|
26. desember 2006 # Selfossjólin Að þessu sinni héldum við Betrabólsfólk jólin hátíðleg á Selfossi. Við lögðum af stað austur um hálftvö á aðfangadag, en um morguninn fórum við í kirkjugarðana til að kveikja á kertum en það er sá jólasiður sem ég vil alls ekki missa af, þrátt fyrir leiðinlegt veður ... ;) Ég stillti vekjaraklukkuna á átta, því það þýðir ekkert að vera seinn af stað - bæði er mest kósí að fara meðan allt er dimmt og rólegt í görðunum og svo er ekki gaman að lenda í brjálaðri bílaumferðinni sem myndast við garðana þegar líður að hádegi. En þegar klukkan hringdi kl. átta gerði ég mér fullkomlega grein fyrir því að þrátt fyrir eindreginn vilja og þor, þá myndi ekkert þýða að rjúka strax af stað með kerti og eldfæri - veðrið kæmi í veg fyrir allan hugsanlegan árangur. Það er nefnilega lífsins ómögulegt að kveikja á kertum úti í hávaðaroki og grenjandi rigningu þrátt fyrir góðan ásetning - nema maður sé með logsuðutæki ... Veðrið var orðið mun betra kl. 11 svo að við fórum af stað þá. Jóa leist ekki á að senda óléttu konuna eina af stað til að bogra yfir kertum í kirkjugörðunum, sérstaklega eftir að hann þurfti að reisa mig við þar sem ég lá afvelta undir jólatrénu á Þorláksmessu (ég var aðeins að laga seríurnar). Svo að hann tók ekki annað í mál en að koma með til að hjálpa. Þó mér finnist nú alltaf yndislegast að dútla ein við þetta í myrkrinu snemma á aðfangadagsmorgun og stingi yfirleitt af í garðana áður en Jói vaknar, þá var ég samt mjög þakklát að fá aðstoð. Það var nefnilega varla mögulegt að kveikja á kertunum þó það væri að mestu komin gola. En allt hafðist þetta nú að lokum og þrátt fyrir örtröð bíla komumst við heim að lokum. Við komum á Selfoss þegar klukkan var farin að nálgast hálfþrjú, slökuðum á heima hjá mömmu áður en við færðum okkur öll yfir í Grundartjörnina til Guðbjargar. Haukur kom rétt mátulega austur að lokinni vaktinni sinni í álverinu og náði að verja öllu kvöldinu með okkur áður en hann fór í bæinn aftur fyrir miðnætti til að ná að hvíla sig smá fyrir næstu vakt. En hann komst í jólafrí seinni partinn á jóladag og kom austur aftur um kvöldmatarleytið. Nóg að gera! Aðfangadagskvöld var yndislegt hjá okkur, eins og sjá má á myndunum. Ég reyndi að hemja mig að borða ekki yfir mig af jólamatnum (óléttar konur þurfa víst að passa sig á salta matnum) en mikið ofsalega var maturinn góður. Ég vona að systir mín hafi ekki fengið öll kokkagenin frá mömmu, að það hafi verið eitthvað smá eftir fyrir mig ;) Við tókum drjúgan tíma í að opna pakkaflóðið undir trénu en það var allt gert í rólegheitunum. Allir fengu eitthvað fallegt og voru sáttir með sitt. Á jóladag hittumst við öll aftur hjá mömmu en hún var með hlaðborð ýmissa kræsinga. Ég hálfóskaði þess að ég hefði enn sömu skoðun á graflaxi og þegar ég var yngri, en ég lærði ekki að borða hann fyrir en ég fór að nálgast tvítugt. Hann er sum sé á bannlistanum þessa mánuðina svo að ég varð víst að sneiða framhjá honum þetta árið. Verð bara þeim mun duglegri að háma hann í mig næstu jól ;) Eftir að hafa líka hámað í okkur kökur og önnur sætindi héldum við Jói af stað heim á leið um fimmleytið, með laumafarþega í aftursætinu. Oddur Vilberg var að fara til pabba síns og fékk far með okkur. Hann lét sér ekki leiðast einn í aftursætinu, en hlustaði á nýja I-podinn sinn alla leið og sönglaði með. Minnti mig óneitanlega á mig sjálfa á vasadiskó-tímabilinu ;) Í dag fengu allar vekjaraklukkur heimilisins að sofa út og við þar með líka. Skriðum fram úr kl. 14:00 og ætlum að taka því rólega í dag - hlusta á nýja geisladiska og lesa jólabækurnar. Við búumst ekki við miklum rólegheitum næstu jól (og a.m.k. næstu 10 jól þar á eftir...) svo að við ætlum svo sannarlega að nýta okkur það núna að slappa vel af ;)
|
Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna
Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)
Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes
Art Lad
Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ
..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á rss.molunum
3 hafa lagt orð í belg
vá hvað hefur verið huggó hjá ykkur á Selfossi, en þér að segja þá er sko alveg hægt að hafa letidag á annan í jólum þó að það sé orðin fjölgun... sá það í dag, maður leggur sig bara með kríli um miðjan dag og hefur það svo bara huggó ;)
Þetta lagði Jóhanna í belginn
Gott að heyra að þið hafið það rólegt og gott! Svo er bara lokatörnin eftir hjá þér í ævistarfinu.....þú manst að þrýstingurinn má ekki verða of mikill of snemma!!!!
Þetta lagði Rakel í belginn
Bara svo að þú vitir það þá finnst ömmum alltaf gaman að fá næturgesti :)
Þetta lagði Amma í belginn