Hann Lalli var lítill, ljóshærður strákur sem átti heima á Langanesi. Honum fannst gaman að leika sér í tölvunni sinni og hann var ansi laginn við að lesa. En þegar það kom að því að Lalli ætti að hreyfa sig þá varð hann svo hræðilega latur. Hann var því oft uppnefndur Lalli lati.
Lalla fannst leiðin í skólann ósköp löng og honum fannst leiðinlegt að þurfa að labba alla þessa leið. Hann spurði mömmu sína og pabba stundum hvort þau vildu ekki skutla honum en þau sögðu að hann hefði gott af því að labba. Stundum velti Lalli því fyrir sér hvort hann ætti ekki bara að geyma vasapeningana sína svo hann gæti tekið leigubíl í skólann en það varð aldrei neitt úr því.
Lalla fannst almennt gaman í skólanum...nema í leikfimi. Hann þoldi ekki leikfimi því þá þurfti hann að hreyfa sig svo mikið og það fannst honum leiðinlegt. Hann var ekki liðugur eins og Lovísa og Loftur sem voru alltaf svo dugleg í leikfiminni. Ef hann átti að hlaupa varð hann strax lafmóður og vildi bara leggja sig.
Dag einn sagði leikfimikennarinn krökkunum frá því að það ætti að vera kapphlaup eftir tvær vikur og sá sem ynni í kapphlaupinu fengi í verðlaun dagsferð í tívolí. Í dag myndu þau æfa sig fyrir kapphlaupið á hlaupabrautinni fyrir utan leikfimihúsið. Krakkarnir röðuðu sér á línuna og leikfimikennarinn ræsti hlaupið. Allir þustu af stað, líka Lalli. En Lalli gafst fljótt upp. Hinir krakkarnir hlupu miklu hraðar og Lalli hugsaði með sér að hann myndi hvort eð er aldrei ná þeim svo hann nennti ekki að hlaupa meira. Hann labbaði út af brautinni og lagði sig í grasið. Hann var samt svolítið leiður. Auðvitað langaði hann líka að vinna ferð í tívolí en þar sem hann nennti aldrei að hreyfa sig þá var hann orðinn svo linur að hann einfaldlega gat ekki meir.
En þar sem hann lá í grasinu heyrði hann skyndilega rödd. Hann leit í kringum sig forviða og sá þá skyndilega lítinn ljósálf sem stóð í grasinu við hlið hans. Ljósálfurinn var ekki stærri en litli puttinn á Lalla.
“Ertu bara búinn að gefast upp, Lalli?” spurði ljósálfurinn.
Lalli leit undan og kinkaði kolli. Honum fannst nú ekkert gaman að viðurkenna það fyrir ljósálfinum hvað hann var latur og lélegur í leikfiminni.
“Langar þig ekki að vinna ferðina í tívolíið?”
“Jú,” svaraði Lalli. “En ég get ekki hlaupið hratt svo ég get ekki unnið.”
“Iss,” sagði ljósálfurinn. “Þú þarft bara að æfa þig. Ég ætla að láta þig kenna þér töfralag sem þú getur sungið til að ganga betur.”
Svo söng ljósálfurinn fyrir Lalla lagið sem átti að hjálpa honum.
Lalli getur hlaupið, ligga ligga lá,
ligga ligga lá, ligga ligga lá.
Lalli getur hlaupið, ligga ligga lá,
langar þig kannski til að sjá?
“Þetta er nú asnalegt lag,” sagði Lalli.
“Já, en það virkar,” sagði ljósálfurinn lymskulega. “Farðu nú að æfa þig.”
Og í þeim orðum gufaði ljósálfurinn upp.
Lalli hugsaði sig um í smá stund. Það gat nú ekki sakað að prófa að æfa sig, fyrst hann var kominn með töfralag til að syngja. En ekki strax, ekki fyrir framan hina krakkana sem voru alltaf að stríða honum og kalla hann Lalla lata og Lalla lina. Nei, hann ætlaði að æfa sig í leyni.
Um kvöldið læddist Lalli út og fór á hlaupabrautina. Hann byrjaði á að syngja lagið nokkrum sinnum yfir og svo hljóp hann af stað. Hann varð fljótt mjög þreyttur en ferðin í tívolíið lokkaði hann svo hann raulaði töfralagið nokkrum sinnum og hélt svo áfram að hlaupa. Eftir nokkurn tíma var hann orðinn of þreyttur til að æfa meira en hann var samt búinn að hlaupa heilmikið.
Næsta morgun kvartaði Lalli ekkert þegar hann labbaði af stað í skólann. Honum virtist leiðin m.a.s. styttri en vanalega. Um kvöldið læddist hann aftur á hlaupabrautina og hljóp heilmarga hringi. Næsta kvöld hélt hann áfram að æfa sig að hlaupa og líka kvöldin þar á eftir. Hann æfði sig á hverju kvöldi þar til loksins kom að kapphlaupinu mikla.
Áður en kapphlaupið hófst söng Lalli töfralagið nokkrum sinnum yfir. Hann var svolítið kvíðinn en vonaði það besta.
Leikfimikennarinn ræsti nú hlaupið og krakkarnir þustu af stað, líka Lalli. Lovísa og Loftur voru fljótt komin fremst og þau voru nokkuð viss um að annað þeirra myndi vinna hlaupið. En þá skyndilega... allt í einu kom Lalli hlaupandi eins og elding, þaut fram úr Lovísu og Lofti og vann hlaupið. Allir krakkarnir klöppuðu og fögnuðu ákaft.
“Til hamingju, Lalli,” hrópuðu þau. “Þú ert bara alls ekkert lélegur í leikfimi.”
Lalli var himinlifandi. Leikfimikennarinn kom til hans og óskaði honum til hamingju og spurði hvernig hann hefði eiginlega farið að þessu.
“Þetta var töfralaginu að þakka,” sagði Lalli hlæjandi.
“Töfralagi?” spurði leikfimikennarinn hissa.
En þá birtist ljósálfurinn og nú var hann jafnstór og Lalli sjálfur.
“Töfralagið er bara venjulegt lag,” sagði ljósálfurinn flissandi. “Þetta er allt sjálfum þér að þakka því þú varst svo duglegur að æfa þig.”
“Ja, hérna,” sagði Lalli og var enn ánægðari með árangurinn.
“Kannski við förum bara að kalla þig Lalla langfljótasta,” sagði leikfimikennarinn og brosti.
Lalli brosti á móti en settist síðan niður til að teygja á löppunum. Hann hlakkaði mikið til að fara í tívolíferðina langþráðu.
© Sigurrós Jóna Oddsdóttir