2. janúar 2005  #
Hin gömlu kynni
Það styttist í að hann Unnsteinn minn komi heim frá Nýja-Sjálandi eftir ársdvöl sem skiptinemi. Nýjasti pistillinn hans inniheldur áhugaverðar pælingar sem fengu mig strax til að hugsa til 9 mánaða dvöl minnar í Frakklandi 1999-2000.

Ég veit það af eigin reynslu að það fylgir því undarleg tilfinning að kveðja fjölskyldu og ástvini fyrir framan tollhliðið í Leifsstöð, rétt áður en stigið upp í flugvél sem ber mann til ókunns lands þar sem ætlunin er að búa í ár hjá ókunnugum útlendingum sem maður veit tiltölulega lítið um. (Ekki síst erfitt var að kveðja ástina mína sem ég kynntist aðeins tveimur mánuðum áður. Getur hann virkilega beðið eftir mér allan þennan tíma?)
"Hvað í ósköpunum er ég að gera?" er hugsun sem flýgur í gegnum hugann. "Hvað ef mér líkar ekki við fólkið sem ég á að búa hjá?" og önnur tilhugsun ekki skárri "Hvað ef þeim líkar ekki við mig?" Allt þetta og fleira kemur upp í bland við þá tilhlökkun að kynnast spennandi nýju landi og áhugaverðu fólki.
Ég verð að viðurkenna að mér leist samt ekki á blikuna þegar ég kom fram í móttökusalinn á flugvellinum í Lyon með ferðatöskuna mína og skimaði í kringum mig. Þarna var enginn sem virtist vera að taka á móti mér og ég stóð ráðvillt í nokkrar mínútur, skimaði í kringum mig og vonaði að það hefði ekki orðið neinn misskilningur með dagsetninguna. En þá komu þau askvaðandi, brosandi og með stóran blómvönd og stressaða aupair-stúlkan andaði léttar. Þau höfðu bara gleymt sér á kaffiteríunni.
Sjokk númer tvö kom þegar þau byrjuðu að tala við mig á frönsku og ég áttaði mig á því að þó ég hefði ágætis færni í að lesa og skrifa frönsku þá var ég gjörsamlega ófær um að skilja nokkurn skapaðan hlut sem nýja fjölskyldan mín sagði við mig og gat varla bögglað einni skiljanlegri setningu út úr mér. Ég vissi að franskan væri hröð en svona hröð...? Við skiptum strax yfir í enskuna en þau vöruðu mig við, þau ætluðu sko ekki að láta mig komast upp með að fela mig á bak við enskuna.
En þetta kom nú hjá mér eftir 2-3 vikur og á endanum var ég orðin jafnmálóð og sítalandi á frönsku rétt eins og á íslensku ;) Þau trúðu mér reyndar fyrir því þegar farið var að líða á seinni hluta dvalarinnar að þau hefðu haft af því smá áhyggjur í fyrstu hvað ég skildi lítið.
Það hefði kannski getað orðið skelfileg lífsreynsla að vera fastur í ókunnu landi þar sem maður skildi varla orð af því sem hinir innfæddu sögðu en það sem bjargaði mér var hvað ég lenti hjá góðri fjölskyldu. Það voru allir boðnir og búnir að láta mér líða sem best, taka sér tíma til að útskýra fyrir mér og meira að segja hinn fjögurra og hálfs árs gamli Thomas sýndi aupair-stúlkunni einstaka þolinmæði meðan hann lyfti upp einstaka hlutum og sagði hvað þeir kölluðust á frönsku.
Á þessum níu mánuðum sem ég dvaldi í Frakklandi eignaðist ég marga góða vini sem ég held sambandi við enn þann dag í dag. Fjölskyldan sem ég bjó hjá, stórfjölskyldan þeirra, nágrannarnir og ekki síst "ráðskona" heimilisins, allt er þetta fólk sem ég hugsa til með væntumþykju og söknuði. Ef ég ætti að segja hvað væri það besta við Frakklandsdvölina þá er svarið einfalt. Það er franska fólkið mitt.

Það er stórkostlegt að fá tækifæri til að upplifa þessi tengsl við annað land, við aðra menningu, við annað fólk. Það er eitthvað sem gleymist aldrei.

Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
2. janúar 2005 12:19:56
Gleðilegt ár!
Fínar hugleiðingar hjá þér og hárrétt þetta með að breyta um umhverfi og kynnast annarri menningu ef manni gefst kostur á því (eða drífur í því). Unnsteinn er örugglega reynslunni ríkari (og þú líka). Vona að nýja árið færi þér og þínum gæfu og gengi! Farið vel með ykkur!!!
Þetta lagði Anna S. Hjaltad. í belginn
3. janúar 2005 20:36:17
Það eru forréttindi að fá tækifæri til að kynnast annarri menningu og ég tala nú ekki um að kynnst skemmtilegu og góðu fólki!
Gleðilegt ár:)

Þetta lagði Sigrún í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum