina án truflana.

Svo að ég held að ég sé nú bara ekkert að öfundast út í þá sem eru með kvikmyndaveituna Skjáinn í gegnum Símann.


Leggja orð í belg
Enginn hefur lagt orð í belg!


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum