28. mars 2005  #
Páskafríið í heild sinni eða svona hér um bil
Þá er páskafríinu lokið. Starfsdagur á morgun og kennsla á miðvikudaginn.
Fríið er búið að nýtast alveg ágætlega :D Kannski ég reyni að rifja upp helstu atriðin svona fyrir þá sem vilja fylgjast með ;)

Pálmasunnudagur var allsherjar bíódagur. Við Unnsteinn kíktum á Kaffi Roma í Kringlunni og þar sem við erum nú ættingjar ;) þá nýttum okkur svo fjölskyldutilboð í Kringlubíó og sáum Lemony Snicket´s A Series of Unfortunate Events. Skemmtileg mynd og mikið augnakonfekt. Lét mig langa til að kíkja á bækurnar sem myndin er gerð eftir en þær hef ég aldrei lesið. Ég var varla komin heim þegar tími var kominn á aðra bíóferð, en við D-bekkjargellurnar drifum okkur á Hitch í Regnboganum. Myndin var alveg að virka fyrir mig, enda er ég yfirleitt sökker fyrir sætum rómantískum gamanmyndum og Will Smith er alls ekkert leiðinlegur að horfa á ;)

Á mánudeginum fórum við Stefa á brúðarkjólaleiguna og ég mátaði kjólinn aftur við skóna sem ég keypti. Málið er nefnilega að þeir eru flatbotna og ég vildi gá hvort þeir myndu ganga við kjólinn. Og þeir gerðu það alveg, enda er kjóllinn bara styttur til að passa akkúrat við mig. Það var miklu skemmtilegra að máta núna heldur en síðast því nú var ég nýstigin úr sturtu, máluð og sæt en ekki lúin og sveitt að loknum löngum vinnudegi. Kjóllinn var alveg jafnsætur og mig minnti :) og ég keypti líka undirföt sem kosta næstum jafnmikið og flugmiði til Kaupmannahafnar... (með Iceland Express).
Eftir kjólamátunina fórum við í Kringluna þar sem ég keypti voða sætt bikini og ýmislegt fleira. Visakortið fékk svo að hitna meira þennan daginn en eftir að við Stefa kvöddumst fór ég í Rúmfatalagerinn til að kaupa eldhúsgardínur (er sko enn með jólagardínurnar...tralalala...) og kom heim með tvo risastóra fulla innkaupapoka. Borgaði samt ekki nema um 8.000 kr., það var bara allt svo ódýrt og sniðugt. Og allt eitthvað svona sem mig vantaði. Jú, mig vantaði í alvörunni nokkrar plastkörfur, tvo frisbídiska, kusutússtöflu, tvo púða og píluspjald. Píluspjaldið var reyndar fyrir Jóa en allt hitt vantaði mig alveg rosalega....plús allt hitt sem ég keypti en man ekki lengur hvað var....... ;)

Þriðjudagurinn var aðeins ódýrari - og mun þægilegri. Ég skellti mér í fótsnyrtingu og lét fara vel um mig með slúðurblöð meðan fæturnir mínir voru gerðir mjúkir og fínir :) Geri þetta pottþétt aftur stuttu fyrir brúðkaup til að lappirnar endist allan daginn og langt fram á kvöld.

Á miðvikudagskvöldið hélt Bára upp á afmælið sitt og allir úr Klúbbnum mættu nema Theó sem var lasin :( og Elva sem var að dúlla með hana Freydísi Eddu snúllulínu í Svíþjóð. Svaka gaman að hitta alla, meira að segja Jóhönnu "Tálknfirðing" sem ég hef ekki hitt frá því í jólaboðinu hjá Höllu.

Seinni helmingur miðvikudagsins auk fimmtudagsins og föstudagsins fóru í tiltekt og þrif. Af hverju allur þessi tími? Ég vil taka fram að það var ekki svona rosalega skítugt hjá mér eða mikið drasl, málið var bara að ég festist algjörlega inn á milli á ISketch sem er sko leikur að mínu skapi! Svona teiknileikur svipaður og Pictionary :D Þannig að ég var svona lengi að taka til og þrífa því það komu alltaf (helst til) langar pásur inn á milli til að leika mér svolítið á ISketch. Ég veit að Stefa skilur mig, því mér tókst að draga hana niður í svaðið með mér með því að benda henni á leikinn ;)

Að kvöldi föstudagsins langa komu tengdapabbi, Daði og Kári í mat. Þeir fengu súrsæta svínakjötsréttinn og voru svo hafðir sem tilraunadýr meðan ég æfði mig að baka vöfflur. Agalegt að eiga vöfflujárn og gera aldrei vöfflur. Þetta tók mun lengri tíma en mig grunaði en vöfflurnar voru alveg ágætar, sérstaklega með rjómanum og jarðarberjunum :) nammi namm.

Á laugardeginum lá leiðin austur fyrir fjall í afmælisveislu Karlottu og Guðbjargar sem áttu reyndar afmæli helgina áður. Þar var fámennt en góðmennt og allt í rólega, huggulega gírnum :) Myndirnar hans Magnúsar frá deginum eru hér en ég á hins vegar eftir að setja mínar inn. Ég held reyndar að ég setji engar myndir inn alveg á næstunni meðan tæknimaðurinn er að uppfæra síðuna og myndaalbúmið, svona svo að það ruglist ekkert. Þið fáið bara stóran myndaskammt þegar tæknivinnunni lýkur :)
Um kvöldið bauð mamma okkur í ítalskar kjötbollur í Sóltúninu. Langt síðan ég hef nennt að gera svoleiðis. Þarf að vera duglegri við þetta og hafa smá tilbreytingu í matargerðinni...

Páskadagurinn var alveg samkvæmt uppskriftinni: nammiát, kjötát og videogláp :) Mjög vel heppnaður sem sagt :D Við vorum með Grand Orange eins og í fyrra og í hitteðfyrra. Nóa-eggin voru líka á sínum stað. Ég sá samt hálfpartinn eftir að hafa ekki keypt Freyju-Rísegg, fannst það svolítið spennandi. Prófa það næst :) Málshátturinn hans Jóa var "Engu spillir hægðin" og minn var "Sinn brest láir hver öðrum mest".
Myndirnar sem fóru í tækið voru þrælfínar. Í fyrsta lagi var það franska spennumyndin Les Rivieres pourpres II sem var hörkugóð rétt eins og fyrri myndin.Verst að það þurfa alltaf að vera líkamslaus augu í þessum myndum en ég er svo dugleg að halda hendinni fyrir til að sjá ekki svoleiðis ógeð :þ
Í öðru lagi var það The Terminal. Ég var svolítið forvitin að sjá hana, aðallega af því ég áttaði mig engan veginn á hvernig söguþráðurinn virkaði, hvernig gat maður búið á flugvelli? Bjóst samt ekki við neitt frábærri mynd og varð því skemmtilega hissa því myndin er alveg frábær! Ég fékk tár í augun og kökk í hálsinn milli þess sem ég veltist um af hlátri. Tom Hanks sýnir snilldarleik og ef maður vissi ekki betur þá héldi maður að hann væri ekki enskumælandi heldur virkilega frá Krakoshia, landi nálægt Rússlandi.

Meðmyndirnar sem fylgdu biðu hins vegar þangað til í dag. Fyrst horfðum við saman á The Whole Nine Yards sem ég sá með Guðbjörgu fyrir nokkrum árum en Jói var að sjá í fyrsta skipti. Ég var búin að gleyma mestöllu úr myndinni svo að mér fannst hún alveg jafnskemmtileg og fyrst þegar ég sá hana. Spurning hvort maður tékkar á nr. 2 þó hún hafi fengið slaka dóma? Síðan horfði ég á Jesus Christ Superstar sem ég hef ekki séð síðan ég horfði á hana með Ástu Dögg hér í eldgamladaga. Flott mynd með frábærri tónlist. Er að spá í að bæta henni í DVD-safnið.
Nú veit ég ekki hvort þetta er bara einhver páskajákvæðni í mér, en ég virðist hafa valið bara góðar myndir á videoleigunni í þetta skiptið. Er alla vega mjög sátt.

Nú er hins vegar kominn tími til að fara í háttinn, stilla vekjaraklukkuna og vakna svo í fyrramálið og mæta hress og kátur til vinnu.

Jæja, það er ýmist allt eða ekkert. Og í dag er það allt. Vona að enginn hafi sofnað við lesturinn langa ;)

Leggja orð í belg
2 hafa lagt orð í belg
30. mars 2005 10:19:27
Hmmmm já maður kannast eitthvað við jólagardínur líka....!
Þetta lagði Lena í belginn
30. mars 2005 12:30:07
Líst vel á þig!
Jáhá mér líst vel á þessi nærföt sem þú keyptir. Maðurinn (eða soon to bee husband) verður kátur með þetta. :)
Þetta lagði Anna Margrét í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum