25. maí 2006  #
Hinir heilögu kennarar

Þeir sem þekkja mig vita að mér finnst gaman að taka myndir. Þeir sem skoða vefmyndaalbúmið mitt hljóta að komast að sömu niðurstöðu.

Þeir sem upplifa skemmtilegar stundir með mér hafa yfirleitt gaman af því að skoða myndirnar mínar frá umræddum augnablikum. Til að koma til móts við vini mína og ættingja þá birti ég flestar myndirnar mínar á netinu í stað þess að geyma þær eingöngu út af fyrir mig í möppu á eigin tölvu.

Ég hef tekið virkan þátt í félagslífinu frá því ég hóf störf sem kennari og hef tekið margar myndir af því þegar við kennarar og starfsfólk förum saman á djammið. Ég var fljótlega spurð að því hvort mér þætti ekki verra að setja þessar myndir á netið en ég taldi mig ekki hafa tekið myndir af neinu skammarlegu og hikaði því ekki við að setja myndirnar inn.

Nýlega var komið til máls við mig í skólanum og ég fékk að vita að nú væri illt í efni því krakkarnir í unglingadeildinni væru komnir inn á síðuna mína og farnir að skoða myndir af kennrum sínum á djamminu. Ég veit að þetta truflar einhverja svo að ég læsti strax þeim hluta albúmsins meðan ég tek ákvörðun um hvað ég geri við myndirnar.

Í gær fékk ég síðan tölvupóst frá konu sem tengist menntamálum borgarinnar, þar sem hún bendir mér á að hún hafi rekist á myndir af kennurum skólans að skemmta sér og vildi vara mig við, því leiðinlegt væri ef slíkar myndir kæmust í rangar hendur.

Eins og ég segi, þá virði ég þá skoðun samkennara minna og annars starfsfólks að vilja ekki að nemendurnir hafi aðgang að myndum af þeim á djamminu. Ég hef hingað til ekki lagt það í vana minn að leitast við að taka neyðarlegar myndir af samferðafólki mínu til að koma því í vanda og ef ég hef í gáleysi tekið mynd sem viðkomandi skammast sín fyrir þá biðst ég velvirðingar á því. Ég vil ekki birta myndir af fólki gegn vilja þess á heimasíðu minni og tek það fram hér að líkt og í þessu tilfelli þá tek ég að sjálfsögðu vel í það ef einhver hefur samband við mig og biður mig um að taka mynd af sér út af vefalbúminu.

Hins vegar er það að mínu mati frekar þröngsýnt viðhorf að varpa upp mynd af kennaranum sem hinum fullkomna einstaklingi sem ekki nálgast það á nokkurn hátt að vera mannlegur.

Ef ég ynni í banka og birti myndir af mér og hinum gjaldkerunum með glas í hönd utan okkar vinnutíma þá efast ég um að ég fengi athugasemdir.

Ef ég ynni í Hagkaup og birti myndir af mér og hinu verslunarfólkinu með glas í hönd utan okkar vinnutíma þá efast ég um að ég fengi athugasemdir.

Ef ég ynni á veitingastað og birti myndir af mér og hinum þjónunum með glas í hönd utan okkar vinnutíma þá efast ég um að ég fengi athugasemdir.

En um leið og um er að ræða kennara þá er gerð krafa um hinn heilaga fullkomleika.

Ég geri mér grein fyrir að sem kennarar erum við fyrirmynd barna og unglinga. Það kæmi illa við foreldra að sjá myndir af kennara barna þeirra gjörsamlega á skallanum að "skandalisera" á fylleríi.

Að mínu mati sé ég hins vegar ekki mikinn skaða felast í því að nemendur sjái kennarann sinn með glas í hendi.

Ég fæ mér einstaka sinnum í glas þegar ég fer að skemmta mér.

Áfengi er hins vegar ekki nauðsynlegur þáttur í mínu skemmtanalífi, ég skemmti mér jafnvel hvort sem ég hef fengið mér í glas eður ei.

Ég tel að áfengi eigi ekki að vera "tabú" og það eigi ekki að vera leyndarmál. Ég tel að börn megi gjarnan kynnast því að heilbrigðar fyrirmyndir þeirra kunni að nota áfengi rétt og í hófi. Að áfengi sé ekki eingöngu tengt rónum og aumingjum. Þeir sem aldur hafi til megi nota það í hófi sér til gamans og svo lengi sem þeir haldi sig innan sinna marka og missi ekki stjórn á skynseminni.

Kannski er þetta barnalegt viðhorf en ég tel að unglingunum sé betri hjálp í því að sjá fullorðið fólk sem kann að fara með áfengi heldur en að horfa upp á mömmu, pabba, kennarann eða aðra drekka í laumi og ljúga til um það í opið geðið á þeim.

Kennarar eru líka fólk. Við erum ekki heilög og við eigum ekki að vera það. Við veitum nemendum okkar betri grunn til að takast á við lífið ef við erum heiðarleg við þau og ræðum hreinskilnislega við þau um það sem þau þurfa að vita.


Leggja orð í belg
4 hafa lagt orð í belg
25. maí 2006 18:51:11
Glætan Sigurrós!!! Ég trúi því ekki að fólk geti verið svona uppþornað, þröngsýnt og gamaldags! Persónulega finndist mér sem unglingi það áhugavert og gaman að sjá kennarana mína í öðru umhverfi en bara skólanum, sjá að þeir eru líka manneskjur! Ég myndi nú halda að þetta legði frekar grunninn að því að skapa meira traust milli nemenda og kennara, þegar krakkarnir sjá að þið eruð ekki heilagur andi ;) Usssss...ekki hlusta á svona kjellingar eins og þessa!!!
Þetta lagði Halla í belginn
26. maí 2006 09:35:26
GARG! Va, hvad eg vard reid thegar eg las thetta. Vid kennarar høfum ansi mikid a herdum okkar og til thess ad thoknast øllum, tha væri best ad vid myndum ad loknum skoladegi skrida inn i kennaraskapinn i skolastofunni og bida spennt eftir næsta degi. Gud almattugur hjalpi okkur ef vid dirfumst til thess ad eiga venjulegt lif i okkar fritima. Ætli kennarastarfid se ekki thad starf sem er erfidast ad skilja eftir i vinnunni, madur er med hugann vid starfid a einhvern hatt thar til madur sofnar a kvøldin.
Þetta lagði Svanhildur í belginn
26. maí 2006 14:33:28
Hvað með aðra sem birtast myndir af.
Hvað svo með alla þá fyrirmenn og menningarvita þjóðarinnar sem daglega birtast myndir af í fjölmiðlum við hin og þessi tækifæri - með glas í hönd. Ætli fólk flýti sér að lesa blöðin og hendi þeim áður en unglingarnir á heimilinu vakna á morgnanna svo þeir sjái ekki myndirnar í blöðunum. Nei, aðalmálið er að kunna að fara með veigarnar þá verða þær manni ekki fjötur um fót.
Þetta lagði Ragna (mamma) í belginn
27. maí 2006 00:08:42
glasaglamur
ég tek mikið af myndum og ég hef oft spáð í þetta, ég vann í Stjórnarráðinu um tíma og margt af því fólki sem ég hef tekið myndir af er mjög undir smásjá fjölmiðla og ég hef passað að setja ekki á vef nema myndir sem enginn gæti túlkað nema sem jákvæðar fyrir viðkomandi. Ég reyni að passa að taka aldrei myndir af fólki að reykja og helst ekki í umhverfi drykkju - nema það séu opnanir eða verið að skála fyrir einhverju.
Ég hef tekið myndir af fjölskyldu minni í mörg ár og stelpan mín sem er 16 ár er núna mjög viðkvæm fyrir því - einhverjir skólafélagar hennar höfðu fundið myndir sem ég tók af henni 11 ára á fimleikasýningu og það var víst meiri háttar ærumeiðandi að hafa krúttlegar myndir af sér sem krakka á vefnum þegar maður er kúl unglingur.

En mér blöskar oft myndir sem fólk setur á vefinn, ekki síst úr samkvæmum unglinga. Ég skil vel að fyrrum herra Ísland hafi misst titilinn út af myndum sínum, hann er ekki með kollinn í lagi. Hér er frétt um það sem ég skrifaði á newsvine:
http://salvor.newsvine.com/_news/2006/01/30/76277-mr-iceland-stripped-of-title

Þetta lagði Salvör í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum