Hljóðsaga V - Vignir og Valdís

Vignir og Valdís voru úti að leika sér. Veðrið var vætusamt og vindar þutu um loftið. Til að verða ekki vot í fæturna voru Vignir og Valdís í vaðstígvélunum sem þau fengu síðastliðið vor. Vignir var að leika sér að vaða í pollum meðan Valdís var að láta nýja vörubílinn sinn keyra á gangstéttinni. Þau prófuðu að fara á vegasaltið en það var of blautt til að hægt væri að sitja á því lengi.

Nú sáu þau Víði vin sinn koma labbandi til þeirra. Víðir æfir með þeim fótbolta með Val. Víðir var með virkilega flotta vettlinga með myndum af vígalegum víkingum.

Vignir spurði Víði hvar hann hefði fengið þessa vettlinga og það kom í ljós að Víðir hafði fengið þá í afmælisgjöf í síðustu viku. Valdís og Vignir höfðu ekki komist í veisluna því þá voru þau að heimsækja Víglund afa í Vestmannaeyjum.

Víðir hafði líka fengið vatnsliti, vasaljós og alvöru veiðistöng í afmælisgjöf.

Hann sagði krökkunum að hann hefði verið að veiða með pabba sínum til að prófa veiðistöngina og það hefði virkilega stór fiskur bitið á hjá honum. Fiskurinn var eiginlega algjört villidýr því hann var næstum búinn að toga stöngina út úr höndunum á Víði. Aumingja Víðir vildi ekki missa stöngina út í veiðivatnið, og varaði sig ekki svo að hann datt út í vatnið og varð voðalega blautur.

"Vá, sagði Valdís. Vá hvað þetta hefur verið stór fiskur!"

"Já, ég veinaði alveg þegar ég datt í vatnið. Mér varð svo kalt í vatninu að svo varð ég bara veikur. En samt er ég engin veimiltíta."

Nú kallaði mamma Valdísar og Vignis á þau inn í kaffi. Hún var búin að búa til vöfflur með villiberjasultu.

"Viltu koma með inn og fá vöfflur?" spurði Vignir Víði.

Víðir var sko til í það. Þau voru fljót að koma sér inn og skófluðu í sig öllum vöfflunum. Svo fóru þau aftur út að leika og fóru í víkingaleik og bjuggu sér til virki.

 

© Sigurrós Jóna Oddsdóttir