Hljóðsaga É - Héðinn og Gréta í hagléli

Héðinn og Gréta eru vinir og félagar. Þau eru í sama bekk í Klébergsskóla. Í síðustu viku lentu þau í svaka ævintýri með félögum sínum úr skólanum. 1. É fór í ferðalag norður í Hlégarðsfjall. Þau urðu hissa þegar þau sáu rútuna sem kom og sótti þau.

“Þetta er nú léleg rúta!” sagði Gréta.

“Já, það finnst mér líka!” sagði Héðinn.

Það var svo sem rétt hjá þeim. Rútan var gömul og að detta í sundur. En allir voru spenntir og þau gleymdu rútunni fljótt. Þau drifu sig inn og fundu sæti.

“Komdu, Gréta,” kallaði Héðinn. “Komdu og sestu við hliðina á mér!”

“Já, ég kem og sest hjá þér,” svaraði Gréta.

Í næsta sæti voru Margrét og Pétur. Margrét var með fallegar fléttar.

“Flétturnar þínar eru svo flottar,” sagði Gréta. “Viltu flétta mig á eftir?”

“Já, ég skal gera það,” svaraði Margrét. “Ég skal flétta þig ef þú vilt!”

“Viltu líka flétta mig?” spurði Hlédís.

“Já, ég skal líka flétta þig,” svaraði Margrét.

Það skrölti í vélinni í rútunni á leiðinni. Eftir nokkurn tíma komu þau í Hlégarðsfjall og kennarinn þeirra sagði að nú færu þau í göngutúr. Krakkarnir söfnuðust saman og gengu af stað. Þau höfðu ekki gengið lengi þegar gríðarlegt haglél brast á svo að ekki sást neitt.

“Ég sé ekkert!” hrópaði Gréta í gegnum éljaganginn.

“Ég sé ekkert heldur!” hrópaði Héðinn á móti.

Einhvern veginn náðu þau að grípa í hendurnar hvert á öðru svo þau myndu ekki týnast alveg. Vindurinn blés og blés og einhvers staðar í fjarska heyrðu þau að einhverjir krakkar grétu. Það voru allir hræddir í éljaganginum.

Skyndilega datt Gréta.

“Æææ ég meiddi mig í hnénu!” sagði hún.

“Við skulum bara stoppa hérna svo við meiðum okkur ekki meira,” sagði Héðinn. Þau settust upp við næsta tré og létu sig hafa haglélið ógurlega.

Þar sátu þau þar til haglélið hætti og éljaganginum létti.
En Gréta og Héðinn sáu engan úr bekknum, þau voru villt.

“Ég vildi óska að við værum með landabréf,” sagði Héðinn. “Þá væri létt að rata tilbaka.”

Þau sáu flugvél fljúga yfir en hún var of langt frá til að flugmaðurinn gæti séð þau.

Allt í einu heyrðu þau skrjáf í runna á bak við sig. Eitthvað dýr var að koma.

“Vonandi er það ekki hlébarði sem ætlar að éta okkur,” sagði Gréta.

“Vonandi eru ekki hlébarðar hérna í Hlégarðsfjalli,” sagði Héðinn.

En sem betur fer var þetta nú ekki hlébarði heldur lítill héri sem skaust strax í burtu.

Þá heyrðu krakkarnir að einhverjir hrópuðu nöfnin þeirra.

“Héðinn! Gréta!

“Við erum hérna!” hrópuðu Héðinn og Gréta tilbaka. “Við erum hérna!”

Þetta voru Andrés kennari og tvíburarnir Vésteinn og Védís sem voru að leita að þeim.

Sem betur fer komust allir í 1.É tilbaka í Klébergsskóla heilir á húfi. Það kom frétt um þau í útvarpinu, að þau hefðu lent í éljagangi og týnst og krökkunum fannst það nú ekki lélegt!

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir