|
25. febrúar 2007 # Leikföng fyrir geðheilsuna... eða þannig! Ég get glatt ykkur með þeirri staðreynd að barnaleikföng frá "The First Years" eru alveg einstaklega sterkbyggð og þola ótrúlega mikið hnjask. Rafmagnsleikföng frá þeim þola reyndar illa að vera sett í vatn, en það má berja þau alveg ótrúlega oft með hamri án þess að það sjáist á þeim! Og af hverju veit ég það...? ;) Ég átti von á vinnumauraherdeildinni hingað síðastliðinn föstudag. Mamma og Guðbjörg ætluðu að koma frá Selfossi til að setja saman barnahúsgögn og þræla eitthvað fleira fyrir mig. Karlotta og Ragnar Fannberg voru væntanleg með. Ég þóttist nú vita að Guðbjörg yrði með eitthvað dót með fyrir Ragnar en ákvað samt að draga fram það litla sem ég á af smábarnadóti. Þetta hefur legið í kassa inni í geymslu frá því ég flutti á Flókagötuna, eitthvað gamalt dót sem Karlotta og Oddur léku með heima hjá mömmu á Kambsveginum. Mér fannst þetta eitthvað ekki nógu hreint og skellti þessu í bala með sjóðandi vatni og smá sápu. Lítið gult símtól flæktist með í suðubalann og það var ekki fyrr en það fór að pípa ankannalega ofan í vatninu að ég áttaði mig á að þetta var batteríisleikfang, en ekki bara plastklumpur. Ég veiddi vesalings símann upp úr vatninu og lagði til þerris. Lagið sem hann hafði spilað svo skemmtilega var farið að hljóma á fimmföldum hraða og það var sama hvað ég ýtti á, tónlistin hætti ekki. Ég lokaði þvottahúsinu til að þurfa ekki að hlusta á gaulið og sem betur fer var komin ró yfir símtólið þegar við fórum að sofa. Þar sem það leit ekki út fyrir að tækið ætlaði að springa í loft upp eða gera annan óskunda svo að ég henti því í ruslið inni í eldhúsi. Kl. fimm um nóttina fór ég í eina af mínum mörgu nætursalernisferðum og heyrði þá vægt píp úr fjarska. Það tók mig smá stund að átta mig, en þarna var dótasíminn sem sagt byrjaður að pípa með reglulegu millibili. Ég hristi hann og hann þagnaði sem betur fer. Ég fór því aftur að sofa. Um sjöleytið rumskaði Jói og var símkvikindið þá aftur tekið til við að spila lagið sitt á margföldum hraða. Jói sendi símann í útlegð inn í tölvuherbergi, sem er fjærst svefnherberginu, og þar lá apparatið og spilaði enn stanslaust af lífi og sál þegar við komum fram um morguninn. Ég kunni ekki við að henda fjárans símanum í ruslið frammi meðan hann var enn að hljóða, vildi ekki trylla nágrannana líka. Svo að Jói var settur í að kála kvikindinu með hamri, því ekki var hægt að ná tækinu í sundur með góðu móti til að slökkva. Ég get sagt ykkur að það þurfti gjörsamlega að hamast á símfjáranum í lengri tíma áður en það fór að sjást nokkur árangur. Loksins hrundi hann í sundur - en hætti reyndar ekki að spila. Hann hélt áfram að gefa frá sér aumingjalegt gaul þar til við náðum að rífa díóðuna innan úr. Árans apparatið endaði loks í ruslinu og þegir vonandi enn. En sem sagt, get hiklaust mælt með leikföngum frá "The First Years". Þau eru alveg einstaklega sterkbyggð og þola ótrúlega mikið hnjask. Bara ekki setja þau ofan í vatn...
|
Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna
Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)
Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes
Art Lad
Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ
..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á rss.molunum
3 hafa lagt orð í belg
HAHAHAHAHAHa - sé ykkur alveg í anda í þessum hremmingum!! Gott að kynna sér fyrirfram hvað leikföngin þola....já og foreldrarnir líka ;o)
Kveðja,
Stefa
Þetta lagði Stefa í belginn
Hljómar eins og atriði í góðri hryllingsmynd! Sér líka fyrir mér blaðafyrirsögnina:
"Verðandi foreldrar murka lífið úr saklausu barnaleikfangi"
Já stundum er eins og þessi leikföng eigi sér líf!!! Spúkí!
Þetta lagði Rakel í belginn
Já kæra frænka öllu er hægt að lenda í, maður er búin að berjast við margt leikfangið í gegnum börnin og kynnast þessu vel.. frábært að heyra að ég sé ekki sú eina sem lendir í svona "lifandi" dóti....
Þetta lagði Kolla frænka í belginn