17. mars 2007  #
Fæðingarsagan

Einmitt núna, kl. 15:31, er yngri prinsessan á heimilinu (mamman er að sjálfsögðu sú eldri ;)...) orðin vikugömul. Nýtt mynstur í heimilislífinu er smám saman að komast í vana og því eiginlega kominn tími til að skrifa einhverjar fréttir hér fyrir ykkur sem hafið verið svo dugleg að fylgjast með frá því daman fæddist, skoða myndir og skrifa kveðjur til okkar :)

Kannski við byrjum á byrjuninni...

Rúmlega sjö á föstudagskvöldið hélt ég prúðbúin af stað á árshátíð Hlíðaskóla . Var meira að segja bara nokkuð ánægð með mig í kjólnum mínum og fannst ég svaka gella þó ég væri kasólétt og komin 9 mánuði á leið ;) Og það voru fleiri duglegir, Arna sem er sett tæpum tveimur vikum á eftir mér, var líka mætt og ekki síður mikil gella. Við erum nefnilega svo flottar við Arna að við látum það ekki stoppa okkur að mæta á árshátíð þó við séum að því komnar að eiga. Í mínu tilfelli, bókstaflega...

Ég var á árshátíðinni rétt fram yfir miðnætti en þá var ég komin með þreytuseyðing í bumbuna og átti þá eftir að standa smá tíma úti í fannkomunni á háu hælunum til að skafa bílinn sem var nú þakinn jólasnjó. Var komin heim ekki löngu fyrir kl. eitt, dólaði mér hérna heima til hálftvö en fór þá inn í rúm. Gekk samt hálferfiðlega að sofna því þreytan í bumbunni jókst bara og kom í nokkuð sterkari verkjum öðru hvoru. Náði samt að sofna í tuttugu mínútur eða svo en skánaði samt ekkert af óþægindunum.

Jói var að njóta þess að komin var helgi og kom ekki upp í rúm fyrr en um þrjúleytið. Þá var ég búin að liggja hálffriðlaus í rúminu milli þess sem ég fór á klósettið. Við reyndum að sofna en Jói sá nú fljótt að það þýddi lítið enda var ég greinilega ekki upp á mitt besta. Hann spurði hvort ég héld að fæðingin væri að byrja. Ég hélt nú ekki. Þetta voru greinilega bara svona sterkir fyrirvaraverkir, enda voru enn 4 dagar þar til ég var sett og ég hafði alla meðgönguna verið viss um að ganga fram yfir með barnið.

Hann vildi nú samt fá að taka tímann á verkjunum og náði í gemsann. Í fyrstu mælingu komu fimm mínútur. Í næstu mælingu komu aftur fimm mínútur. Þriðja skiptið, aftur fimm mínútur. Hann þurfti ekki meira og var nú sannfærður um að barnið væri að koma og fór að klára að pakka því sem vantaði í töskurnar sem áttu að koma með á spítalann. Ég lá áfram og reyndi að leiða hjá mér þessa undarlegu verki, því ég var eiginlega viss um að þetta væru ekki hríðir.

Við hringdum í Hreiðrið og mér var sagt að skreppa bara í sturtu og kannski leggja mig smá og koma svo - þó vissulega væri ég velkomin ef mér fyndist ég þurfa að koma strax. Ég þurfti ekkert að koma strax, enda var barnið ekkert að koma. En við lögðum fljótlega af stað og korter fyrir fimm vorum við komin í Hreiðrið. Mér leið eins og algjörum kjána, hvað við værum að æða af stað á spítalann mörgum dögum fyrir fæðingu. Tíminn milli verkja styttist þó alltaf aðeins og í bílnum á leiðinni sá ég hálfvantrúuð að það voru aðeins þrjár mínútur á milli.

Ljósmóðir á vakt athugaði hvort útvíkkun væri hafin og loksins tókst að sannfæra mig.
Ég var komin með 3 í útvíkkun.

Ég var sett í monitor í tæplega klukkutíma til að athuga hríðirnar og hjartslátt barnsins en að því loknu var okkur vísað inn á huggulega fæðingarstofu. Ég kom mér fyrir í Lazy-boy og fékk tvær sneiðar af ristuðu brauði með sultu sem ég nartaði í og tókst að koma niður á endanum til að fá orku fyrir komandi verkefni. Jói fór út í bíl til að sækja töskurnar og vakti mikla kátínu starfsfólks sem hann mætti. Við vorum nefnilega með tvær íþróttatöskur, önnur með mínum föti, snyrtidóti og öðru og hin með þægilegri fötum fyrir Jóa og nestinu okkar (vínber, kex o.fl.). Að lokum vorum við með bakpoka með fötum og teppi fyrir barnið. Já, við ætluðum ekki að láta neitt vanta ;)

Verkirnir fóru að versna og mér fannst kominn tími á glaðloftið. Ég lærði á grímuna og þó stillingin væri ekki það há að ég fyndi neinn mun á mér eftir að anda loftinu að mér, þá var þetta róandi og hjálpaði mér að anda í gegnum hríðirnar.

Klukkan átta kom ný ljósmóðir, Eva Laufey, á vakt og lét hún renna í baðið fyrir mig. Það var yndislegt að koma ofan í heitt vatnið og svamla svolítið um. Glaðloftið fylgdi mér að sjálfsögðu þangað, en það skyldi sko áfram vera við hendina í hríðunum. Meðan ég var í vatninu fékk ég nálastungur í báðar hendur og eina í hnakkann. Ég gat nú ekki fundið að þær gerðu mikið en fínt að prófa.

Klukkan eitt var ég komin með 9 í útvíkkun en vatnið lét samt enn standa á sér. Var fyrir nokkru komin upp úr baðinu og reyndi að finna einhverjar stellingar til að vera í enda verkirnir orðnir frekar slæmir. Eva Laufey bauð mér hvort ég vildi láta sprengja belginn eða bíða. Ég var orðin frekar þreytt og vildi helst fara að ljúka þessu af svo að ég þáði að láta sprengja belginn.

Tveimur og hálfum tíma síðar, eða nákvæmlega kl. 15:31, kom lítil stúlka spriklandi í heiminn og var lögð á brjóstkassann á móður sinni. Stuttu seinna kom fylgjan og svo þurfti að sauma mömmuna smávegis. Ég spurði hvort ég mætti ekki fá glaðloftið aftur (þurfti að sleppa því á rembingstímabilinu) og jú, ég mátti sko vel fá það aftur og nú sagðist Eva Laufey geta stillt það svolítið sterkar.

Ég drakk í mig glaðloftið meðan hún var að byrja og lagði grímuna svo aðeins frá mér þegar hún var búin að deyfa. Og viti menn, nú var sko fútt í glaðloftinu - á augnabliki var ég orðin ansi slompuð og furðuleg. Svo að ég hvíldi nú grímuna að mestu meðan saumaskapurinn kláraðist. Meðan á þessu stóð lá litla daman á berum brjóstkassa föður síns og hafði það ósköp huggulegt.

Við fengum að dúlla okkur inni á fæðingarstofunni í rólegheitum fram til hálfátta en þá færðum við okkur þvert yfir ganginn í fjölskylduherbergið. Afar og ömmur litu stuttlega við um klukkan átta til að kíkja á nýjasta fjölskyldumeðliminn en svo hélt litla fjölskyldan bara áfram að kúra sig saman.

Litla daman var reyndar helst til full af slími sem truflaði hana og var að koma upp úr henni með reglulegu millibili. Það hélt áfram á sunnudeginum og var hún færð inn á vökudeild í nokkra tíma um miðjan daginn meðan fylgst var með henni.

Á mánudagsmorguninn fórum við heim og erum búin að hafa það einstaklega huggulegt þessa fyrstu viku okkar saman.

Þannig var nú þessi fæðingarsaga! :) og þeir sem nenntu að lesa í gegnum allan textann fá lof í lófa.

Fæðingin


Leggja orð í belg
7 hafa lagt orð í belg
17. mars 2007 17:15:19
Gaman, gaman
Gaman að eiga mynd af sér fyrstu andartök lífs síns.
Kveðja frá Rögnu ömmu
Þetta lagði Ragna í belginn
17. mars 2007 18:00:18
Ussssss...það var sko ekkert "að leggja í að lesa söguna" haha..ég drakk hana í mig af áfergju!!! Er sko búin að bíða spennt alla vikuna eftir að heyra hana :D Æðislegt að heyra hvað þetta gekk vel hjá þér...ert algjör hetja :) Ohhhh...svo er þetta orðið svo miklu raunverulegra þegar þú ert búin að eiga ;)Hafið það áfram gott litla familía
Þetta lagði Halla í belginn
17. mars 2007 23:33:37
Ég nennti sko þokkalega að lesa!! Yndisleg fæðingarsaga :) Sé þig alveg fyrir mér á hælunum í snjónum með hríðir, því það var sko snjór!! En við látum sko ekkert stoppa okkur!! Sannir víkingar :) Og talandi um það, þá á ég sko örugglega eftir að ganga 2 vikur fram yfir því ég var svo viss um að mín kæmi fyrr og þú svo viss um að þú færir fram yfir.... hí hí
1000 kossar og knús frá bumbu!
p.s. er alltaf að skoða myndirnar, hún er bara svo fullkomin!
Þetta lagði margrét arna í belginn
18. mars 2007 12:01:16
Þetta er svo mögnuð lífsreynsla - held að svona lagað fylgi manni alla tíð svo sterkt að nánast sé hægt að endurupplifa tilfinningarnar hvenær sem er. Ótrúlegt hvað lífið kemur manni stöðugt skemmtilega á óvart :D

*Knús*
Stefa
Þetta lagði Stefa í belginn
18. mars 2007 16:49:34
Ég las sko alla söguna. Gott að vita hvernig þetta fer fram =)

Hlakka til að sjá ykkur og litlu sætu stelpuna ykkar. Kv. Anna
Þetta lagði Anna Kristín í belginn
18. mars 2007 17:39:11
Skemmti-lesning!
Sæl aftur, það var gaman að lesa
„söguna“ og frábært að allt gekk svona vel. Hún er Fullkomin stúlkan! :o) Var í afmæli í gær með fjölskyldunni sem keypti íbúðina af Helgu Sigrúnu og co. og sagði þeim frá ykkur! Þið fáið nýja nágranna í dag! Gangi ykkur voða vel með litlu dömuna ykkar.
Þetta lagði Steinunn Mar í belginn
19. mars 2007 22:20:31
Já - auðvitað las ég hvert einasta orð eins og allir hinir!! Fyrsta fæðingin er held ég alltaf minnistæðust - öll smáatriðin eru svo ný fyrir manni. Frábært þetta með töskurnar...!!
Þetta lagði Rakel í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum