Hljóðsaga B - Bogi Brómber (unnin upp úr samnefndri Smjattpattabók)

Pála Púrra hafði unnið allan morguninn við að búa til ýmislegt gott að borða, t.d. brjóstsykur, brauð, bananabökur, bjúgu og bollur. Petra Pera hjálpaði henni að hlaða kræsingunum í bestu körfuna sem þær áttu.

“Þetta er svei mér gómsætt, Pála,” sagði hún.

“Abbabbabb,” sagði Pála byrst. “Þetta á að fara í nýju búðina okkar sem verður besta búðin í bænum.”

Boggi og Biggi höfðu hjálpað Petru og Pálu við að byggja glæsilega nýja búð. Matnum var staflað hátt í búðargluggann og Smattpattarnir fóru í heljarlangar biðraðir til að kaupa matinn. Bogi Brómber horfði öfundsjúkur á.

“Ég vildi að ég ætti búð,” sagði hann.

Seinna um daginn fór Bogi til Bogga til að fá spýtur og nagla. Síðan klambraði hann saman sinni eigin búð. Þremill þyrniber hló að þessu.

“Hvar ætlarðu að fá matinn?” spurði hann.

En Bogi Brómber brosti bara.

Næst þegar Petra og Pála komu að opna búðina brá þeim heldur betur í brún. Allur maturinn var horfinn.

“Hver tók brjóstsykurinn, brauðið, bananabökurnar, bjúgun og bollurnar?” hrópaði Pála svo það bergmálaði í. Bananabræður og fleiri sem höfðu komið til að kaupa brauðbollur urðu fyrir miklum vonbrigðum.

“Engar áhyggjur,” æpti Bogi Brómber úr nýju búðinni sinni. “Ég er með brauðbollur og baunabökur o.fl.”

Bráðum myndaðist biðröð við búðina hans Boga Brómbers.

Pála og Petra hvesstu á hann augun, fullar grunsemda.

“Það er best að fara og finna Gunna Grasker löggu. Ég er biss um að þetta er maturinn úr búðinni okkar.”

Seinna um daginn var Pála aftur búin að fylla búðina af heimatilbúnum mat. Á lokunartíma kom svo Gunni Grasker með blýsterkar keðjur og hengilása.

“Ég skal sjá til þess að enginn taki brauðið ykkar, bjúgun, bökurnar og brjóstsykurinn.”

Næsta morgun stukku Petra og Pála í loft upp af reiði þegar þær sáu að aftur var búið að ræna öllum bjúgunum, brjóstsykrinum, brauðinu og hinu úr búðinni.

“Þabbaraþa...” sagði Gunni Grasker. “Þetta er barasta ekki mögulegt!”

“Hvernig fórstu að þessu, Bogi Brómber?” hvíslaði Þremill.

“Algjör barnaleikur,” tísti í Boga.

Bogi fór með Þremil í búðina sína og sýndi honum býsna stóran hlemm fyrir innan búðarborðið. Þar undir blöstu við breið neðanjarðargöng.

“Þau liggja beint inn í búð stelpnanna,” sagði Bogi Brómber.

En Bogi og Þremill sáu ekki að Gunni Grasker beið við búðarborðið og heyrði allt sem þeir sögðu. Hann flýtti sér heim til Baunabelgs prófessors. Baunabelgur bjó til kort og fór síðan að finna Bogga, Bigga og Tomma Tómat.Þeir bjuggu til ný neðanjarðargöng og enduðu rétt hjá göngunum hans Boga.

Um nóttina skriðu óþekktarberin af stað í gegnum göngin frá búðinni hans Boga að búð stelpnanna. Þeir fylltu bakpokana sína af góðgæti og brutu sér síðan leið tilbaka í gegnum göngin.

En á meðan höfðu Baunabelgur prófessor og hinir breytt göngunum og fyllt upp í gömlu göngin sem lágu í búðina hans Boga Brómbers.

“Boga bregður aldeilis í brún,” sagði Baunabelgur hlæjandi.

Boga leist ekki á blikuna.

“Mér sýnast göngin hafa breyst,” sagði hann.

“Láttu ekki eins og bjáni,” sagði Þremill. “Þau eru ekkert breytt, það eru bara ein göng.”

En Bogi Brómber og Þremill urðu býsna hræddir þegar þeir höfðu bisað við að lyfta hlemminum við lok gangana og sáu að þeir voru ekki í búðinni hans Boga Brómbers heldur í fangaklefa Gunna Graskers.

Gunni hélt Boga Brómberi og Þremli ekki lengi innilæstum en þeim fannst ekki baun gaman í fangelsinu. Og lengi eftir þetta voru þeir hin mestu þægðarber og voru barnanna bestir.

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir