Hljóðsaga Á - Afmæli Önnu og Atla

Í dag er mikil hátíð. Anna og Atli eiga nefnilega afmæli. Þau eru búin að bíða ákaflega lengi eftir afmælinu en nú er það loksins runnið upp.

Fyrsti gesturinn er Ásta frænka. Hún kemur brosandi inn í stofuna og spyr kankvíslega: “Hver á afmæli í dag?”

“Ég á afmæli í dag,” svarar Atli. “Já, og Anna líka,” bætir hann við.

“Já, því við erum nú tvíburar!” segir Anna.

Ásta segir: “Ég er með tvær gjafir hérna en hver á nú hvaða pakka?”

Hún réttir krökkunum pakkana og þau gá á kortin til að sjá hver á hvaða pakka. Þegar þau hafa fundið út hver á hvaða pakka flýta þau sér að taka pappírinn utan af.

Atli fær litabók en Anna fær gátubók. Í báðum pökkunum eru átján litir.

“Sjáðu Anna,” segir Atli. “Það eru tveir bláir litir.”

“Já, en enginn grár”, svarar Anna.

Nú hringir dyrabjallan og krakkarnir flýta sér til dyra. Þar eru komin Árni og Lára, vinir þeirra sem búa á Álagötunni.
Þau fara öll saman inn í stofu.

Lára spyr tvíburana: “Eruð þið búin að fá marga pakka?”

Anna: Jáááá, ég á það sem er hérna á stofuborðinu og Atli á það sem er á bókaskápnum.

Atli fer að bókaskápnum og lyftir upp litlum árabát og segir: “Ég fékk þennan gráa bát frá afa og ömmu.”

Önnu langar líka að sýna sínar gjafir og segir: “Og ég fékk bláa kápu frá Dísu og Stjána. Hún verður sko frábær í skólann í vetur.”

“Svo fengum við saman hátalara frá mömmu og pabba til að geta hlustað saman á nýja geisladiskinn með Fáráðlingunum.”

“Frábært! Það er sko uppáhaldshljómsveitin mín,” segir Lára.

“Opnið pakkana frá okkur,” segir Árni spenntur og tvíburarnir taka við gjöfunum.

“Sjáðu, Atli,” segir Anna spennt. “Ég fékk álfabúning og það fylgir m.a.s. álfahúfa.” Hún setur álfahúfuna strax á höfuðið.

“Váááááá,” hrópar Atli þegar hann opnar sinn pakka og sér indjánabúninginn sem hann er að fá. “Eigum við að koma í indjánaleik?”

“Jáááááá, mig langar það” segir Árni. “Ég skal vera kúreki og þú gerir árás á mig.”

Atli tekur strax undir það og rekur upp mikið gól. “Áááááááááá.”

“Það er svo mikill hávaði í strákunum,” segir Anna. “Eigum við kannski bara að spila?”

“Já, gerum það,” svarar Lára. “Á ég að taka þennan stokk?”

“Nei það vantar einn ásinn í hann,” svarar Anna. “Ég skal ná í annan.”

Þegar allir gestirnir eru komnir birtist mamma að ná í alla til að setjast við borðið.

“Nú á að drekka, krakkar mínir” segir hún og allir fara inn í stofuna. Hún fer svo til ömmu sem situr í sófanum og segir henni á táknmáli að koma og fá sér að borða. Amma er nefnilega heyrnardauf og talar yfirleitt bara táknmál.

Afi lítur á matarborðið og segir: “Hvurs lags eiginlega, er ekkert slátur?”

Anna hlær og segir: “Afi, nú ertu kjáni, það borðar enginn slátur í krakkaafmælum!”

“Hafðu ekki áhyggjur, pabbi minn” segir mamma við afa. “Ég er hérna með ávexti fyrir þá sem vilja ekki kökur”.

Hún kemur með ávaxtakörfuna góðu úr eldhúsinu og ætlar að setja hana á borðið. En áður en hún nær að setja hana frá sér slitnar handfangið af körfunni og allir ávextirnir detta niður á gólf. Það heyrist ákaflega mikill hávaði.

Anna rekur upp smá gól.

“Áááááá það duttu ávextir á stóru tána mína! Ááááá!”

Kisan Káta lætur sér fátt um finnast, hún er sko ekki hrædd við hávaða. Hún kúrir sig undir skáp og mjálmar: mjááááááááá mjááááááááá.

“Já, já Káta mín,” segir mamma. “Þú átt að fá eitthvað líka.”

Hún tekur ávextina upp af gólfinu og lætur svo mjólk í skál handa Kátu. Þá er Káta nú ánægð.

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir