3. maí 2007  #
Hrakfallasaga

Sagan mín af kjúklingakaupunum virðist aldeilis hafa slegið í gegn og var hún rifjuð upp á Henríettufundinum fyrr í kvöld. Enda hafa flestir gaman af því að heyra sögur af fólki gera sig að fíflum ;) Ég hef því ákveðið að færa ykkur á silfurfati aðra slíka sögu sem mig minnir að ég hafi ekki skrifað hér inn áður, þó sagan sé nú orðin 2 og 1/2 árs gömul. Rakel, ég held að þessi sé algjörlega að þínu skapi ;)

Örfáum dögum eftir að við fluttum hingað inn í Arnarsmárann sumarið 2004, þá settist ég niður við eldhúsborðið til að fá mér smá miðdegissnarl. Mér fannst tilvalið að glugga í eitthvað meðan ég sæti þarna í rólegheitum að snæðingi og náði því í pósthólfslykilinn og rölti niður til að sækja blöðin.

Ég gekk niður af þriðju hæðinni og niður í forstofu. Mogginn og Fréttablaðið biðu eftir mér og ég bjargaði þeim úr póstkassanum. Ekki man ég hvaða fréttir voru á forsíðunni, en eitthvað hefur það nú verið áhugavert því ég byrjaði að lesa forsíðufréttirnar um leið og ég rölti upp. Ég get nefnilega alveg lesið gangandi - las stundum í pocketbók þar sem ég gekk um göturnar bæjarins í hádegishléinu mínu sumurin sem ég vann í Hallgrímskirkju. Svona er ég fjölhæf ;)

En sem sagt, ég rölti upp rólega upp stigana og sökkti mér niður í blaðalesturinn. Svo kom ég að hurðinni að íbúðinni okkar og opnaði. Um leið og ég opna verður mér litið niður fyrir mig og sé þar gólfmottuna okkar sem við höfðum sett fyrir innan dyrnar. Nema hvað að gólfmottan okkar var enn í einhverjum kassa og var ekki komin á sinn stað. Og hún leit alls ekkert svona út. Hálfutan við mig og enn með hugann við blaðalesturinn lít ég undrandi upp og inn í íbúðina og var enn ekki farin að leggja saman tvo og tvo. Viti menn, meira að segja húsgögnin okkar höfðu breyst meðan ég náði í blöðin.

Jú, mikið rétt. Ég var sum sé bara komin upp á aðra hæð en ekki þá þriðju. Þarna stóð ég í gættinni á íbúð nágrannanna, búin að opna upp á gátt og hefði örugglega verið komin inn í eldhús til þeirra ef gólfmottan hefði ekki stoppað mig. Mér brá skiljanlega nokkuð og hugsaði í skelfingu hvað nágrannarnir myndu halda um þennan nýja geðbilaða nágranna á efstu hæðinni ef þeir sæju mig þarna í dyragættinni. Svo að ég kallaði vesældarlega "halló" inn í íbúðina og var þegar byrjuð að æfa útskýringarnar í huganum. En hinir réttu íbúar höfðu greinilega brugðið sér frá og gleymt að læsa því það svaraði enginn. Svo að ég flýtti mér að loka og hljóp upp. Og inn í mína eigin íbúð.

Þar sem engin gólfmotta var við dyrnar.

Og það versta er að þarna hafði ég ekki einu sinni brjóstaþokuna til að skýla mér á bak við... ;) Eina afsökunin sem ég get borið við er þreyta eftir málningarvinnu á íbúðinni og flutningana - en ég held samt að það dugi skammt.

Ég vona bara að nágrannar mínir verði ekki hneykslaðir heldur sjái húmorinn í þessu ef þeir slysast einhvern tímann hingað inn. Mér finnst þetta a.m.k. alveg ofboðslega fyndið :)


Leggja orð í belg
3 hafa lagt orð í belg
4. maí 2007 22:36:25
Já þessi var bara fyrir mig!! ;)
Þetta lagði Rakel í belginn
5. maí 2007 10:32:00
Hí hí... ég settist einmitt upp í vitlausan bíl um daginn og skyldi ekkert í því af hverju ég kom lyklinum ekki í... Bíllinn var sko allt öðru vísi að innan og ég var ekkert smá skömmustuleg þegar ég þurfti að lauma mér út úr bílnum! EN ég hafði brjóstaþokuna til þess að afsaka mig í þetta skiptið :)
Þetta lagði margrét arna í belginn
5. maí 2007 22:52:31
Ég er svo fegin að einhver skuli toppa mig eftir að ég var næstum farin út úr skólanum í vitlausum jakka. Núna hangir jakki í fatahenginu með áföstum miða sem á stendur að einhver hafi tekið svipaðan jakka í misgripum! Úff - það var ekki ég.
Þetta lagði Rakel í belginn


<< Fyrri dagurNýjasta færslaNæsti dagur >>

Blogg:
Jói
Mamma
Guðbjörg
Magnús Már
Karlotta
Daði
Stefa
Rakel
Marta
Bára
Halla
Elva
Jóhanna

Guðrún Brynja
Karen Elva
Unnsteinn
Ingunn
Simmi
Anna Sigga
Kristinn
Bojskovbúar
Eva
"Afi" (ekki þó minn)

Útlend blogg:
Jan og Elly Melker
Iceland Eyes

Art Lad

Blogg í dvala:
Elísabet
Frú Eva (Stefumamma)
Hófí
Helga Sigrún
Svanhildur
Hulda
Heiður
C-bekkurinn MR
D-bekkurinn KHÍ

..og svo er
fullt af sniðugum
bloggurum
á
rss.molunum